Veitur eru framsækið þjónustufyrirtæki sem tryggir aðgengi að rafmagni, hita, hreinu vatni og fráveitu. Við þjónustum 70% landsmanna með eitthvað af þessum lífsgæðum og erum grunninnviðir í fyrirtækjum landsins,“ segir Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna. „Við höfum sett frumkvæði, nýsköpun og samstarf í öndvegi og gert þjónustuna að kjarna fyrirtækisins. Í framtíðarsýn okkar er frumkvæði að sjálfbærum lausnum með árangur samfélagsins að leiðarljósi. Við berum ábyrgð á að veita dýrmætum lífsgæðum til fólks og næstu kynslóða, og að passa upp á náttúruauðlindirnar,“ segir Sólrún.
Í þriðja sæti í stærstu þjónustukeppni Evrópu í sínum flokki
Það er áhugavert að tala við Sólrúnu um stjórnun og mannauðsmál. „Að mínu mati er meginviðfangsefni stjórnenda fólk. Hvort heldur sem er viðskiptavinirnir eða starfsfólkið sem þú vilt ná árangri með. Þú þarft að leiða hópinn þinn með skýra sýn en ekki að hafa alla sérfræðiþekkinguna,“ segir hún og bætir við að það hafi verið mjög dýrmæt lífsreynsla að vera mannauðsstjóri Orkuveitunnar í átján ár. „Ég vann náið með stjórnendum og starfsfólki Orkuveitunnar og fékk þannig tækifæri til að skoða hvernig fyrirtækið náði að hámarka árangur sinn í gegnum mannauðinn.“
Sólrún hefur sérstakan áhuga á að skilja hvernig starfsfólk upplifir virði í vinnunni. „Við gætum ekki framkvæmt neitt af því sem við erum að gera í Veitum ef öll virðiskeðja mannauðsins væri ekki að virka. Þess vegna höfum við verið að setja athyglina á að besta keðjuna okkar og að besta ferlana, fyrir viðskiptavinina.“
Breytingarstjórnun Sólrúnar hefur vakið athygli. „Við erum að ná mjög góðum árangri með að gera Veitur að þjónustufyrirtæki. Við leggjum okkur fram um að vera í góðu samtali við viðskiptavini okkar sem eru íbúar landsins, fyrirtækin og sveitarfélögin. Allt sem við gerum í dag er hugsað út frá viðskiptavininum í stað þess að horfa á það sem hentar kerfunum okkar best. Þessi hugarfarsbreyting hefur skilað sér í því að Veitur lentu í þriðja sæti í stærstu þjónustukeppni Evrópu í sínum flokki og hlutu evrópsku þjónustuverðlaunin ECCCSA.“
Hvað hefur breyst mest í fyrirtækinu við að gera það þjónustumiðað?
„Það sem hefur breyst hvað mest er að við erum að breyta því hvernig við vinnum og að horfa á teymin okkar. Viðskiptavinirnir eru fjölbreyttur hópur fólks og ef við eigum ekki þverskurð af þjóðinni innan Veitna þá erum við ekki að þjónusta eins vel og við getum. Auk þess sýna rannsóknir að fjölbreyttur hópur fólks skilar betri ákvörðunartökum. Því höfum við lagt mikla áherslu á inngildingu og jafnrétti í fyrirtækinu,“ segir hún.
Flestir telja sig jafnréttissinnaða
Hvernig aðgerðir fylgja inngildingu í fyrirtækjum?
„Við höfum verið með vitundarvakningu um viðhorf okkar og hugtök á borð við forréttindablindu. Við, eins og aðrir, töldum okkur vera mjög jafnréttissinnuð enda veljum við flest mannréttindi, jafnréttindi og að mismuna fólki ekki.
Allir stjórnendur telja sig vera að reka frábæra vinnustaði þar sem öll eru velkomin. Hins vegar sýna rannsóknarniðurstöður að við erum flest með ákveðna forréttindablindu sem felst í því að við getum sett okkur í spor fólks eins og okkur en ekki annarra. Við þurfum að vera tilbúin að spyrja í stað þess að gefa okkur svörin. Inngilding felst í því að búa til vinnustaði sem bjóða öll velkomin og það krefst mikillar vinnu. Það er vinna á bak við það að gera vinnustaði aðgengilega fyrir fatlaða. Það er vinna að setja upp allt efni í fyrirtækinu á fleiri tungumálum en móðurmálinu, það er vinna að setja sig inn í málefni kynsegin fólks og þar fram eftir götunum,“ segir Sólrún.
Áskoranir í jafnréttismálum eru enn mjög margar í orkugeiranum þó að Veitur séu að lyfta grettistaki í þeim málum sem öðrum. „Veitur komu best út af orku- og veitufyrirtækjum í síðustu könnun KÍÓ, Félags kvenna í orkumálum, hvað varðar ákvarðanatöku og ábyrgð kvenna og erum við stolt af þeim árangri. Það eru fleiri konur í stjórnunarstöðum hér en í öðrum orkufyrirtækjum og við erum með jafnt kynjahlutfall í stjórninni þar sem formaðurinn er kona. En betur má ef duga skal og við vitum að árangur í jafnréttismálum er ekki eitthvað sem kemur af sjálfu sér. Við erum ennþá með meirihluta starfsfólks á mörgum stöðum karla. Við erum iðnaðarfyrirtæki með rafvirkja, pípara og vélfræðinga í mörgum störfum, sem er hluti af skýringunni. Þess vegna erum við nú að spyrja okkur hvort við þurfum sömu menntun í öll störfin? Eða hvort við getum, með svo stóran hóp tæknimenntaðra, bætt við okkur listafólki eða öðrum sérfræðingum úr skapandi greinum. Við erum farin af stað en þó hvergi nærri komin á leiðarenda með þetta,“ segir hún.
Umhugað um komandi kynslóðir
Aðspurð hvaða styrkleika konur komi með inn í orku- og veitugeirann svarar Sólrún snögg upp á lagið að það sé öðruvísi upplifun að vera kona í samfélaginu en karlmaður. „Ég tel yfirhöfuð óhollt að hafa of einsleita hópa þegar stórar ákvarðanir eru teknar. Orku- og veitugeirinn er undirstaða svo margs í samfélaginu og ættum við að taka ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Ekki síst þegar kemur að orkumálum. Auðlindirnar okkar eru ekki óþrjótandi og við viljum að börnin okkar og barnabörn hafi sama aðgang að þeim lífsgæðum sem við höfum,“ segir Sólrún og bætir við að hún sé eins ekki hrifin af því að hafa einsleitan hóp í umönnunargeiranum. „Þegar við erum að þjóna þjóðinni þá verður þjónustan að vera í höndum þverskurðar þjóðarinnar.“
Hvaðan færð þú hugrekkið til að vera brautryðjandi á þínu sviði?
„Það var viss lærdómur fyrir mig þegar ég áttaði mig á að ég kæmist ekkert áfram í lífinu með því að sitja heima og hugsa. Ég er á því að við eigum ekki að óttast það að mistakast því í flestum tilvikum ganga hlutirnir upp og þegar þeir ganga ekki upp, þá er maður vanalega kominn af stað og manni gengur betur næst.
Ég hef til dæmis aldrei tekið að mér starf, sem ég hef verið fullviss um að geta alveg, og stundum hef ég hugsað með mér að nú væri ég komin í of stóra skó en svo hafa þeir bara oftast passað,“ segir Sólrún.
Mælir með þremur markmiðum
Sólrún segir mikilvægt að sofna ekki á verðinum þegar kemur að jafnréttismálum. „Ábyrgð fyrirtækja er mikil og hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér. Við erum að sjá bakslag í jafnréttismálum hjá þjóðum eins og Bandaríkjunum þar sem verið er að taka mannréttindi af fólki. Við þurfum að líta á jafnrétti sem mannréttindi því það eru mannréttindi að hafa jafnan rétt. Við erum ekki að færa fólki gjöf með því að taka því eins og það er, heldur þurfum við að taka höndum saman og gera eitthvað markvisst í málunum. Við getum öll gert eitthvað og eigum ekki að bíða eftir því að samfélagið geri það fyrir okkur. Ef fyrirtækin í landinu myndu setja sér þrjú inngildandi markmið á árinu þá myndi það auka jafnréttið á hverju ári sem gæti haft mögnuð áhrif þegar til lengri tíma er litið,“ segir Sólrún.
Veitur ætla ekki að láta sitt eftir liggja. „Á þessu ári erum við að leggja áherslu á fjölbreytileika í gegnum ráðningar og biðjum við stjórnendur okkar að gera grein fyrir því ef ekki hefur verið notað tækifæri til að auka fjölbreytileika í teymunum. Þá skiptir engu máli hvort sem dæmi kona hafi sótt um vinnuna eða ekki. Því ef við ætlum að ráða konu og hún sækir ekki um þá förum við bara út og finnum hana. Við erum einnig markvisst að skoða hvaða þekkingu við eigum í fyrirtækinu í dag og hvaða þekkingu okkur vantar. Hættan er alltaf sú að taka bara upp gömlu starfslýsingarnar þegar við ættum að vera að skrifa nýjar. Eins höfum við það að markmiði að auka fræðslu og menntun þar sem við fáum sérfræðinga úr öðrum fyrirtækjum, að dýpka skilning okkar á málefnum sem efla okkur í að taka betri ákvarðanir, með hag samfélagsins í huga,“ segir Sólrún.