Til að tengjast öðru fólki þá þarftu að þekkja eigin tilfinningar. Í dag, í þeim einmanaleikafaraldri sem nú ríkir, þá þurfa leiðtogar meira en áður að hafa hæfni til að tengjast fólki,” segir Guðrún Snorradóttir, leiðtogamarkþjálfi og eigandi fyrirtækisins Human-Centered Leader.
„Ég er með yfir áratuga reynslu sjálf sem stjórnandi og ákvað á sínum tíma að venda kvæði mínu í kross og mennta mig í markþjálfun og jákvæðri sálfræði og í kjöfarið að stofna mitt eigið fyrirtæki. Það hefur blessunarlega frá upphafi verið nóg að gera hjá mér en ég hef fundið mig knúna til að stíga fram að undanförnu til að minna leiðtoga á hversu miklu máli þeir skipta í stóra samhenginu. Við sjáum út um allan heim áskoranir, „pólariseringar“ og óróleika, sem ég vil meina að sé að hluta til vegna þess að fólk vantar samfélag. Að tilheyra, vera séð og vera hluti af einhverju stærra.“
„Við erum fædd til að tengjast fólki“
Guðrún styður við öfluga fyrirtækjamenningu með þjálfun sinni og segir hún góða upplifun að styðja við menningu fyrirtækja sem blómstra í anda góðra gilda. „Allt byrjar þetta á leiðtoganum sjálfum, að hann sé tilbúinn að horfast í augu við eigin kosti og bresti þar sem leiðtoginn er alltaf hin sterka fyrirmynd starfsmanna sinna. Rannsóknir í tilfinningagreind sýna að leiðtogar, í krafti fyrirmyndar, hafi allt að 40% meiri áhrif á tilfinningalegt ástand starfsmanna sinna heldur en aðrir samstarfsmenn.
Mér finnst áhugavert að setja athyglina á hvað er öflugt og gott við fólk og byggja á þeim rannsóknum sem ég hef skoðað í jákvæðri sálfræði. En ég trúi að öll séum við fædd í heiminn til að tengjast öðru fólki og láta gott af okkur leiða og að við séum hlý í eðli okkar. Ég hef valið að halda í þá trú og byggi á henni þegar ég kem á nýja vinnustaði.“
Hugmyndafræði sem á betur við nú en nokkru sinni fyrr
Human-Centered Leader verður tíu ára á næsta ári. „Ég var sú fyrsta hér á landi til að blanda markþjálfuninni saman við jákvæðu sálfræðina og hef verið að vinna með sömu hugmyndafræðina frá upphafi, þó að hún sé klæðskorin að viðskiptavinum hverju sinni. Mér finnst boðskapurinn eiga betur við nú en nokkru sinni fyrr, ekki síst vegna tækninnar sem hægt er að nota á góðan hátt en er að sama skapi að einangra okkur frá mannlegum tengslum.
Framar öllu öðru trúi ég á þessa mannlegu nálgun og að bakslag í jafnréttisbaráttu og inngildingu eins og við fylgjumst með í vestrænu samfélagi sé ákall fyrir okkur sem störfum við ráðgjöf að gera það sem í okkar valdi stendur til að bæta ástandið.“
Gervigreindin færir leiðtogum mikil tækifæri
Guðrún hefur lengi haldið fyrirlestra um framtíðarfærni á vinnumarkaði, seiglu og tilfinningagreind og finnst gaman að halda námskeið fyrir leiðtoga í fyrirtækjum sem og starfsfólk þeirra. „Þegar ég fór að kynna mér gervigreindina þá sá ég tækifæri fyrir leiðtoga. Ég hugsaði með mér: Nú er komið andrými fyrir leiðtoga að stíga enn betur inn í hlutverk sitt. Þegar gervigreindin er farin að leysa ýmis verkefni fyrir okkur þá myndast meira rými fyrir starfsfólkið okkar, og fyrir leiðtoga að taka samtölin, að hlusta á dýptina og láta verkin tala. Það eru miklir möguleikar fram undan – við þurfum að brúa bilið á milli manneskjunnar og tækninnar,“ segir Guðrún Snorradóttir að lokum.