Ég á ekki beint minningu frá Kvennafrídeginum en ég var ekki orðin há í loftinu og ekki komin með kosningarétt þegar ég gekk um með X-V-barmmerki í úlpunni minni og beið spennt eftir því að kjósa Kvennalistann. Það gekk svo ekki sem skyldi þar sem Kvennalistinn var hættur í framboði þegar ég fékk loksins kosningarétt. Ég hef alltaf verið jafnréttissinni og finnst að allir eigi að hafa jafna möguleika óháð kyni. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim konum sem ruddu veginn að betri og auknum réttindum kvenna,“ segir Kristín Elfa Axelsdóttir, sviðsstjóri reikningsskila og stjórnendaupplýsinga hjá ELKO.
Kristín Elfa er á því að það séu mikil forréttindi að búa og starfa á Íslandi. „Þar sem möguleikar kvenna í atvinnulífinu eru til jafns óháð kyni. Við eigum mikið af flottum konum sem eru í forsvari stærstu fyrirtækja Íslands og megum vera stolt af því.“
Ömmurnar voru miklar fyrirmyndir
Áttu sterkar fyrirmyndir í lífinu?
„Vigdís Finnbogadóttir hefur alltaf verið mín helsta þekkta fyrirmynd í lífinu eins og svo margra. Annars hafa ömmur mínar báðar alltaf verið fyrirmyndir. Þær voru mjög ólíkar. Föðuramma mín, Karen Elisabeth Bryde, var dönsk og settist að á Íslandi ung að árum ásamt Claus Kortsen Bryde afa mínum, sem var einnig danskur. Þau stofnuðu heimili á Íslandi langt frá fjölskyldum sínum en fjarlægðin við útlönd var mun meiri á árum áður. Móðuramma mín, Ása Georgsdóttir, var fædd og uppalin í sveit á Snæfellsnesi og bjó þar alla ævi. Hún tók við búi foreldra sinna og sinnti búskap nánast þar til hún kvaddi. Ég var svo heppin að fá að njóta samveru með þeim fram á fullorðinsár en þær voru 94 ára og 89 ára þegar þær létust. Það voru mikil forréttindi fyrir mig og systkini mín að vera til skiptis í Danmörku hjá ömmu sem hélt heimili í Danmörku og Íslandi seinni árin, að læra dönsku og kynnast danskri menningu. Ekki voru það minni forréttindi að fá að taka þátt í sveitastörfunum. Þó að þær væru ólíkar og ættu ólíkan bakgrunn áttu þær það sameiginlegt að vera algjörar kjarnakonur,“ segir Kristín Elfa og bætir við: „Fyrirmyndir mínar í dag eru einstaklingar sem þora að hrósa, deila og upphefja annað fólk sem er styrkleiki sem ég ber virðingu fyrir. Þetta eru fyrirmyndir með góð gildi óháð kyni.“
Þegar kemur að markmiðum ársins svarar Kristín Elfa um hæl: „Markmiðin mín síðustu ár hafa verið þau sömu, að verða enn betra eintak af mér sjálfri og að gera meira af því sem gerir mér gott og minna af því sem gerir mér ekki jafn gott. Við konur þurfum líka að vera duglegri að sýna okkur meiri sjálfsmildi. Við þurfum ekki að vera 100% á öllum vígvöllum, annars er maður alltaf með samviskubit yfir einhverju, hvort sem þar eru börnin, vinnan, skólinn, heimilið, líkamsræktin, vinir eða fjölskyldan.“
Mikilvægt að muna að hafa gaman
Hún er dugleg að læra af þeim sem lengra eru komnir í lífinu, eins og hún orðar það sjálf. „Hvort sem það er fagleg eða persónuleg reynsla. Ég er heppin að starfa með fólki með mismunandi hæfileika sem maður getur lært endalaust af og á auk þess sterkan og góðan vinahóp. Ég ætla að halda þessum lærdómi áfram. Eins finnst mér mikilvægt að gefa af mér þá reynslu sem ég hef öðlast í lífinu. Það gerir manni svo gott að sjá aðra læra, þroskast og blómstra.“
Þegar kemur að vinnunni segir Kristín Elfa áherslurnar vera á því að finna lausnir til að auðvelda vinnuna fyrir sig og aðra. „Það er gert með aukinni tækni og með því að sækja nýja þekkingu í faginu sem ég starfa í. Það getur verið gott að minnast þess reglulega að ekki er nauðsynlegt að kunna allt og vera bestur í öllu, heldur fá aðstoð frá samstarfsfélögum, sem standa manni framar í því sem við erum ekki best í. Mér finnst líka mikilvægt að muna að hafa gaman í lífinu. Að jákvæðni og léttleiki gera manni lífið, og vinnuna, alltaf skemmtilegra og auðveldara.“
Hún segir mörg markmið nást með góðu starfsmannahaldi, líkt og því sem boðið er upp á í ELKO. „Mér finnst frábært hvað ELKO og önnur félög í Festi-samstæðunni styðja vel við starfsfólk sitt með flottum menntapakka og frábærum velferðarpakka sem hefur reynst mörgum ómetanlegt.“