Álfabakki Græna skemman veldur íbúum í nágrenninu ama.
Álfabakki Græna skemman veldur íbúum í nágrenninu ama. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að kostnaður við sviðsmyndir tengdar framtíð græna vöruhússins við Álfabakka í Breiðholti verði metnar af fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

hmr@mbl.is

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fara fram á að kostnaður við sviðsmyndir tengdar framtíð græna vöruhússins við Álfabakka í Breiðholti verði metnar af fjármála- og áhættustýringarsviði Reykjavíkurborgar. Á meðan
rýnt er í sviðsmyndirnar telja
borgarfulltrúarnir rétt að framkvæmdir við stálgrindarhúsið verði stöðvaðar tafarlaust.

Björn Gíslason borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins flytur tillögu þess efnis á fundi borgarstjórnar á þriðjudaginn í næstu viku.

Í tillögunni, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, er lagt til að eftirtaldar sviðsmyndir verði metnar: Flutningur húsnæðisins á aðra hentuga lóð, sem ekki er í miðri íbúðabyggð, ásamt öllum tilheyrandi kostnaði, svo sem bótagreiðslum, byggingarréttargjöldum, flutnings- og lögfræðikostnaði; finna vöruhúsinu næst íbúðablokkinni annan stað; óbreytt ástand þar sem húsið stendur áfram á núverandi stað, með tilliti til málaferla og lögfræðikostnaðar tengds þeim, hugsanlegra bótagreiðslna og áhrifa á umhverfið og nágrenni; breytingar á húsnæðinu sem miða að því að lágmarka áhrif þess á umhverfið og lífsgæði íbúa í nágrenninu; aðrar sviðsmyndir sem unnt er að leggja fram til lausnar málinu.

Ákvörðunin felld úr gildi

Græna vöruhúsið hefur valdið íbúum í fjölbýlishúsi við Árskóga miklum ama, meðal annars fyrir að skyggja á húsið.

Hefur húsnæðissamvinnufélagið Búseti lagt fram stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna skemmunnar þar sem þess er krafist að framkvæmdir við hana verði stöðvaðar og ákvörðun byggingarfulltrúa felld úr gildi.

Í greinargerð með tillögunni segir að kostnaðarmatinu sé ætlað að tryggja faglegt og heildstætt mat á mögulegum lausnum varðandi stálgrindarhúsið.

„Málið hefur valdið verulegri óánægju íbúa og dregið fram mikilvægi þess að borgaryfirvöld taki ábyrgð á vanda sem upp hefur komið vegna skipulagsákvarðana,“ segir í greinargerðinni.

Þar segir jafnframt að kostnaðarmat sé lykilforsenda upplýstrar ákvörðunartöku sem taki mið af hagsmunum borgarbúa og fjárhagslegri ábyrgð Reykjavíkurborgar.

„Fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar, í samráði við umhverfis- og skipulagssvið, verði falið að tryggja að allar hliðar málsins séu metnar m.t.t. kostnaðar og skammtíma- og langtímaáhrifa á borgina, íbúa og eigendur hússins. Með því að kanna kostnað við þær sviðsmyndir sem fela m.a. í sér flutning húsnæðisins, óbreytt ástand eða hugsanlegar breytingar á húsnæðinu, ásamt öðrum raunhæfum lausnum, verður hægt að leggja traustan grunn að upplýstri ákvarðanatöku sem tryggir réttláta niðurstöðu fyrir íbúa og viðkomandi hagaðila.“

Ábyrg stjórnsýsla

Á meða sviðsmyndirnar eru skoðaðar og unnið er að farsælli lausn telja borgarfulltrúar flokksins mikilvægt að framkvæmdir við Álfabakka verði stöðvaðar „tafarlaust“.

„Með samþykkt þessarar tillögu er skref tekið í átt að ábyrgri stjórnsýslu, upplýstri ákvarðanatöku og mögulegum lausnum sem mæta þörfum íbúa og eigenda hússins.“

Höf.: Hólmfríður María Ragnhildardóttir