Hjalti Þórarinsson er fæddur 29. janúar 1975 á Landspítalanum í Reykjavík. „Ég bjó með foreldrum mínum og ættmennum í Fossvogi fyrstu árin, en stoppaði síðan stutt í Seljahverfi áður en foreldrar mínir drógu mig til Danmerkur tveggja ára. Pabbi fór í framhaldsnám í verkfræði og mamma vann á sjúkrahúsi.
Árin í Danmörku voru viðburðalítil fyrir utan kynni af Bang & Olufsen og Lego sem settu mark á framtíðarnámsferil. Að lokinni dvöl í Danmörku flutti fjölskyldan í Kópavog þar sem ég lauk grunnskólanámi í Kársnes- og Þinghólsskóla.“
Hjalti var áhugasamur um tækni og tölvur frá unga aldri og eignaðist fyrstu tölvuna sína átta ára. Það var Oric-1 með 48 KB vinnsluminni og innbyggt Basic-forritunarmál. „Ég eignaðist góða vini sem deildu sama áhuga á tölvum og við seldum okkar fyrsta hugbúnað til Bókabúðar Braga tólf ára gamlir. Þessi áhugi minn á tölvum og viðskiptum mótaði mig, og ég starfa enn í hugbúnaðartengdum viðskiptum.“
Oft var Hjalti hjá ömmu sinni Pálínu og afa sínum Halldóri á sumrin. „Eitt sumarið, líklega fermingarárið, fékk ég að vinna í rækju og fiskflökun. Það átti örugglega þátt í að ég var ráðinn til Marel 10 árum síðar, sem sumarstarfsmaður með rafmagnsverkfræðinni.“
Hjalti lýsir einni af ferðum sínum til Grundarfjarðar: „Í einni ferðinni til Grundarfjarðar stoppuðum við uppi á Kiðafelli í Kjós hjá sr. Magnúsi Guðmundssyni heitnum, sem skírði mig og var lengi prestur í Grundarfirði. Þau voru miklir vinir ömmu og afa. Sr. Magnús vissi að við ættum sama afmælisdag og nákvæmlega 50 ár á milli okkar. Hann tók af mér það loforð að senda honum skeyti þegar ég yrði fimmtugur og hann tíræður: Geri ég það hér með, og vona að kveðjan komist til skila!“
Eftir stúdentspróf úr Menntaskólanum í Reykjavík árið 1995 fór Hjalti í Háskóla Íslands og lærði verkfræði og tölvunarfræði. „Á háskólaárunum stofnaði ég ásamt tveimur ágætum samnemendum hugbúnaðarfyrirtækið Dímon, sem gaf út Timaflakkarann sem er einn stórkostlegasti tölvuleikur Íslandssögunnar.“
Að loknu háskólanámi flutti Hjalti ásamt konu sinni og börnum til Cambridge í Massachusetts-ríki, nágrannabæjar Boston, þar sem hann lauk MBA-námi við MIT (Massachusetts Institute of Technology) árið 2006. Að námi loknu hófst 11 ára starfsferill hjá Microsoft í Redmond í Washington-ríki, nágrannabæ Seattle. „Þar gegndi ég ýmsum störfum, meðal annars leiddi ég viðskiptaþróun fyrir gervigreind.
Eftir ferilinn hjá Microsoft lágu leiðir á gamlar slóðir, aftur til Marel, sem hafði tekið vel á móti mér sem sumarstarfsmanni árum áður. Mér var þó ekki treyst aftur í framleiðsluna heldur tók ég við hugbúnaðardeild Marel og leiddi hana frá 2017 til 2022.“
Á sama tímabili sat Hjalti í stjórn Origo og var stjórnarformaður frá 2020 til 2023.
Í dag starfar Hjalti hjá PharmID, nýsköpunarfyrirtæki í Kirkland, Washington-ríki, sem nýtir gervigreind til að efnagreina lyf fyrir spítala. „PharmID stefnir að því að setja vöruna á markað á þessu ári. Ég gegni stöðu rekstrarstjóra, fjármálastjóra og ýmsum öðrum störfum sem falla til í litlu fyrirtæki.“
Áhugamál Hjalta eru tölvur, golf, tónlist, en hann spilar á trommur, og ferðalög með fjölskyldunni. Oft er sagt um Hjalta að útbúnaðurinn sé mun betri en hæfileikarnir. Það er vert að nefna að hann hefur týnt golfboltum á flestum golfvöllum Washington-ríkis og mörgum á Íslandi. Ef áhugasamir vilja koma þeim áleiðis þá eru boltarnir af tegundinni Titleist Pro V1 með númerið 29, til heiðurs afmælisdeginum.
Fjölskylda
Hjalti kvæntist Ernu Margréti Geirsdóttur, f. 12.8. 1975, árið 2001. Hún er kennari, listamaður og frumkvöðull. Foreldrar hennar eru hjónin Geir Jón Grettisson, f. 1951, og Bertha Jónsdóttir, f. 1952, búsett í Kópavogi.
Börn Hjalta og Ernu eru þrjú: Andrea Ósk, f. 2000, háskólanemi, Þórarinn Orri, f. 2004, stúdent, og Óliver Daði, f. 2008, menntaskólanemi.
Hjalti á eina systur, Freyju Vilborgu Þórarinsdóttur, f. 1980, sem býr í Seattle með eiginmanni sínum Magnúsi Halldórssyni og tveimur sonum.
Foreldrar Hjalta eru hjónin Þórarinn Hjaltason, f. 1947, samgönguverkfræðingur og MBA, og Halla Halldórsdóttir, f. 1948, ljósmóðir, MPH og markþjálfi. Þau búa enn í Kópavogi.