Andrea Sigurðardóttir
andrea@mbl.is
Inga Sæland og fleiri kjörnir fulltrúar Flokks fólksins segja um lítinn formgalla að ræða að flokkurinn hafi ekki verið skráður á stjórnmálasamtakaskrá Skattsins. En hvað felst í þessum formgalla?
Skráning flokks í stjórnmálasamtakaskrá Skattsins er valkvæð, en hún er þó fortakslaust skilyrði vilji flokkur þiggja opinbera styrki. Til þess að öðlast skráningu á stjórnmálasamtakaskrá þarf tilgangur samtakanna að vera að bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórnar. Þá þurfi samþykktir að vera í samræmi við lög og önnur tilskilin gögn að fylgja umsókn.
Á eyðublaði Skattsins Tilkynning um breytingu félagasamtaka í stjórnmálasamtök þarf að rita grunnupplýsingar um samtökin: nafn, kennitölu, heimilisfang og netfang. Veita þarf upplýsingar um nöfn og kennitölur stjórnarmanna og dagsetningu fundar þess sem stjórnarkjör fór fram á. Þá þarf að gefa upp nafn og kennitölu framkvæmdastjóra sem og prókúruhafa, eða annarra sem geta skuldbundið félagið. Eyðublaðið þarf að rita firmaritun skv. samþykktum félagsins, auk þess sem meirihluti stjórnar undirritar.
Með tilkynningunni skal fylgja yfirlit yfir flokkseiningar og hlutverk þeirra og samþykktir samtakanna, undirritaðar af minnst meirihluta stjórnar eða prókúruhafa.
Samþykktir félaganna eiga m.a. að kveða á um heiti samtakanna, heimilisfang og aðalstarfsstöð, tilgang, skipulag samtakanna, hlutverk stjórnar, fjölda stjórnarmanna, skipan þeirra og starfstíma, hverjir rita firma samtakanna, reglur um inngöngu í og úrsögn úr samtökunum, kjörtímabil endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, upplýsingar um hvernig staðið skal að breytingum á samþykktum, reglur um slit samtakanna, upplýsingar um hvernig fara skuli með eignir samtakanna séu þau lögð niður eða þeim slitið.
Stjórnmálasamtakaskrá skal birt almenningi á vef Skattsins ásamt þeim upplýsingum sem fylgja umsókn um skráningu og upplýsingum um breytingar á skráningu. Við birtingu á vef er heimilt að undanskilja birtingu kennitalna.