Sumarið verður sígilt hjá báðum tískuhúsum, Timberland og Marc O‘Polo, þar sem hvítur litur, blár og brúnn verður áberandi ásamt nokkrum fallegum litatónum eins og skærbláum, grænum og bleikum. Haustið býður svo alltaf upp á fallega tóna. Þá verður rauður litur, grænn og gulbrúnn áberandi ásamt brúnum, bláum, gráum og svörtum tónum. En eins og viðskiptavinir okkar þekkja þá eru vörurnar sígildar og alltaf í tísku en ég mæli bara með því fyrir alla að koma til okkar og máta,“ segir Guðrún Erla Leifsdóttir, framkvæmdastjóri Timberland og Marc O‘Polo á Íslandi. „Við hjónin keyptum Timberland árið 2018 en Timberland í Kringlunni var opnað árið 2002 og hefur verið óbreytt þar allar götur síðan. Til að byrja með starfaði ég með fyrrverandi eiganda en tók svo við stjórninni árið 2019. Við opnuðum netverslun Timberland sama ár sem var þá rétt fyrir kórónuveiruna, sem reyndist mikið lán fyrir reksturinn. Við opnuðum svo nýja verslun í Smáralind sumarið 2022,“ segir Guðrún Erla en eiginmaður hennar er Samúel Guðmundsson.
Guðrún Erla segist kunna vel við sig í verslunarrekstri þar sem hún er að selja einstakar vörur sem eru ekki bara fallegar heldur einnig heiðarlega gerðar. „Það var svo í apríl árið 2023 sem Rannveig Sigurðardóttir bauð okkur að kaupa Marc O‘Polo í Kringlunni en hún hafði þá rekið verslunina þar ásamt systur sinni í 25 ár. Okkur fannst Marc O‘Polo og Timberland eiga svo vel saman þar sem bæði vörumerkin hafa umhyggju fyrir náttúrunni og eru með gæðahönnun að leiðarljósi. Bæði vörumerkin stefna að sjálfbærni innan fárra ára, gera stífar kröfur í framleiðslu og fylgja ýtrustu leiðbeiningum í sambandi við eyðingu og vottun.“
Marc O‘Polo á mikið inni enda vörurnar frábærar
Marc O‘Polo býður upp á glæsilegar vörur fyrir konur og karla, þó að viðskiptavinir séu konur í meirihluta að hennar sögn. „Við teljum verslunina eiga mikið inni, því vörurnar eru frábærar, framleiddar úr náttúrulegum efnum með endingu og sjálfbærni að leiðarljósi. Við vorum rétt að ná því að fara einn hring í rekstrinum þegar bruninn varð síðastliðið sumar sem setti talsvert strik í reikninginn. Við vorum með eina af þeim verslunum sem lentu í altjóni, þá aðallega vegna vatns og reyks,“ segir Guðrún Erla og lýsir skelfilegri upplifun á sama tíma og hún fann fyrir mikilli samheldni fólks í erfiðleikunum. „Strax á fyrsta degi lögðust allir á eitt að reyna að bjarga því sem bjargað varð, þurrka upp vatn og bægja því frá til þess að reyna að koma í veg fyrir óþarfa skemmdir. Þrátt fyrir góðan vilja tók þetta nú samt rúmlega fjóra mánuði. Margir af okkar góðu viðskiptavinum voru því afar glaðir að sjá okkur opna aftur,“ segir Guðrún Erla en þess má geta að verslun hennar var ein sú fyrsta sem var opnuð aftur 25. október síðastliðinn.
Samhliða opnun verslunarinnar opnuðu þau hjónin nýja heimasíðu fyrir Marc O‘Polo og jafnframt netverslun. „Það var svo bara nú um daginn sem við opnuðum nýja netverslun fyrir Timberland líka. Það má því segja að við séum búin að opna fimm nýjar verslanir síðan ég byrjaði að starfa í Timberland.“
Þrjár kynslóðir að vinna saman
Það sem hefur komið Guðrúnu Erlu hvað mest á óvart er hve rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar er breytilegt. „Við tölum gjarnan um ógnir og tækifæri í rekstrarfræðunum. Fyrstu árin voru frekar hefðbundin, það er að segja þegar kom að veðri og aðstæðum í íslensku efnahagslífi. Svo kom kórónuveiran og eftir það má segja að helsta ógn við verslun hér á landi séu erlendar netverslanir. Það skapar vandamál sem ég tel að brenni á mörgum íslenskum kaupmönnum. Við stöndum vaktina árið um kring fyrir íslenska neytendur, sköpum atvinnu, greiðum húsaleigu, skatta og skyldur til ríkisins og svo er til fólk sem kemur til okkar að máta og skoða vörur sem það ætlar síðan að kaupa af netinu. Það finnst mér afar ósanngjarnt,“ segir Guðrún Erla. „Fólkinu okkar sárnar það mikið þegar það verður þess áskynja að fólk er bara að nota okkur sem mátunarklefa fyrir sænska netverslun sem skilar litlu sem engu til þjóðabúsins. Það sorglega er að við bjóðum nánast sama verð fyrir sömu vörur, þó vitanlega séu þar nánast alltaf alls konar tilboð og afslættir, sem við getum því miður ekki alltaf keppt við. Það er beinlínis ekki leyfilegt samkvæmt íslenskum lögum að vera „alltaf“ með afslátt. Þar fyrir utan eru svo þær erlendu netverslanir sem uppfylla ekki einu sinni evrópska staðla og eru beinlínis með vörur sem geta reynst hættulegar fyrir neytendur.“
Guðrún Erla hefur verið einstaklega heppin með starfsfólk. „Hjá okkur starfa frábærir verslunarstjórar, þær Margita Keire og Þórgunnur Guðgeirsdóttir. Auk þess réðum við nýverið markaðs- og vefstjóra, Ásdísi Jörundsdóttur, þannig að fyrirtækið er rekið af konum og flestir starfsmenn okkar eru líka konur með nokkrum góðum undantekningum þó,“ segir Guðrún Erla og bætir við að dóttir þeirra Samúels, Sæunn Sunna, hafi nýverið komið inn í reksturinn. „Það er frábært að fá unga manneskju að þessu með sér. Með henni kom líka ömmustrákurinn okkar, sem hefur verið að stíga sín fyrstu skref sem kaupmaður á síðustu misserum. Það má því segja að við séum þrjár kynslóðir að vinna saman. Við erum afar stolt af því hve reksturinn hefur gengið vel frá því við „konurnar“ tókum við honum. Við fengum til dæmis titilinn „Fyrirmyndarfyrirtæki“ árið 2024 og reiknum með að fá titilinn „Framúrskarandi fyrirtæki“ á næsta ári.“