Að skrá mig í FKA Framtíð er ein besta fjárfesting sem ég hef gert. Dýnamíkin og kvenmátturinn í FKA Framtíð finnst ekki á hverju strái og það sem mér þykir best er að allar félagskonur eru með svipað markmið en það finnst engin samkeppni. Bara stuðningur, samvinna og vinsemd,“ segir Amy Dyer, formaður FKA Framtíðar, en hún gekk í FKA árið 2022 af því að hún var nýbúin að stofna fyrirtæki.
„Ég gerðist auðvitað strax félagskona í FKA Framtíð enda undir þrítugu og fékk 50% afslátt af félagsgjöldum. Eftir tvö ár sem félagskona bauð ég mig fram til stjórnar FKA Framtíðar og hlaut formennsku. Þetta sýnir að konum eru gefin tækifæri innan FKA og að manni raunverulega eru allir vegir færir.“
Allir vegir færir
Aðspurð hver sé tilgangur FKA Framtíðar segir Amy að deildin eigi að vera stökkpallur fyrir þær sem vilja skapa sér ný tækifæri og ná lengra í framþróun. „FKA Framtíð er deild innan FKA sem sameinar framsæknar konur og leggur áherslu á styrkingu tengslanets og hagnýta fræðslu sem nýtist í einkalífi sem og í starfi. Þemað hjá okkur í ár er „Þér eru allir vegir færir“ og því trúum við heilshugar að sé rétt. Þú getur allt sem þú ætlar þér, FKA Framtíð mun aðstoða þig að ná þínum markmiðum með stuðningi og þekkingarmiðlun,“ segir Amy að lokum og bætir við að eitt það dýrmætasta við að hafa gengið í FKA Framtíð séu vinkonurnar.
„Dýrmætast þykir mér að hafa eignast góðar vinkonur en þær öflugu konur sem skipa stjórn FKA Framtíðar með mér komu hreinlega eins og kallaðar inn í líf mitt. Að eiga góða að er svo ómetanlegt og þessar konur eru mínar klappstýrur sem og ég þeirra.“