[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ítalska knattspyrnufélagið Genoa er í þann veginn að kaupa landsliðsmanninn Mikael Egil Ellertsson af Venezia en bæði liðin leika í ítölsku A-deildinni. Fréttamaðurinn Gianluca Di Marzio greindi frá þessu í gærkvöld, sagði að Mikael myndi gangast…

Ítalska knattspyrnufélagið Genoa er í þann veginn að kaupa landsliðsmanninn Mikael Egil Ellertsson af Venezia en bæði liðin leika í ítölsku A-deildinni. Fréttamaðurinn Gianluca Di Marzio greindi frá þessu í gærkvöld, sagði að Mikael myndi gangast undir læknisskoðun í dag og semja í kjölfarið. Genoa greiði þrjár og hálfa milljón evra fyrir hann og láni hann aftur til Venezia út þetta tímabil. Mikael framlengdi á dögunum samning sinn við Venezia til ársins 2028 en hann hefur leikið 21 leik með liðinu í A-deildinni í vetur og skorað tvö mörk.

Liverpool teflir fram hálfgerðu varaliði gegn PSV í kvöld þegar liðin mætast í lokaumferð deildarkeppni Meistaradeildar karla í Eindhoven. Arne Slot knattspyrnustjóri Liverpool skildi Virgil van Dijk, Ryan Gravenberch, Mohamed Salah, Trent Alexander-Arnold, Ibrahima Konaté, Alexis Mac Allister, Dominik Szobozlai, Luis Díaz og Alisson Becker eftir heima þegar liðið flaug til Hollands í gær. Liverpool er efst og hefur unnið alla sjö leiki sína.

Barcelona er með 18 stig og er eina liðið sem getur farið upp fyrir Liverpool í lokaumferðinni. Það skiptir hins vegar litlu máli því tvö efstu liðin fara saman í styrkleikaflokk þegar dregið verður til 16 liða úrslitakeppninnar.

Skautafélag Reykjavíkur vann öruggan sigur á SFH, liði Hafnfirðinga, á Íslandsmóti karla í íshokkí í Skautahöllinni í Laugardal í gærkvöld, 7:2. Staðan var 4:1 eftir fyrsta leikhluta. Kári Arnarsson og Axel Orongan skoruðu tvö mörk hvor fyrir SR í leiknum. SA er með 29 stig á toppi deildarinnar, SR er með 26 stig, Fjölnir 18 og SFH 11 stig.

Knattspyrnumaðurinn Kári Gautason hefur samið að nýju við bikarmeistara KA og er nú samningsbundinn þeim næstu þrjú árin. Kári festi sig í sessi sem vinstri bakvörður hjá KA á síðasta ári og spilaði 28 af 32 leikjum liðsins í deild og bikar.

Pólverjar sluppu fyrir horn í gær þegar þeir tryggðu sér Forsetabikarinn á heimsmeistaramóti karla í handknattleik. Þeir unnu Bandaríkin í vítakastkeppni eftir að liðin skildu jöfn, 21:21, í úrslitaleiknum í keppni átta neðstu liðanna á mótinu.

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur fengið samningi sínum við sádiarabíska félagið Al-Hilal rift eftir sannkallaða martraðardvöl og er á leið heim til Brasilíu. Forseti Santos, uppeldisfélags hans, staðfesti í gær að hann kæmi aftur þangað eftir 12 ára fjarveru. Neymar var keyptur til Al-Hilal frá París SG á 77,6 milljónir punda í ágúst árið 2023. Tókst honum einungis að spila sjö leiki fyrir liðið þar sem alvarleg hnémeiðsli settu stórt strik í reikninginn. Neymar er 32 ára og var lengi talinn í hópi bestu knattspyrnumanna heims en hann lék með Barcelona í fjögur ár og París SG í sex ár og hefur skorað 79 mörk í 128 landsleikjum fyrir Brasilíu.