Skarphéðinn Ásbjörnsson bregður á leik í limru: Að elskast var Önnu vel gefið, hún alveg gat sætt sig við slefið. En oft hreyrðist org, augun stútfull af korg. Því Tobbi hann tók svo í nefið. Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli…

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Skarphéðinn Ásbjörnsson bregður á leik í limru:

Að elskast var Önnu vel gefið,

hún alveg gat sætt sig við slefið.

En oft hreyrðist org,

augun stútfull af korg.

Því Tobbi hann tók svo í nefið.

Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:

Vex á fótum hesta hér,

hluti þaksins nafnið ber,

á gömlum lykli einnig er,

orðið löngu grátt á mér.

Eins og vísnaáhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu vísnagátunnar. Harpa á Hjarðarfelli ratar á svarið:

Hófskegg vex á hesta fótum.

Heitir þakskegg skyggni ranns.

Skegg á gömlum lykli ljótum.

Líka skegg á vanga manns.

Úlfar Guðmundsson svarar með sléttuböndum, sem eru þeirrar náttúru að þau má flytja bæði aftur á bak og áfram:

Prýða fætur hófskegg hér.

hátt uppi þakskegg er.

Stríða skeggið meinar mér.

Mikið gráskegg karl ber.

Og aftur á bak:

Ber karl gráskegg mikið.

Mér meinar skeggið stríða.

Er þakskegg uppi hátt hér.

Hófskegg fætur prýða.

Þá Guðrún Bjarnadóttir:

Skegg á fótum hesta hér.

Með heiðri þakskegg nafnið ber.

Lykilskegg á lykli er.

Lítið er grátt skegg á mér.

Skyndilausn frá Helga Einarssyni:

Hófskegg prýðir hestana,

húsið þakskegg ber,

skegg er skörð í lyklana,

skegg mitt grána fer.

Sjálfur leysir Páll gátuna þannig:

Á fótum hestur hefur skegg,

á hússins þaki neðst er skegg,

á húskykli var heljar skegg,

á höku minni gránar skegg.

Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:

Kappar hraustir klífa hann,

kveikjuneista deilir hann,

allir smiðir eiga hann,

í eyru lamba skorinn hann.