Jónína Birgisdóttir, forstöðumaður þjónustu og dreifingar hjá ELKO, leggur áherslu á styðjandi starfsumhverfi.
Jónína Birgisdóttir, forstöðumaður þjónustu og dreifingar hjá ELKO, leggur áherslu á styðjandi starfsumhverfi.
Fyrirtækið leggur áherslu á jafnrétti og fjölbreytni og er ég sannfærð um að konur eigi fullt erindi í öll þau hlutverk sem eru í boði hjá okkur.

Jafnrétti í atvinnulífinu skiptir mig miklu máli. Fyrir mér snýst jafnrétti um tækifæri, sýnileika og stuðning til að konur fái að blómstra í sínu starfi og taka ábyrgð. Það að 50 ár séu liðin frá fyrsta kvennafrídeginum minnir okkur á að jafnréttisbaráttan skilar árangri en hún er líka verkefni sem við þurfum að halda áfram að vinna að; bæði í menningu og stefnu fyrirtækja,“ segir Jónína Birgisdóttir, forstöðumaður þjónustu og dreifingar hjá ELKO. Starf hennar felur í sér ábyrgð á heildarþjónustuupplifun viðskiptavina.

Jónína segir áhugavert að starfa í fyrirtæki sem er stöðugt að skoða hvernig má gera hlutina betur. „Það hafa mörg spennandi verkefni verið í vinnslu hjá ELKO að undanförnu. Mörg þessara verkefna eru með það markmið að bæta þjónustuna okkar til að tryggja enn betri upplifun viðskiptavina. Við höfum tekið í notkun nýtt símakerfi og CRM Dynamics-kerfi, og á næstu dögum munum við einnig innleiða nýtt netspjall. Jafnframt leggjum við mikla áherslu á fræðslu og þjálfun starfsmanna í ELKO til þess að stuðla að framúrskarandi þjónustu,“ segir Jónína sem kann vel við sig á sviði þjónustu. „Undir þjónustusviðið fellur margt. Svo sem rekstur þjónustuvers, ábyrgð á þjónustustefnu fyrirtækisins, gæða- og ferlamál, öll eftirkaupaþjónusta sem eru til dæmis ábyrgðir, galla- og viðgerðamál, tryggingasala og önnur þjónustusala. Þá fellur einnig undir sviðið öll póstdreifing til viðskiptavina og rekstur viðgerðalagers fyrirtækisins.“

Fyrirtækið leggur áherslu á jafnrétti

Aðspurð hvort finna megi áhugaverð störf í ELKO fyrir konur svarar hún að bragði: „Já, algjörlega! ELKO er spennandi og fjölbreyttur vinnustaður sem býður upp á ótal tækifæri fyrir starfsfólk að vaxa í starfi og nýta hæfileika sína til fulls. Fyrirtækið leggur áherslu á jafnrétti og fjölbreytni og er ég sannfærð um að konur eigi fullt erindi í öll þau hlutverk sem eru í boði hjá okkur,“ segir Jónína.

Þegar kemur að starfsumhverfi er hún með skýra sýn á það sem stjórnendur þurfa að gera til að starfsfólki líði vel í vinnunni sinni. „Mér finnst afar mikilvægt að skapa jákvætt og styðjandi starfsumhverfi þar sem starfsmenn fá þjálfun og tækifæri til að vaxa og dafna í starfinu sínu. Ég trúi því að ef fólki líður vel í vinnunni þá geti það skilað sínu besta framlagi. Eins finnst mér mikilvægt að fyrirtæki séu í stöðugri framþróun og leiti tækifæra til að gera hlutina enn betur. Fyrirtæki þurfa ekki aðeins að einblína á lausnir sem bæta þjónustu og auka framleiðni heldur þarf einnig að huga að verkefnum sem stuðla að aukinni starfsánægju og bættu starfsumhverfi,“ segir Jónína.

Jónína hefur verið meðlimur í FKA í mörg ár. „Ég styð starfsemi FKA heilshugar enda gegnir félagið gríðarlega mikilvægu hlutverki í að styðja við konur í atvinnulífinu og veita þeim vettvang til að tengjast, efla sig og deila reynslu sinni. Það er ómetanlegt að vera hluti af samfélagi kvenna sem vinna markvisst að framþróun, jafnrétti og nýsköpun í atvinnulífinu. Fyrir mér er FKA ekki bara félag heldur kraftmikill vettvangur sem hvetur til vaxtar og árangurs.“

Hefurðu alltaf átt öflugar kvenfyrirmyndir í lífinu?

„Já, ég hafði sterkar kvenfyrirmyndir í æsku; bæði móðir mín og móðuramma höfðu jákvæð áhrif á mig en ég hef einnig átt sterkar fyrirmyndir í samfélaginu og hef þær enn. Konur sem sýndu mér gildi vinnusemi, sjálfstrausts og seiglu. Það hefur alltaf jákvæð áhrif og máta ég mig við gildi þessara kvenna enn þá í dag þegar ég tek ákvarðanir í lífinu,“ segir Jónína.