Mjög hefur dregið úr áhuga á „loftslagsbreytingum“, hvað þá „hamfarahlýnun“, hjá kjósendum. Til marks um þetta er til dæmis kjör Donalds Trumps sem vill ekki láta slíkar kenningar draga þróttinn úr bandarísku efnahagslífi.
Blaðamaður hjá Wall Street Journal skrifar pistil um viðhorfsbreytingu sem sé að verða í þessum efnum og segir að í „þrjá áratugi varstu skilgreindur sem rugludallur og „loftslags-afneitari“, einhver sem þvermóðskulega hafnaði „útkljáðum vísindum“, ef þú samþykktir ekki trúna á að líf á jörðinni stæði frammi fyrir yfirvofandi útrýmingu vegna „hlýnunar jarðar“ og síðar „loftslagsbreytinga“. Það að heil vísindagrein, loftslagsvísindin, hefði getað farið alvarlega út af sporinu vegna hjarðhegðunar og sjálfumgleði var ekki talið mögulegt. Víða er þessi kredda enn óumdeild.“
En blaðamaðurinn segir að augljóst hafi mátt vera að loftslags-hugmyndafræðin væri alls ekki útkljáð. Og hann bendir á að svo heppilega hafi viljað til að kenningarnar hafi stutt við það sem vinstrimenn í Bandaríkjunum hafi hvort eð er viljað gera, „safna stjórnmálalegu og efnahagslegu valdi í hendur tæknikrata, að því er sagt er, öllum til góðs“.
Ýmislegt hafi svo gerst sem hafi orðið til þess að fólk hafi farið að draga kenningarnar æ meira í efa, svo sem að orð og gjörðir þeirra sem tali fyrir hamfarakenningunum fari iðulega illa saman.
Þetta eru áhugaverðar vangaveltur, en efasemdir um hamfarakenningarnar eru auðvitað ekki nýjar. Ýmsir, vísindamenn sem aðrir, hafa efast um þær, þó að flestir þeirra telji án efa að hlýnað hafi á jörðinni á undanförnum árum. En það felur ekki í sér að hamfarir séu fram undan, miklu frekar úrlausnarefni sem menn eiga að geta leyst úr, ekki síst ef efnahagslífinu er leyft að blómstra og þar með verði auðveldara að takast á við vanda sem upp kann að koma.