Mín fyrstu viðbrögð voru þau að opna gluggann upp á gátt, stinga höfðinu út og öskra mjög hátt og mjög reiðilega: HEY!

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Innbrot eru óskemmtileg. Ég lenti einu sinni í því og aðkoman var dapurleg. Búið var að stela einhverjum raftækjum og fatnaði og róta í öllu, meira að segja kíkja í ísskáp og frysti en bráðnaður grænn frostpinni lá á gólfinu í „blóði“ sínu. Þjófurinn hefur ekki kunnað að meta grænan hlunk.

Stundum eru samt meintir þjófar alls ekki þjófar. Eitt sinn fékk mamma gesti frá útlöndum og ákvað að láta þeim eftir íbúðina en sjálf fékk hún inni í kjallaraherbergi hjá dóttur sinni. Síðla kvölds fór hungrið að sverfa til sín og mamma trítlaði upp í eldhús á næstu hæð til að ná sér í mjólkurglas og brauðsneið. Systir mín hafði steingleymt að mamma væri í húsinu og hringdi rakleiðis í lögregluna að tilkynna innbrot og var sjálf skjálfandi úr hræðslu. Löggan mætti með blikkandi blá ljós og tveir fílefldir lögreglumenn æddu inn í kjallara og slengdu upp dyrunum að herberginu. Mamma lá þar á dýnu með mjólkurglasið sitt, eins og dádýr í háu ljósunum, steinhissa á þessum látum. Þeir sneru sér svo að systur minni með þessum orðum: „Á þessi kona að vera þarna?“ Jú, ekki var hægt að neita því. Alsaklaus amman.

Á hverfissíðunni á Facebook var nú fyrir skömmu verið að vara við furðulegum mannaferðum við hús. Ég var því á varðbergi nótt eina þegar ég hrökk upp við umgang fyrir utan húsið mitt. Ég svipti gardínum frá og sá þá heldur léttklæddan mann standa þar, að lýsa með vasaljósi á hurðina að geymslunni. Þar inni er reyndar ekkert bitastætt; gamalt drasl sem bíður þess að eigandinn sorteri og fari með á Sorpu.

Alla vega voru mín fyrstu viðbrögð þau að opna gluggann upp á gátt, stinga höfðinu út í frostið og öskra mjög hátt og mjög reiðilega: HEY! Á þessu sekúndubroti sem tók að taka þessa ákvörðun var meiningin að þjófnum myndi bregða svo mikið að hann myndi hætta við allt saman og hlaupa í burtu. Svona eftir á að hyggja á maður kannski ekkert að öskra á þjófa; ekki veit maður alltaf í hvaða ástandi þeir eru eða hvort þeir eru vopnaðir.

En alla vega, ég ætla ekki að halda ykkur lengur í spennu.

Manninum brá heldur betur í brún við öskrið, sneri sér snöggt við og leit upp. Stendur þá ekki bara þar tvítugur sonur minn á hvítum stuttermabol, að leita að snjóbrettinu sínu um miðja nótt eins og maður gerir. Skemmst er frá því að segja að við fengum bæði næstum hjartaáfall. Ég var lengi að sofna á eftir, enda bæði í spennufalli og hláturskasti. Já, ekki er alltaf allt sem sýnist. Stundum eru „þjófar“ bara alls ekki þjófar!