Forysta Forsvarsmenn Flokks fólksins fyrir kosningar 2017, Ólafur Ísleifsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og Magnús Þór Hafsteinsson.
Forysta Forsvarsmenn Flokks fólksins fyrir kosningar 2017, Ólafur Ísleifsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson og Magnús Þór Hafsteinsson. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjármál Flokks fólksins komust í brennidepil þegar Morgunblaðið greindi frá því í liðinni viku að flokkurinn hefði þegið 240 milljónir króna í opinbera styrki þrátt fyrir að uppfylla ekki lagaskilyrði til þess

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Fjármál Flokks fólksins komust í brennidepil þegar Morgunblaðið greindi frá því í liðinni viku að flokkurinn hefði þegið 240 milljónir króna í opinbera styrki þrátt fyrir að uppfylla ekki lagaskilyrði til þess.

Þetta er þó engan veginn í fyrsta sinn, sem fjármál flokksins hafa orðið opinbert umræðuefni, en þau hafa einnig verið þrætuepli innan flokksins og ýmsar sviptingar á þeim vettvangi má rekja til ágreinings um fjármálin.

Flokkur fólksins var stofnaður „á eldhúsgólfinu“ heima hjá Ingu Sæland vorið 2016, en segja má að hún hafi haft bæði töglin og hagldirnar á flokknum æ síðan, þar á meðal flokksbuddunni.

Flokkurinn bauð fram í kosningum 2016, en fékk engan mann kjörinn. Hins vegar fékk hann nægilegt fylgi til þess að fá opinbera styrki. Flokkurinn bauð því aftur fram í óvæntum kosningum árið eftir og fékk þá fjóra menn kjörna: Ingu Sæland, Guðmund Inga Kristinsson, Karl Gauta Hjaltason og Ólaf Ísleifsson.

Síra Halldór Gunnarsson í Holti, meðstofnandi flokksins og fyrsti varaformaður, hefur lýst því bæði á bók og blaðagreinum hvernig kosningabaráttan gekk, en þar hafi formaðurinn reynst nokkuð einþykkur.

Um sumarið 2017 hélt Flokkur fólksins fjölmennt sumarþing í Háskólabíói, þar sem um 470 þúsund krónur söfnuðust, sem styr reis um síðar.

Fjármálastjórn Ingu gagnrýnd

Fljótlega eftir kosningarnar 2017 var rætt um fjármálin á þingflokksfundi, að frumkvæði Karls Gauta, sem fann að því að formaðurinn hefði prókúru flokksins með höndum. Það byði heim hættu á fjármálaspillingu eða umtali um slíkt. Inga tók þeim ábendingum hins vegar fálega.

Í febrúar 2018 kom í ljós að Inga hafði ráðið son sinn sem verkefnastjóra hjá flokknum án þess að ráðfæra sig við stjórnina um ráðninguna, kaup eða verkefni.

Á þingflokksfundi gerðu Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson ráðninguna að umræðuefni og sögðu hana ekki góða afspurnar. Þá kom fram að Inga hafði upp á eigin spýtur ráðið aðstoðarmann sinn, Sigurjón Arnórsson, til þess að vera framkvæmdastjóri flokksins, en þau hefðu bæði prókúru flokksins með höndum. Þetta var einnig gagnrýnt, formaðurinn gæti ekki farið með flokkinn eins og „einkahlutafélag í hennar eigu“. Ingu var ekki skemmt við þessar aðfinnslur, en við þetta sat.

Um haustið gengu þeir Ólafur og Karl Gauti á fundi ríkisendurskoðanda til þess að upplýsa hann um stöðu fjárhagsmálefna flokksins. Ríkisendurskoðandi kvaðst ekki hafa heimildir til að aðhafast neitt um þau.

Deilt í kjölfar landsfundar

Í september var fyrsti landsfundur flokksins haldinn á Plaza-hóteli í Aðalstræti, sóttur af 155 manns. Við stjórnarkjör fékk Karl Gauti flest atkvæði, en hann hafði sem fyrr segir haft uppi mesta gagnrýni á fjármál flokksins, sem eftir sem áður voru öll á hendi Ingu. Hún fékk hins vegar samþykkta tillögu um heimild til þess að stjórn gæti rekið fólk úr flokknum ef aðild þess ynni gegn „meginmarkmiðum og hagsmunum“ hans.

Á fyrsta stjórnarfundi eftir landsfund skipti stjórnin með sér verkum, en Inga formaður bauð sig fram til þess að vera jafnframt gjaldkeri. Karl Gauti lagðist eindregið gegn því óvenjulega fyrirkomulagi, en hann og síra Halldór lögðu til að ákvörðuninni yrði frestað. Það var fellt og formaðurinn kosinn gjaldkeri við hjásetu þeirra tveggja.

Hreinsanir eftir Klaustur

Í nóvember 2018 fóru þeir Karl Gauti og Ólafur á öldurhúsið Klaustur til fundar við forystu Miðflokksins, sem þar vætti kverkarnar. Við borðið var margt og misjafnt skrafað, þó raunar hafi þeir tveir lítt eða ekkert gagnrýnisvert sagt. Þeim var hins vegar boðið að ganga til liðs við Miðflokkinn, sem þeir tóku ekki undir.

Upptökum af öllum þessum samræðum var svo komið til fjölmiðla og óþarfi er að rekja þá sögu, nema að Klausturmálið varð Ingu Sæland tilefni til þess að reka þessa tvo þingmenn úr flokknum. Þeir hafa báðir sagst ekkert hafa þar til saka unnið og ekki legið á þeirri skoðun að Inga hafi losað sig við þá vegna gagnrýni þeirra á fjármál flokksins.

Halldór í Holti mótmælti brottrekstrinum og sagði sig úr stjórn flokksins í framhaldinu. Af því spunnust frekari deilur, m.a. með aðsendum greinum í Morgunblaðinu. Þar voru sterk orð notuð, Inga skrifaði um „karla sem hötuðust við konur“ en Halldór um „heift hennar, öfund og einræði“. Upp úr þessu hvarf síra Halldór úr flokknum.

Leyndardómur bauksins

Um svipað leyti, 11. febrúar 2019, skrifaði Jón Kristján Brynjarsson, flokksmaður og sjálfboðaliði á sumarþinginu 2017, bréf til ríkisendurskoðanda, þar sem hann vakti máls á því hvað orðið hefði um söfnunarféð úr Háskólabíói, sem formaðurinn hefði tekið í sína vörslu eftir talningu upp úr söfnunarbauknum. Síra Halldór í Holti hefði hins vegar staðfest að 470 þúsund krónurnar hefðu ekki komið inn á reikning flokksins.

Jón kvaðst ítrekað hafa spurst fyrir um þetta án þess að fá nein svör og óskaði eftir því að ríkisendurskoðandi kannaði það og að „reikningshald flokksins verði kannað ofan í kjölinn“.

Hann skrifaði aftur til ríkisendurskoðanda 14. mars 2019 og ítrekaði erindið með ábendingu um að skv. samantekt embættisins um fjármál flokksins væri ekki að sjá að nein greiðsla hefði borist á reikning flokksins hærri en 200.000 kr. allt árið 2017.

Í framhaldinu staðfesti ríkisendurskoðandi að málið væri til athugunar, en í september sendi hann svar um að við könnun sæist ekki annað en að reikningur flokksins væri réttur og ekkert yrði frekar aðhafst. Ekki kom þó neitt fram um hvort söfnunarféð hefði skilað sér.

Höf.: Andrés Magnússon