Í Zagreb
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Ísland á litla von um að ná sæti í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir tap fyrir Degi Sigurðssyni og hans mönnum í Króatíu, 32:26, í 2. umferð milliriðils 4 í Zagreb í gærkvöld.
Ólíklegt er að sigur á Argentínu í lokaumferð riðilsins nægi til að fara áfram, þar sem auk þess þarf að treysta á hagstæð úrslit í öðrum leikjum eins og útskýrt er nánar hérna hægra megin í opnunni.
Staðan hjá íslenska liðinu fyrir leikinn var þannig að það hefði mátt tapa honum með þriggja marka mun en verið samt nánast öruggt um sæti í átta liða úrslitunum. Króatarnir þurftu minnst fjögurra marka sigur til að ná yfirhöndinni í innbyrðis leikjum gegn Egyptalandi og Íslandi, þar sem útlit var og er fyrir að öll þrjú liðin endi með átta stig í riðlinum.
Tuttugu í fyrri hálfleik
Fyrri hálfleikurinn var hreint út sagt algjör martröð og staðan að honum loknum var 20:12. Íslenska liðið var búið að fá á sig tveimur mörkum meira en í öllum leiknum gegn Slóveníu síðasta mánudagskvöld.
Króatar komust mest tíu mörkum yfir en íslenska liðið náði að koma muninum niður í sex mörk í seinni hálfleiknum. Þá varði Viktor Gísli Hallgrímsson ellefu skot eftir að hafa ekki varið eitt einasta í þeim fyrri.
Ísland mætir Argentínu á morgun klukkan 14.30. Ef öll úrslit verða eftir bókinni fer liðið heim að milliriðlinum loknum þrátt fyrir fimm sigra í sex leikjum á mótinu.
Þá er hætt við að þessi hræðilegi fyrri hálfleikur gegn Króötum í gærkvöld verði lengi í minnum hafður.
KRÓATÍA – ÍSLAND 32:26
Arena Zagreb, milliriðill 4 á HM, 24. janúar 2025.
Gangur leiksins: 1:2, 5:2, 9:4, 12:5, 14:9, 18:10, 20:11, 20:12, 24:15, 28:18, 28:21, 30:21, 31:25, 32:26.
Mörk Króatíu: Ivan Martinovic 8, Mateo Maras 5, Zvonimir Srna 5, Mario Sostaric 4, Filip Glavas 3/1, Marin Sipic 2, Igor Karacic 2, Marko Mamic 1, David Mandic 1, Marin Jelinic 1.
Varin skot: Dominik Kuzmanovic 17.
Utan vallar: 4 mínútur.
Mörk Íslands: Viggó Kristjánsson 5/2, Orri Freyr Þorkelsson 4, Aron Pálmarsson 4, Janus Daði Smárason 3, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Haukur Þrastarson 2, Elvar Örn Jónsson 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 11, Björgvin Páll Gústavsson 2.
Utan vallar: 4 mínútur.
Dómarar: Ignacio Garcia og Andreu Marin, Spáni.
Áhorfendur: 15.600, uppselt.