Mörður Árnason
Mörður Árnason
„Ég er ekki lögfræðingur og get í sjálfu sér ekki blandað mér í umræðu um lögfræðileg álitamál eða dómsmál,“ segir Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, um áfrýjun Landsvirkjunar á dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 15

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Ég er ekki lögfræðingur og get í sjálfu sér ekki blandað mér í umræðu um lögfræðileg álitamál eða dómsmál,“ segir Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, um áfrýjun Landsvirkjunar á dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. janúar sl. þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi.

Mörður, sem var formaður umhverfisnefndar Alþingis árið 2011 þegar verið var að innleiða tilskipanir vegna EES-samningsins í lög um stjórnun vatnamála, segir að á þeim tíma hafi breytingar á lögunum ekki verið taldar stórvægilegar, enda hafi verið góð samstaða um málið innan þingsins. Hann segist þó muna eftir að talsverð pressa hafi verið á íslensk stjórnvöld frá EES fyrir að hafa ekki innleitt þessar tilskipanir.

Leyfi háð almannaheill

„En ég hef aldrei skilið það þannig að með þessum breytingum væru komnar reglur sem myndu stöðva allar virkjunarframkvæmdir, eins og Hörður Árnason og fleiri hafa túlkað þetta,“ segir Mörður og bætir við að það hafi aðrir talið líka því að annars hefði eflaust staðið meiri styr um málið á sínum tíma ef það hefði verið mat þingsins.

„Ég hins vegar bendi á það að lögin sjálf, og það hlýtur að hafa verið pólitísk samstaða um það, fjalla m.a. um virkjunarframkvæmdir, flóðavarnir og fleira og um það má lesa í greinargerð flutningsmanns, þáverandi umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur, sem rekja má til lögfræðinga umhverfisráðuneytisins sem eru að túlka evrópskan rétt. Þá les ég 18. grein laganna þannig að sá sem fer fram á leyfi til virkjana verði að sýna fram á að almannaheill liggi við,“ segir Mörður og bætir við að það virðist ekki hafa verið gert í þessu tilfelli.

„Núna er hægt að skamma okkur á þessu þingi þar sem allir samþykktu þetta að mig minnir, fyrir að hafa ekki skilgreint „almannaheill“ betur, en það er þá dómstóla að gera það. Þetta er í raun það eina sem ég hef að segja um málið í dag sem fyrrverandi þingmaður og virkur áhorfandi.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir