Dagbjört Vestmann, forstöðumaður verslanasviðs ELKO, leitar að fleiri konum.
Dagbjört Vestmann, forstöðumaður verslanasviðs ELKO, leitar að fleiri konum.
Hægt sé að þjálfa upp þá þekkingu sem er nauðsynlegt að hafa í verslunum ELKO.

Nýja árið leggst gríðarlega vel í mig, við endurnýjuðum ELKO Lindir, sem er stærsta framkvæmd sem ELKO fór í á síðasta ári. Vegna framkvæmda voru nokkur verkefni sem þurftu að bíða og ég er því mjög spennt að geta farið í þau af krafti á þessu ári. Við erum mjög metnaðarfull og markmiðið er að vinna Íslensku ánægjuvogina. Verkefni sem tengjast því að eiga ánægðustu viðskiptavini í raftækjaverslunum eru meðal annars að efla þjálfun í heildrænni þjónustu, vera best í úrlausnum þjónustumála og tímabókunum á vef fyrir þjónustu í verslun svo fátt eitt sé nefnt,“ segir Dagbjört Vestmann, forstöðumaður verslanasviðs ELKO.

Dagbjört hefur starfað fyrir fyrirtækið í 14 ár og sjálf gegnt alls konar stöðum innan þess. „Árið 2006 byrjaði ég á afgreiðslukassa í ELKO Skeifunni. Síðan varð ég sölufulltrúi, svæðisstjóri og árið 2010 verslunarstjóri. Ég tók svo við stöðu rekstrarstjóra netverslunar árið 2016 og gegndi því starfi í þrjú ár. Ég tók mér svo pásu frá ELKO í ein fimm ár og kom svo aftur til baka árið 2023 sem forstöðumaður verslanasviðs. Það má því með sanni segja að ég hafi sinnt mörgum störfum í ELKO og haft viðkomu í flestum verslunum okkar,“ segir Dagbjört og útskýrir að sem forstöðumaður verslanasviðs beri hún ábyrgð á stýringu og framkvæmd á rekstri verslana. „Ég er með mannaforráð yfir verslunarstjórum, fyrirtækjasviði og öryggisdeild. Mikið af tíma mínum fer þó í að vinna með öðrum deildum í þeim framþróunarverkefnum sem ELKO er í, því stór hluti af bæði mannauði og verkefnum snertir á verslunum okkar.“

Hægt að þjálfa upp nauðsynlega þekkingu

Dagbjört segir ganga vel að fá konur í störf á skrifstofu fyrirtækisins en það sama sé ekki hægt að segja um verslanir ELKO. „Við sjáum að hlutfall kvenna sem sækir um er lægra en karla þegar kemur að fullu starfi í verslunum okkar. Í hlutastörfum er skiptingin jöfn og því er kynjahlutfallið mun betra í hlutastarfi hjá okkur. Markmið okkar er að í verslunum sé jafnt kynjahlutfall í fullu starfi. Við höfum því verið í dýpri vinnu við að breyta ímynd okkar hjá ELKO; að hjá okkur starfi ekki einungis ákveðnar týpur af einstaklingum og starfsfólk þurfi ekki að vera tölvusérfræðingar eða vita allt um prentara til að starfa í ELKO,“ segir hún og bætir við að hægt sé að þjálfa upp þá þekkingu sem er nauðsynlegt að hafa í verslunum ELKO.

Á síðasta ári var farið í mikla umbreytingu á ráðningaferli fyrirtækisins. „Allt frá því hvernig auglýsingin okkar lítur út, hvernig forskoðun umsókna er háttað og viðtalsferlið sjálft. Við viljum endilega fá fleiri konur til starfa og þá þurfum við fleiri konur til að sækja um í fullt starf. Við erum nokkrar hér á skrifstofunni sem höfum unnið okkur upp innan fyrirtækisins og það er vonandi innblástur fyrir fleiri konur,“ segir Dagbjört.