Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Eigi sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst að takast er lykilatriði að slíkt skili faglegum ávinningi. Framhaldsvinna við hugsanlega sameiningu þarf að sýna fram á hvort slíkt verði. Þetta segir Logi Einarsson, menningar- og háskólaráðherra, um þá vinnu sem nú á sér stað og miðar að sameiningu háskólanna tveggja sem fyrr eru nefndir. Eins og fram kom í Morgunblaðinu í síðustu viku hafa tímalínurnar sem þarna er starfað er eftir raskast. Upphaflega var áætlað að sameining gengi í gegn um næstu áramót, en nú er markið að stefna að endanlegri ákvörðun um þetta síðar á líðandi ári.
Nemendur við Háskólann á Akureyri eru um 2.800 og þar eru tvö fræðasvið; það er Hug- og félagsvísindasvið og Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið. Margir nema við skólann til dæmis hjúkrunar-, kennara-, sál-, lög- og viðskiptafræði. Þá er lögreglufræði kennd á Akureyri. Á Bifröst eru liðlega 1.500 nemendur. Kjarnagreinar þar eru viðskipti, félagsvísindi og lögfræði.
Hvetur til víðtæks samstarfs
„Það var ákvörðun skólanna að hefja samtal og ég fagna því að skólarnir ætli að taka sér rýmri tíma til að skoða grundvöll sameiningar. Vonandi kemur eitthvað jákvætt út úr því og ég hvet skólana til víðtæks samráðs,“ segir Logi. Hann bendir á að þessir tveir skólar séu þó mjög ólíkir að eðli og starfsemi. Annar er opinber háskóli en hinn sjálfseignarstofnun. Því séu ýmsir þættir sem krefjast þess að vel sé vandað til verka ef sameining á að takast.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur verið nokkur uggur meðal starfsmanna Háskólans á Akureyri um að starfsemin nyrðra gæti veikst með sameiningu. Bent er á að Bifröst sé í dag að mestu með starfsemi á netinu og svo starfsstöðvar á Hvanneyri og í Reykjavík. Logi var því spurður hvort hugsanlega þyrfti í sameiningu að setja einhverja hæla niður þannig að starfsemin á Akureyri héldist þar, svo miklu máli sem skólinn þykir skipta þar í bæ. Ráðherrann segir slíkt vera lykilatriði.
„Báðir þessir skólar hafa gegnt mikilvægu hlutverki sem háskólar á landsbyggðinni, og það er ekki léttvægt. Sem íbúi á Akureyri þekki ég vel mikilvægi Háskólans á Akureyri fyrir svæðið og er annt um stöðu hans. Það er nauðsynlegt að staðnám utan höfuðborgarsvæðisins verði styrkt til muna,“ segir Logi og heldur áfram:
„Sérfræðistörf, hátt menntunarstig og rannsóknir hafa lykilhlutverki að gegna fyrir landsbyggðina. Reynslan sýnir að byggðaþróun á Íslandi hefur verið hættuleg, með gríðarlegri samþjöppun íbúa og stofnana á suðvesturhorn landsins. Þessir þættir verða einnig að liggja til grundvallar ákvörðun um sameiningu.“
Um hvort sameina eigi háskólana tvo undir formerkjum peningalegs sparnaðar eða annarra sjónarmiða undirstrikar ráðherrann sjónarmið um faglegan ávinning. Mikilvægt sé að fara skynsamlega með fjármuni, en fagleg sjónarmið, skynsamleg meðferð fjármuna og byggðasjónarmið verði öll að liggja til grundvallar.
Menntun er grunnur verðmætasköpunar
„Menntun er grunnur aukinnar verðmætasköpunar og betri samfélagsþróunar, og allt sem stuðlar að aukinni fagmennsku og gæðum í menntakerfinu er mikilvægt. Það er því nauðsynlegt að skoða allar leiðir sem efla menntun á landsvísu, bæði með hagsmuni nemenda og samfélagsins í huga. Reynslan sýnir líka að fólk sem elst upp á landsbyggðinni er líklegra en aðrir til að vilja búa þar og starfa. Hlutfall þeirra sem komast í læknisfræði við Háskóla Íslands af landsbyggðinni er til dæmis hverfandi, og læknaskortur úti á landi er staðreynd. Ég hef fylgst áhugasamur með þreifingum, í þá átt að HA hefji kennslu í héraðslækningum. Það gæti verið gott fyrsta skref,“ segir Logi Einarsson.