Vilhjálmur Árnason
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er langstærsta stjórnmálasamkoma Íslands og þó víðar væri leitað sem sést vel á því plássi sem fundurinn fær í þjóðmálaumræðunni. Landsfundurinn er lýðræðissamkoma þar sem um 2.000 landsfundarfulltrúar alls staðar að af landinu, þvert á stéttir og samfélagshópa, koma saman til að ákvarða málefnaáherslur flokksins ásamt því að kjósa forystu.
Undirbúningur þessa mikla fundar sem fer fram í Laugardalshöll 28. febrúar til 2. mars er nú í fullum gangi. Málefnanefndir flokksins eru átta og endurspegla málefnanefndir Alþingis. Stjórnir nefndanna eru kosnar á landsfundi en einnig fá þær liðstyrk frá ýmsum einingum flokksins. Málefnanefndirnar eru nú á fullu að undirbúa drög að ályktunum til að leggja fyrir fundinn og munu þær á næstu dögum auglýsa opna fundi þar sem hinn almenni flokksmaður getur komið sínum sjónarmiðum á framfæri og tekið þátt í að móta áherslur Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisfélög hafa jafnframt boðað til funda næstu daga og vikur til að kjósa fulltrúa sína á landsfund. Allir sem eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn hafa rétt á að óska eftir sæti á landsfundi í gegnum sitt sjálfstæðisfélag. Til 31. janúar verður hægt að óska eftir sæti á landsfundi í gegnum heimasíðu Sjálfstæðisflokksins, www.xd.is, og eftir það getur fólk leitað til formanns í sínu félagi. Hvert félag skal hafa tilkynnt sína landsfundarfulltrúa fyrir 14. febrúar.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins er samkoma sem býr yfir ólýsanlegum krafti sem fólk þarf að upplifa á eigin skinni. Stemningin er mikil þar sem fjölbreyttur hópur fólks sameinast í hugsjón um betra samfélag þar sem allir hafa jöfn tækifæri og byggist á trú á einstaklinginn. Flokksfólk er óhrætt við að takast á um málefnaáherslur og hvaða einstaklingum það treystir best til að sinna forystu í Sjálfstæðisflokknum en kemur svo fullt eldmóðs út af fundinum og berst sameinað fyrir sínum hugsjónum. Ég hvet sjálfstæðismenn til að taka þátt í málefnaundirbúningi landsfundarins og áhugasama um að óska eftir sæti á fundinum. Hlakka til að hitta ykkur á landsfundi.
Höfundur er ritari Sjálfstæðisflokksins.