Kinshasa
Að minnsta kosti 17 friðargæsluliðar, þar af 13 frá Suður-Afríku, hafa fallið í átökum á milli stjórnarhersins og uppreisnarmanna í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongós, sem blossuðu upp um síðustu helgi.
Uppreisnarhópurinn M23, sem nýtur stuðnings stjórnvalda í Rúanda, lýsti því yfir í gær að hann hefði náð valdi á flugvellinum í borginni Goma, en hún liggur við landamæri Kongós og Rúanda. Sögðust uppreisnarmenn jafnframt ráða yfir meirihluta borgarinnar, en stjórnarherinn sendi einnig frá sér yfirlýsingu og sagði það rangt.
Sjónarvottar sögðu AFP-fréttastofunni að enn væri barist í borginni, og sáust uppreisnarmenn á vegum M23 rölta um götur borgarinnar í skotheldum vestum með vélbyssur. Þá bárust fregnir af að sveitir uppreisnarmanna hefðu farið ránshendi um borgina.
Mótmæli gegn aðgerðaleysi alþjóðasamfélagsins brutust út í gær í höfuðborginni Kinshasa, og réðust mótmælendur á sendiráð ýmissa ríkja, þar á meðal Rúanda, Frakklands, Belgíu, Bandaríkjanna, Keníu, Úganda og Suður-Afríku.
Rauði krossinn varaði við því í gær að rannsóknarstofa í Goma-borg væri í hættu vegna átakanna, en þar fara m.a. fram rannsóknir á hættulegum smitsjúkdómum á borð við ebólu. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði um ástandið í gærkvöldi, en óttast var að það gæti leitt til víðfeðmari átaka á milli Kongós og Rúanda.