Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar ólst upp við sterkar kvenfyrirmyndir í sinni nánustu fjölskyldu. Hún trúir á jafnréttismenningu, en finnst hana skorta í viðskiptalífinu.
Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar ólst upp við sterkar kvenfyrirmyndir í sinni nánustu fjölskyldu. Hún trúir á jafnréttismenningu, en finnst hana skorta í viðskiptalífinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Launamisréttið hefur áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt öryggi kvenna alla ævi.

Það er alltaf mikið um að vera hjá TR en árið 2024 var sérstakt fyrir þær sakir að ný lög um endurhæfingar- og örorkulífeyri voru samþykkt á Alþingi sumarið 2024. Um er að ræða nýjar áherslur og nýja hugmyndafræði um samstarf, ferla og greiðslur. Það er verið að auka stuðning við einstaklinga í endurhæfingu og hindra að fólk falli á milli kerfa. Undirbúningur fyrir þessar breytingar er umtalsverður en að okkar mati mikilvægur og gagnlegur fyrir samfélagið, ekki síst konur sem eru í meirihluta þeirra sem eru með endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri í dag,“ segir Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, en þess má geta að stofnunin er þjónustuaðili almannatrygginga og greiddi til rúmlega 83 þúsund einstaklinga í fyrra.

Hafa hlotið Jafnvægisvogina þrjú ár í röð

Tryggingastofnun leggur ríka áherslu á jafnréttismál og jafnréttisstefna þeirra leggur áherslu á jafna stöðu, jafna virðingu og jafnrétti kynjanna að sögn forstjórans. „Jafnlaunakerfi Tryggingastofnunar er vottað en með því hefur verið innleitt verklag og skilgreind viðmið við ákvörðun launa þar sem hver og einn fær greitt fyrir starf sitt miðað við verðmæti þess óháð kyni, kynvitund eða öðrum ómálefnalegum ástæðum. Við höfum hlotið viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis FKA, þrjú ár í röð,“ segir Huld og bætir við að stofnunin muni halda áfram að leggja ríka áherslu á jafnrétti. „Bæði þegar kemur að starfseminni og í áherslum við þá einstaklinga sem við þjónum.“

Árið 2025 verður í huga margra mikið kvennaár þar sem haldið verður upp á 50 ár frá fyrsta kvennafrídeginum. Tryggingastofnun ætlar ekki að láta sitt eftir liggja. „Á árinu munum við leggja áherslu á verkefni sem tengjast konum sérstaklega, sem dæmi rannsókn á stöðu kvenna með örorkulífeyri og að upplýsa enn frekar um réttindi sem oft gagnast konum sérstaklega, til dæmis mæðra- og feðralaun,“ segir Huld.

Konur eiga minni rétt en karlar í lífeyrissjóðakerfinu

Konur eru í meirihluta í nánast öllum greiðsluflokkum almannatrygginga og eru í heild rúmlega 60% þeirra sem fá greitt úr almannatryggingum. „Konur eru fleiri með aldurstengdan lífeyri almannatrygginga, eiga minni réttindi í lífeyrissjóðum og fara fyrr af vinnumarkaði vegna veikinda og örorku. Í ljósi þess hversu hátt hlutfall kvenna yfir 50 ára er með örorkulífeyri ákvað Tryggingastofnun að fá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands til að gera rannsókn á stöðu kvenna með örorkulífeyri. Rannsóknin er unnin í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Velferðarvaktina og Vinnueftirlitið og verður framkvæmd á næstu vikum. Þar munum við leitast við að skilja betur aðstöðu og aðstæður kvenna og hvað veldur þessu háa hlutfalli,“ segir Huld og telur upp þá greiðsluflokka þar sem konur eru í meirihluta: „Þær eru í meirihluta í öllum greiðsluflokkum lífeyris svo sem aldurstengdum lífeyri, endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri. TR greiðir meðlag, mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, barnalífeyri og heimilisuppbót og í þessum greiðsluflokkum eru konur í miklum meirihluta.“

Hvað getum við lært af tölfræði ykkar til að hlúa að konum í samfélaginu?

„Konur eiga ennþá minni rétt en karlmenn í lífeyrissjóðakerfinu almennt. Þær konur sem eru á lífeyri í dag hafa margar styttri starfsaldur að baki en karlmenn á sama aldri. Sumar hafa verið lengur heimavinnandi, séð meira um börnin og foreldrana og unnið í umönnunarstörfum þar sem launin eru lægri en í hefðbundnum karlastörfum. Okkar tölur sýna svart á hvítu að þriðja vaktin hefur hingað til lent meira á herðum kvenna en karla í gegnum tíðina,“ segir Huld.

Mikilvægt að konur setji sig inn í fjármálin

Það er nauðsynlegt fyrir alla að mati Huldar, og ekki síst fyrir konur, að kanna réttindi sín til lífeyris bæði úr almannatryggingakerfinu og hjá lífeyrissjóðum tímanlega. „Ég mæli með því að skoða stöðuna upp úr 60 ára aldri eða fyrr. Við bendum á að það færist í vöxt að hjón eða sambúðaraðilar skipti lífeyrissjóðsréttindum en sú framkvæmd og ráðgjöf er í gegnum lífeyrissjóðina.“

Kynjaskiptur vinnumarkaður hefur áhrif á stöðu kvenna við starfslok en launamunur kynjanna er meginástæða ólíkrar stöðu karla og kvenna við starfslok að sögn Huldar. „Kjaramál eru vissulega jafnréttismál og geta haft mikil áhrif á afkomu kvenna eftir starfslok. Launamisréttið hefur áhrif á lífsgæði og fjárhagslegt öryggi kvenna alla ævi. Algengara er að konur láti eiginmenn sína sjá um fjármál heimilisins. Þetta kemur berlega í ljós þegar kona missir maka sinn og hún hefur litla sem enga yfirsýn yfir fjármálin og stendur því oft illa að vígi við lát makans. Mjög mikilvægt er að konur setji sig inn í stöðu fjármála og geti verið fjárhagslega öruggar við andlát, skilnað eða þegar maki fer til dæmis á hjúkrunar- eða dvalarheimili.“

Innleiðing á nýju kerfi endurhæfingar- og örorkulífeyris er umfangsmikið verkefni en breytingarnar taka gildi 1. september næstkomandi. „Við bindum vonir við að nýjar áherslur, sem dæmi sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, muni hafa jákvæð áhrif auk þess sem við þéttum raðirnar í samstarfi við sveitarfélög og aðra opinbera aðila um að mynda sterkari heild til að auka þjónustu og grípa fólk sem annars félli á milli kerfa,“ segir Huld.

Fer fyrir yfir 200 milljörðum

Huld ólst upp við sterkar kvenfyrirmyndir í sinni nánustu fjölskyldu og sterka jafnréttismenningu. „Þegar ég fór út á vinnumarkaðinn eftir nám fannst mér skorta jafnréttismenningu en mér finnst ég hafa upplifað mikla framför á vinnumarkaði síðustu 25 árin. Í stjórnmálum og hjá hinu opinbera hefur jafnrétti fengið gott vægi en það skortir enn víða, til dæmis í viðskiptum,“ segir hún. Rekstur Tryggingastofnunar er umtalsverður með rúmlega 100 stöðugildi og fjöldann allan af flóknum viðfangsefnum. „Við erum að fást við allt frá umsvifamiklu lagaumhverfi yfir í flókið tækniumhverfi. Útgreiðslur almannatrygginga eru stór hluti af útgjöldum ríkisins en TR greiddi til rúmlega 83 þúsund einstaklinga eins og fyrr segir og árið 2024 voru greiddir um 216 milljarðar.“

Huld segir að á næstu vikum fái rúmlega 2.000 einstaklingar beiðni frá Tryggingastofnun um að taka þátt í rannsókn sem Félagsvísindastofnun framkvæmir. „Við biðlum til fólks að taka vel á móti og vera okkur innan handar um þessa mikilvægu rannsókn á stöðu fólks með örorkulífeyri,“ segir Huld Magnúsdóttir forstjóri Tryggingastofnunar.