Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Nýir hlaðvarpsþættir um hvarf Jóns Þrastar Jónssonar árið 2019 eru nú aðgengilegir á vef Ríkisútvarpsins og á hlaðvarpsveitum. Þættirnir eru samstarfsverkefni RÚV og RTÉ á Írlandi. Athygli vekur að þættirnir eru teknir upp á ensku, þar með talin viðtöl við íslenska viðmælendur, en hægt er að nálgast þrjár útgáfur af þáttunum. Sú fyrsta er á ensku, önnur á ensku með íslenskum texta í spilara á vef RÚV og sú þriðja er svokölluð íslensk aðlögun sem útvarpað er á Rás 1. Þá útgáfu má finna undir útvarpsflipanum efst á vefsíðu RÚV.
Anna Marsibil Clausen, dagskrárgerðarkona hjá RÚV, gerði þættina ásamt Liam O'Brien frá RTÉ. Hún segir að ákveðið hafi verið að taka öll viðtölin á ensku til að ná til eins breiðs hóps hlustenda og unnt er. Ekki sé hægt að taka viðtöl um svo viðkvæmt efni á tveimur tungumálum og ætlast til þess að viðmælendur segi það nákvæmlega sama.
„Samkvæmt lögum megum við ekki útvarpa á öðru tungumáli í útvarpinu og þar af leiðandi eru bara stuttar glefsur úr viðtölunum og bakgrunnslýsingar á ensku. Ég endursegi hins vegar allt efnislega. Við ákváðum að fara ekki þá leið að „döbba“ þættina enda er ofboðslega leiðinlegt að hlusta á slíkt. Ég held að íslenska útgáfan sé engu síðri þótt hún sé aðeins styttri en sú enska,“ segir Anna Marsibil.
Sem kunnugt er kom Jón Þröstur til Dyflinnar í febrúar fyrir sex árum og til stóð að hann myndi verja fríinu sínu í að spila póker og ferðast með konu sinni. Hann hvarf hins vegar sporlaust.
Þættirnir verða alls sex talsins og eru tveir þegar komnir í loftið. „Þetta er alvöruframleiðsla. Við hefðum ekki getað lagst í þetta nema fyrir að við erum að vinna þetta með Írunum. Þeir leggja rosalega mikið til,“ segir Anna Marsibil.
Hún segir að mikill áhugi hafi verið á hvarfi Jóns Þrastar, bæði hér á landi og á Írlandi. Í þáttunum komi margt fram sem ekki hafi verið greint frá áður. „Við drögum upp mun nánari mynd af öllu því sem gerðist og kann að hafa gerst en íslenskur almenningur hefur fengið innsýn í áður. Það varð stór þróun í málinu meðan við vorum að vinna að gerð þessara þátta og líklega er sú þróun til komin vegna vinnu við gerð þeirra.“