Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Gæludýr.is, stofnaði fyrirtækið sitt árið 2009. Hún segir mikilvægt að tala um fyrirtækin sem ganga vel í landinu.
Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Gæludýr.is, stofnaði fyrirtækið sitt árið 2009. Hún segir mikilvægt að tala um fyrirtækin sem ganga vel í landinu. — Morgunblaðið/Karítas
Það sem mér finnst svo einkennandi fyrir FKA-hópinn er hversu orkumikill og valdeflandi hann er.

Gæludýraverslunin Gæludýr.is er sú stærsta sinnar tegundar á Íslandi. „Við erum búin að vera með fasta viðskiptavini frá árinu 2009 þegar við opnuðum heimasíðuna okkar og fyrstu verslunina á Korputorgi árið 2010. Síðan þá höfum við vaxið jafnt og þétt og nú erum við með fimm verslanir, heimasíðuna Gæludýr.is og erum að opna sjöttu verslunina okkar á Reykjanesi í sumar. Eins erum við að standsetja 2.600 fermetra vöruhús fyrir Petmark-heildsöluna okkar,“ segir Ingibjörg Salóme Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Gæludýr.is og Home&You. „Ég stofnaði Gæludýr.is ásamt eiginmanni mínum, Eiríki Ásmundssyni. Við höfum skipt með okkur verkum en hann sér nú alfarið um heildverslunina Petmark ehf. sem við stofnuðum 2015. Það var árið 2022 sem við svo festum kaup á versluninni Home&You. Fyrirtækið hefur stækkað jafnt og þétt og það sama má segja um fjölskylduna en saman eigum við fimm börn, þrjú barnabörn og fimm hunda,“ segir Ingibjörg.

Velta tveimur milljörðum á ári

Þeir sem eiga gæludýr vita að allt frá því Gæludýr.is var opnað á Korputorgi varð til stórmarkaður fyrir gæludýr þar sem finna má allt undir sólinni á hagstæðu verði fyrir heimilisdýrin. „Við hjónin vegum hvort annað upp en erum í grunninn mikið rekstrarfólk. Við höfum alltaf unnið mjög mikið í rekstrinum sjálf enda bæði með ástríðu fyrir gæludýrum og að byggja upp fyrirtæki.“

Velta fyrirtækisins nemur nú tveimur milljörðum og segir Ingibjörg margt hafa breyst á sextán árum. „Við byrjuðum með tvær hendur tómar og vorum strax með mikið aðhald í rekstrinum á sama tíma og við fundum leiðir til að vaxa. Mér finnst mikilvægt að halda sögu fyrirtækisins á lofti til að unga fólkið okkar viti hvað er að gerast í viðskiptalífinu.“

Ingibjörg segir velgengni Gæludýr.is að stórum hluta starfsfólkinu að þakka. „Allir þeir sem vinna hjá okkur eru með sérstaka ástríðu fyrir dýrum og eru sérfræðingar í sínum uppáhaldstegundum. Verslanirnar okkar eru ævintýraheimur fyrir dýrin og má nefna sem dæmi nammibarinn, sem hundarnir elska að koma á með eigendum sínum. Hjá okkur fæst einnig fóður, ólar, taumar, beisli, fatnaður, leikföng, búr, þrautir, bæli og í raun allt sem gæti þurft inn á heimilið til að gæludýrunum líði sem best.“

Rauði þráðurinn í FKA er tengslanetið

Ingibjörg, sem er viðskiptafræðingur með mastersgráðu í árangursstjórnun, starfaði áður sem mannauðsstjóri hjá Matís á árunum 2005-2008 og hugbúnaðarfyrirtækinu Teris á árunum 2008 til 2010. Hún er í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem hún gegnir stöðu gjaldkera. „Ég er einnig hundaræktandi og hef verið í alls konar hópum sem ég hef kunnað vel við mig í. Það sem mér finnst svo einkennandi fyrir FKA-hópinn er hversu orkumikill og valdeflandi hann er. Það er svo mikið til af flottum konum á Íslandi sem eru að gera svo magnaða hluti. Í hvert sinn sem ég fer á viðburð hjá FKA minnir það mig á hversu öflugar við erum. Það er svo mikil viska í FKA-konum og auðvelt að falla þar inn,“ segir Ingibjörg og rifjar upp áhugaverða stefnumótun sem farið var í á haustmánuðum ársins 2024 í félaginu. „Rauði þráðurinn í þeirri vinnu var þessi hugmynd að styrkja tengslanetið. Það er gott að vera í FKA þegar maður er í rekstri eða er stjórnandi. Konur eru konum bestar og við eflum svo sannarlega hver aðra í félagsskapnum.“

Hvað hefurðu ræktað hunda lengi?

„Ég hef ræktað ástralska silky terrier-hunda í fimmtán ár og er gaman að segja frá því að öll börnin hafa flutt að heiman með hund,“ segir Ingibjörg og brosir. „Það er eitthvað svo dásamlegt við að ala upp börn og kenna þeim að umgangast dýr. Það er svo einstakt að sjá samskipti barna og dýra. Maður þarf að sjálfsögðu að kenna hundinum sínum að bera virðingu fyrir barninu, og að barnið komi fyrst og svo hundurinn. Eins finnst mér svo þroskandi fyrir börn að læra að bera virðingu fyrir dýrum og læra að umgangast einhvern sem er minni en þau og þarf meiri aðstoð en þau gera með aldrinum. Það verður til svo falleg virðing fyrir lífinu í þessu ferli.“

Hundarnir koma sjálfir á nammibarinn að velja sér

Ingibjörg hefur frá því hún man eftir sér verið með nóg á prjónunum. „Mér finnst skipta svo miklu máli að beina athygli og orku í eitthvað jákvætt og uppbyggilegt og mikilvægt að ungar konur viti að gangi þær með draum í maganum um að stofna fyrirtæki þá er til fólk eins og við sem hefur gert það af mikilli ástríðu og gengið vel. Það er alltaf eitthvað nýtt og spennandi að gerast í atvinnulífinu og að reka fyrirtæki er alveg ævintýralega skemmtilegt. Reksturinn í dag er öðruvísi en hann var í upphafi. Núna erum við með um 50 starfsmenn og kann ég mjög vel við mig sem stjórnandi. Það var ekki auðvelt að taka stökkið á sínum tíma, út í óvissuna þegar maður gat ekki einu sinni borgað sér laun í byrjun, en ég sé ekki eftir því. Ég hef verið mjög heppin með starfsfólk en ég segi stundum að fólkið sem velst inn í minn geira sé alveg einstaklega gott fólk í eðli sínu. Eins finnst mér dýrmætt að ná að skapa atvinnu fyrir unga fólkið okkar og er starfsfólkið allt niður í fimmtán ára að aldri, í helgarvinnu. Ég er með marga kvenstjórnendur og meginstefið í mannauðsmálunum okkar er fjölbreytileiki enda eru dýraeigendur alls konar og við viljum mæta þeim af visku og þekkingu. Allir sem vinna fyrir okkur eru, eins og áður sagði, miklir dýravinir og á kafi í hundasýningum. Fyrir mig starfar nagdýragúrú og kattavinir en við vinnum mikið með Villiköttum og Dýrahjálp.“

Ingibjörg segir enga tvo daga eins í Gæludýr.is. „Það koma svo mörg gæludýr í heimsókn. Í verslunum okkar hittirðu alla daga hunda sem koma sjálfir á nammibarinn að velja sér. Það er mjög krúttlegt. Þetta eru allt miklir fastaviðskiptavinir, svo koma eigendurnir að sjálfsögðu með þeim,“ segir Ingibjörg.