Hið ljúfa líf
Stefán Einar Stefánsson
ses@mbl.is
Ef það er ekki eitthvert eðalvín þá hljóta það að vera armbandsúr. Um það deilum við Ásgeir Ingvarsson kollegi minn ekki þegar við leggjum á ráðin um það sem birtast skuli hér á þessum vettvangi, viku eftir viku, ár eftir ár. Stundum bregður hann þó út af vananum og fjallar um einhvern ómótstæðilegan herrailminn – og vel á minnst. Það hefur komið fyrir hjá mér einnig.
Í liðinni viku fjallaði Ásgeir um úrin úr smiðju Breitling sem fyrir löngu hafa unnið sér sess sem einhver þekktustu og eftirsóttustu úr heimsins. Þau fylla fáliðaðan flokk lúxusúraframleiðenda sem langflestir koma frá Sviss. Landi sem leggur áherslu á það sem er skemmtilegt; úr, vasahnífa, súkkulaði, ost og bankakerfi.
Undrasmíði frá Sviss
Ég hef ekki farið varhluta af þessum lystisemdum, hef átt góða vini í Sviss frá barnsaldri og ferðast þangað bæði með foreldrum mínum og vinum en stundum líka einn míns liðs. Á tímum hafa það verið eins konar pílagímsferðir til þess að njóta fyrrnefndra semda. Stundum einfaldlega til þess að sækja úraframleiðendur heim og fá tækifæri til þess að kynnast þeirri undrasmíði sem þeir hafa betri tök á en nokkrir aðrir um veröld víða.
Og fyrst Ásgeir bauð upp í dans í liðinni viku tek ég næsta skref á þessu dansgólfi og langar til að segja þér, lesandi góður, frá nýju úri úr smiðju uppáhaldsúrsmiðsins míns, International Watch Company, oftast skammstafað IWC, en fyrirtækið er staðsett í Schaffhausen, austast í Helvetíu (það er heiti hinnar svissnesku fjallkonu, holdtekju landsins).
Þetta úr á sér enga hliðstæðu eftir því sem ég best veit, en heiti þess mætti útleggja á íslensku á þessa vegu: Eilífðardagatalið. Það er smíðað í línu sem nefnist Portuguieser en þann flokk fylla mörg úr frá IWC sem öll eiga það sammerkt að vera klassísk í útliti. Heiti línunnar má rekja til þess að á 4. áratug síðustu aldar leituðu tveir viðskiptamenn frá Portúgal til fyrirtækisins og óskuðu eftir því að það smíðaði fyrir þá armbandsúr sem byggi yfir sömu nákvæmni og vasaúr þess tíma gerðu. Fyrsta slíka smíðin endaði á úlnlið þessara ágætu smekkmanna árið 1939.
En Eilífðardagatalið er enginn venjulegur Portúgali. Það hefur að geyma dagatal eins og nafnið gefur til kynna en einnig svokallaða tunglmynd. Og dagatalið er ekkert venjulegt. Nákvæmni þess er með ólíkindum. Þannig tryggir úrverkið, tannhjól og fjaðrir, að upplýsingarnar sem fram koma á úlnlið eigandans eru í nákvæmu samræmi við gregoríska tímatalið. Það kann að hljóma einfalt, en er það auðvitað alls ekki, enda reglurnar í kringum talið, sem kennt er við Gregoríus páfa, þann þrettánda í röðinni sem bar það nafn, og leitt var í lög árið 1582, allt annað en einfaldar.
Hið hárnákvæma tímatal
Þar er að finna margar undantekningar og aðlaganir sem tryggja eiga hið eina rétta tímatal. Nægir þar að nefna hið margrómaða hlaupaár, sem ber upp fjórða hvert ár. – Og nei, nei, sei, sei. Ekki er málið svo einfalt. Því á hverjum 400 árum hleypur tímatalið þrívegis yfir hlaupaárið góða. Það mun næst gerast árið 2100, og úrið góða mun þá ekki láta blekkjast heldur gefa rétta mynd af því hvað tímanum líður þegar 28. febrúar lýkur sinni göngu og 1. mars tekur við.
Hermanir sem verkfræðingar IWC hafa gert á úrverkinu benda til þess að það geti haldið þessari nákvæmni í milljónir ára. „En þið verðið að hafa orð okkar fyrir því,“ segir fyrirtækið þegar þessir einstæðu eiginleikar eru kynntir til sögunnar, enda nær ómögulegt að kaupendur úrsins geti gengið úr skugga um að nákvæmnin muni vara svo lengi. Til að sanna það að úrið standist úrfellingarreglu Gregoríusar þarf eigandinn að lifa næstu 75 árin. Það er auðvitað ekki útilokað, ekki síst í tilfelli ungra kaupenda, en erfiðara verður að upplifa og sanna hitt. Það kemur í hlut síðari eigenda, mögulega afkomenda þeirra sem festa kaup á gripnum mikla.
Tunglið, tunglið taktu mig
Tunglmynd úrsins er einnig einstök. Slíkar myndir hafa lengi verið þekktar í heimi úrsmíðinnar og þær sýna hversu fullt tunglið er á hverjum tíma. Mörg slík úr búa yfir mikilli nákvæmni en ekkert þeirra viðlíka og Eilífðardagatalið. Tunglstaðan á að sjást með réttum hætti í allt að 45 milljón ár! En af hverju 45 milljónir en ekki eitthvað annað? Hver á að sannreyna þessa fullyrðingu?
Jú, fyrrnefndar hermanir sýna að ef úrið endist þennan tíma, sem er einn hundraðasti af aldri móður jarðar, þá mun tunglstaðan skekkjast svo muni einum degi. Minnir þessi nákvæmni á spurningu frægrar leikkonu sem velti fyrir sér af hverju í tilteknum svaladrykk skyldi aðeins leynast ein hitaeining: af hverju náðu þeir henni ekki úr vökvanum einnig?
Ómótstæðileg fegurð
En að öllu gríni slepptu þá verður að segjast að þessi undrasmíði frá Schaffhausen gerir mann algjörlega orðlausan. Það ýtir undir málstolið hversu fagur gripurinn er. Hvít skífa og platína. Svört ól, en getur auðveldlega verið brún eða dökkblá. Allt kemur það fullkomlega út.
En þá er það verðið. 23 milljónir. Svakaleg upphæð. Færð reyndar ekki Range Rover fyrir það verð. Og mun hann endast í 45 milljón ár? Heldur betur ekki.