Forvarnastarf VIRK hefur verið í töluverðri endurskoðun frá árinu 2023 og var meðal annars farið í yfirgripsmikla stefnumótunarvinnu til að skerpa á áherslum þegar kemur að forvörnum. Afrakstur þessarar vinnu er meðal annars ný einstaklingsmiðuð þjónusta sem sviðið mun bjóða upp á,“ segir Guðrún Rakel Eiríksdóttir, sviðsstjóri forvarna hjá VIRK. Hún segir mikla vinnu í gangi núna við að þróa og yfirfara forvarnavefinn velvirk.is. „Verið er að leggja áherslu á notendavænt viðmót og hagnýta notkun þess efnis sem þar er að finna. Vonir standa til að nýr vefur fari í loftið næsta haust. Við erum auk þess að fara af stað með nýja forvarnaþjónustu sem miðar að því að koma í veg fyrir að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Sú þjónusta er veitt samhliða vinnumarkaðsþátttöku einstaklinganna.“
Að efla starfsfólk og stjórnendur á vinnumarkaði
Hluti af starfi Guðrúnar Rakelar er einnig að heimsækja fyrirtæki, hópa eða félagasamtök með kynningar á forvarnaverkefnum og hefur verið töluverður áhugi fyrir því að fá kynningar á þróunar- og rannsóknarverkefni um kulnun hjá VIRK. „Þetta eru nokkur dæmi um þau fjölbreyttu og skemmtilegu verkefni sem eru í gangi á sviðinu. Ég má til með að benda á morgunverðarfund sem forvarnasvið VIRK stendur fyrir um kulnun og vinnumarkað. Hann verður haldinn 13. febrúar og mun Jósef Sigurðsson, dósent við Hagfræðideild Stokkhólmsháskóla, ræða efnahagsleg áhrif vinnutengdrar streitu og kostnað kulnunar. Ég mun svo fjalla aðeins um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði þegar kemur að kulnun,“ segir hún.
Þjónustan á forvarnasviðinu felst meðal annars í upplýsingamiðlun og fræðslu sem miðar að því að auka starfsgetu og þátttöku á vinnumarkaði. „Eins viljum við að þjónustan nýtist vel þegar kemur að því að bæta vinnuumhverfi og líðan starfsmanna. Mikilvægur liður í því er að efla bæði starfsfólk og stjórnendur á vinnumarkaði með hagnýtum verkfærum og fræðslu sem byggist á nýjustu þekkingu.“
Hvert er umfang einstaklinga með heilsubrest á landinu?
„Við hjá VIRK höfum í raun ekki yfirsýn yfir umfang allra einstaklinga með heilsubrest á landinu. Starfsendurhæfing getur verið gríðarlega mikilvæg fyrir marga til að ná fyrri heilsu og að verða virkir á vinnumarkaði, hvort sem það er að hluta til eða öllu leyti. Að því sögðu þurfa alls ekki allir með heilsubrest á þjónustu VIRK að halda. Margir ná fyrri heilsu og starfsþreki með öðrum leiðum,“ segir Guðrún Rakel.
Vilja veita árangursríka þjónustu þegar kemur að kulnun
Frá haustinu 2020 hefur hún ásamt Berglindi Stefánsdóttur, samstarfsfélaga sínum, verið að vinna að rannsóknar- og þróunarverkefni um kulnun. Þetta verkefni er samstarfsverkefni VIRK og Háskólans í Reykjavík. „Við töldum mikilvægt að skerpa á viðmiðum og aðlaga verkferla þegar kemur að kulnun. Markmiðið með því að fara í slíka rannsóknarvinnu er fyrst og fremst að veita öllum einstaklingum viðeigandi og árangursríka þjónustu út frá þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Ef tekið er mið af skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (e. WHO) á kulnun hefur það komið í ljós að af öllum þeim sem sækja þjónustu VIRK telja töluvert fleiri sig með einkenni kulnunar en falla í raun undir skilgreiningu WHO á kulnun. Samkvæmt þeirra skilgreiningu er kulnun heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Verkefnið snýst meðal annars um að ná betur utan um þetta fyrirbæri, bæta þjónustu og efla forvarnir á þessu sviði,“ segir Guðrún Rakel sem hefur unnið hjá VIRK frá árinu 2018. „Tíminn hefur verið ansi fljótur að líða. Það hefur mikið breyst á þeim tíma enda er þjónusta VIRK stöðugt að þróast og breytast í takt við samfélagið á hverjum tíma.“
Hafa virðingu að leiðarljósi í vinnunni
Það er mikilvægt að sýna fólki virðingu og segir hún það meginstef allra hjá VIRK. „Við leggjum áherslu á að tala við fólk og hlusta vel á þarfir hvers og eins. Það er okkar leiðarljós.“
Virk hefur gott orð á sér í samfélaginu og segir Guðrún Rakel hreint út sagt frábært að starfa á vinnustaðnum. „Hér starfar alveg framúrskarandi fagfólk upp til hópa og mjög gefandi að vinna í slíku starfsumhverfi. Það er mikill metnaður hjá okkur að vera alltaf að þróa okkar þjónustu til að geta komið til móts við fjölbreyttan hóp sem þarf á starfsendurhæfingu að halda. Ég myndi segja að það sé því mikill vilji til að mæta fjölbreyttum áskorunum sem þjónusta VIRK stendur frammi fyrir. Við erum alltaf að afla okkur nýrrar þekkingar, meðal annars með þróunarstarfi og þátttöku okkar í rannsóknum,“ segir hún.
Þegar kemur að þjónustuþegum eru þeir fjölbreyttur hópur fólks. „Hlutfall kvenna er vissulega hærra en karla þegar kemur að þjónustuþegum okkar. Árið 2024 voru 68% konur og 32% karla í þjónustu VIRK. Líkt og hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga er algengara að konur leiti hingað eftir þjónustu. Fyrir áhugasama sem vilja rýna nánar í þessar tölur get ég bent á ársrit VIRK og heimasíðuna virk.is,“ segir Guðrún Rakel.
„Jafnrétti er lykilatriði þegar kemur að því að bæta samfélagið“
Hver er skoðun þín á kvennafrídeginum og jafnréttismálum almennt?
„Kvennafrídagurinn 1975 var afar táknrænn og þýðingarmikill fyrir jafnréttisbaráttuna. Þá var einmitt lögð rík áhersla á störf kvenna, bæði launuð og ólaunuð, og það óréttlæti sem hafði viðgengist í okkar samfélagi. Þessi dagur er áminning um mikilvægi baráttunnar og ekki síður þær framfarir sem hafa náðst í jafnréttismálum. Jafnrétti er að mínu mati lykilatriði þegar kemur að því að bæta samfélagið og við hljótum öll að vilja búa í samfélagi sem veitir jöfn tækifæri óháð kyni. Kvennafrídagurinn er frábær þegar kemur að því að minna á allt sem hefur áunnist en á sama tíma að halda þessu mikilvæga verkefni á lofti.“
Sjálf reynir hún að huga eftir bestu getu að eigin heilsu. „Ég reyni að efla mig í lífi og starfi með því að huga að þessu mikilvæga jafnvægi í lífinu. Fyrir mig er það að stunda útivist og hreyfa mig markvisst, eyða tíma með fjölskyldunni og gera meira af því sem lætur manni líða vel. Ég reyni líka stöðugt að halda mér faglega við og þrífst mjög vel í starfi sem er sífellt í þróun. Því hentar núverandi starf mér afar vel, því þar hef ég tækifæri til að vinna að spennandi og krefjandi verkefnum. Að vinna hjá VIRK er ekki síður gefandi þar sem ég tel starfsemina afar þýðingarmikla fyrir íslenskt samfélag,“ segir Guðrún Rakel.