Hvað heita þessir tónleikar?
Þeir heita Alter Eygló – frumsamin karókítónlist, fjárfesting til framtíðar. Ég hef verið að semja tónlist ætlaða til flutnings í karókí og hef verið með pælingar um að setja karókí-útgáfuna á Spotify en geyma söngútgáfuna fyrir tónleika. Ég vil fá fleiri til að koma á tónleika til mín.
Hver er Alter Eygló?
Það er mitt hliðarsjálf sem er í popptónlist á meðan ég er klassískt tónskáld.
Er erfitt að lifa af sem tónskáld?
Já, það hefur gengið upp og ofan. Ég hef samið kóratónlist og tónlist fyrir leikhús en það er engin eftirspurn og ég kann ekki að markaðssetja sjálfa mig. Þessi sýning er svolítið ég að reyna að koma mér og minni tónlist á framfæri.
Var mikil áskorun að semja popplög?
Ekki í sjálfu sér en ég veit ekki hvernig þau myndu falla í kramið á útvarpsstöðvunum. Það var erfiðara að hljóðblanda og útsetja heldur en að semja, en ég sem yfirleitt við píanóið heima. Textarnir eru allir um hversdagslega hluti og um einstaka atvik í lífi mínu. Hversdagslegur absúrdleiki.
Hverju mega áhorfendur búast við?
Ég vil ekki segja of mikið en þeir geta búist við að taka þátt, án þess þó að þurfa að fara upp á svið að syngja. Ég lofa góðri kvöldstund. Kannski verða lögin mín svo vinsæl að þau komast í spilun í útvarpi.
Hvaða hóps fólks viltu ná til?
Ég er að reyna að semja tónlist fyrir fjöldann með þessum karókílögum. En draumaáhorfendur eru listunnendur. Ég tala á milli laga um hvernig er að lifa af tónlist, en í dag er ég að vinna í þremur hlutastörfum; í tískuvöruverslun um helgar, í Borgarleikhúsinu á kvöldin og um helgar og svo er ég að kenna tónfræði í Söngskólanum í Reykjavík. Þess á milli sem ég mína tónlist. Draumaverkefnið væri að semja fyrir Sinfó eða Caput.
Tónskáldið Eygló Höskuldsdóttir Viborg fer óhefðbundnar leiðir til að kynna sig og samdi karókílög. Í sýningunni mun hliðarsjálf hennar, Alter Eygló, flytja lögin opinberlega ásamt því að velta vöngum yfir hvernig hún eigi að ná endum saman af tónlistinni einni. Þrjár sýningar verða á Ölveri nú í lok janúar og byrjun febrúar. Aðgangur er ókeypis en upplýsingar má finna á tix.is.