Agnes Helga María Ferro fæddist 15. október 1988 í Ortona á Ítalíu. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 10. janúar 2025.

Foreldrar hennar eru Aurelio Ferro, f. 18. mars 1961 í San Severo í Puglia á Ítalíu, og Jóhanna Marín Jónsdóttir, f. 11. júlí 1965 í Reykjavík, alin upp í Hafnarfirði. Þau skildu. Systkini Agnesar eru Arianna, f. 10. nóvember 1992 í Pescara á Ítalíu, dóttir hennar er Paula Marín, f. 30. október 2012, Jón Már, f. 10. október 1995 í Reykjavík, sambýliskona hans er Birta Kristrún, f. 24. mars 1998, dóttir þeirra er Stella Marín, f. 7. maí 2023, og Bahía Aurelie samfeðra, f. 30. apríl 2002 í San Diego, Bandaríkjunum, sambýlismaður hennar er Sólmundur, f. 25. ágúst 1993, dóttir þeirra, óskírð, f. 10. október 2024. Móðir hennar er Anna Patricia Brizuela-Castaneda, f. 16. apríl 1959, seinni kona Aurelios, sem tók virkan þátt í uppeldi og lífi Agnesar frá 10 ára aldri. Hún á þrjú börn af fyrra hjónabandi. Þau skildu.

Jóhanna er gift Árna Áskelssyni, f. 6. febrúar 1953, sem einnig tók virkan þátt í uppeldi og lífi Agnesar frá 14 ára aldri. Hann á tvo syni af fyrra hjónabandi.

Agnes ólst upp fyrstu sjö æviárin í bænum Pescara í Abruzzo-héraði

Agnes lauk stúdentsprófi um áramót 2007-2008 frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Meðfram menntaskólanáminu vann hún ýmis störf, lengst af á sambýlinu Einibergi.

Eftir stúdentsprófið fór hún til Spánar í spænskuskóla og vann einnig á hóteli ásamt tveimur vinkonum sínum. Agnes fór í sambúð með Ingva Erni Ingvasyni haustið eftir og er sonur þeirra Alexander f. 31. maí 2010. Þau slitu samvistum.

Agnes hafði byrjað í háskólanum í ferðamálafræði en tók sér hlé til að undirbúa komu sonarins. Þegar Alexander var eins árs byrjaði hún aftur í HÍ og kláraði BA-próf í félagsráðgjöf vorið 2014. Á háskólaárunum byrjaði Agnes í sumarstarfi sem flugfreyja hjá Icelandair og fór síðar í fullt starf. Þá nam hún tölvunarfræði í HR samhliða fullri vinnu.

Í nóvember 2016 greindist Agnes með 3. stigs illvígt brjóstakrabbamein og þurfti í kjölfarið að hætta bæði námi og vinnu. Við tók löng lyfjameðferð, skurðaðgerð og geislameðferð. Eftir það gekk hún í gegnum stífa endurhæfingu og sótti hana að mestu leyti í Ljósið.

Eftir þá meðferð byrjaði Agnes aftur að vinna sem flugfreyja og vann í því starfi fram að kóvíd, en var þá sagt upp ásamt fjölda annarra. Stuttu seinna fékk hún starf hjá Landlæknisembættinu og vann þar í um tvö ár. Á þeim tíma keypti Agnes íbúð í Hafnarfirði og skráði sig í hjúkrunarfræði. Hún fékk svo aftur starf sem flugfreyja þegar kóvíd var yfirstaðið og blómstraði á ný í starfinu. Sumarið 2022 hafði hún farið að finna fyrir mæði og verk í baki, en tengdi það ekki við krabbameinið. Um haustið kom í ljós að meinið hafði dreift sér í bein og lifur.

Útför Agnesar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 29. janúar 2025, og hefst athöfnin klukkan 15.00.

Elsku mamma.

Þú varst besta manneskja sem ég hef kynnst, þú varst alltaf til í stuð en gast líka verið í kósí og slakað á. Sambandið milli okkar er það besta og sterkasta sem ég hef upplifað. Þú varst ekki bara besta mamma mín heldur besti vinur minn. Við gerðum svo mikið saman, t.d. fórum við oft á ströndina rétt hjá Bessastöðum, spiluðum, vorum ótrúlega dugleg að fara í útilegur, bústaði og útlandaferðir og þá sérstaklega til Ítalíu. Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir þessi 14 ár sem ég fékk með þér en ég er líka svekktur að fá ekki fleiri. Ég mun tala við þig á hverjum degi, hafa þig í hjarta mínu og huga í öllu sem ég tek mér fyrir hendur.

Þinn sonur,

Alexander.

Elsku besta stóra systir mín. Nú hafa þjáningar þínar og sársauki verið linuð. Fyrst langar mig að þakka þér fyrir allt sem þú kenndir mér og allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Alltaf gat ég leitað til þín og vissi að þú myndir hlusta en ekki síst gefa góð ráð þegar ég þurfti.

Í fyrsta sinn í mörg ár ertu ekki að berjast til að halda lífi og loksins færðu að hvílast. Eins erfitt og það er að sætta sig við að ég geti ekki fengið að kíkja í heimsókn eða hringja í þig og sjá hve langt símtalið er orðið, þá er ég feginn að vita að þú þurfir ekki að lifa í þeim sársauka sem við sáum en gátum á engan hátt skilið.

Agnes, ekki eru til orð yfir hvað ég elska þig og mun elska þig að eilífu. Stella mun svo sannarlega fá að heyra alls konar sögur um þig og hversu ótrúlega fyndna frænku hún átti. Fáir ná að samtvinna jafn mikinn húmor við mestu góðmennsku sem allir í kringum þig fengu að kynnast.

Ég óska mér þess heitast að Stella muni líkjast þér á sem mestan hátt. Vonandi byrjar hún samt ekki að stelast niður í bæ jafn snemma.

Agnes, takk fyrir að ala upp þann einstaka strák sem Alexander er. Ást ykkar var einstök. Ég veit að allir dáðust að því hvernig þú tæklaðir móðurhlutverkið og fyrir það máttu vera stolt. Eins máttu vera stolt af því að vera besta mamma tvö fyrir systkini Alexanders.

Vinkonur þínar, vinnufélagar og síðast en ekki síst fjölskyldan þín munum halda uppi heiðri þínum. Vinkonur þínar eru til marks um hve skemmtileg þú varst. Stærri og betri vinkonuhópur er vandfundinn.

Agnes, ég gæti skrifað endalaust um þig. En núna get ég bara hugsað um hve mikið það stingur í hjartað að fá ekki liggja í sófanum með þér í Tröllakórnum og spjalla um lífið. Agnes, takk fyrir allt.

Jón Már Ferro.

Það er skrítin tilfinning að skrifa minningarorð til þín því maður vonaðist auðvitað til að þessi dagur kæmi ekki nærri því strax, helst bara þegar við værum orðin hundgömul, en svo getur lífið verið ósanngjarnt. Hvar á maður að byrja? Mig langar bara að segja takk fyrir allt sem við höfum upplifað saman (og í sundur) síðastliðin 16 ár.

Við kynntumst í tvítugsafmælinu þínu á skemmtistaðnum Glaumbæ þann 18. október 2008. Þegar við komumst að því að þú værir ólétt haustið 2009 var ég sannfærður um að ég yrði vonlaus faðir, enda atvinnu- og stefnulaus, og Ísland í miðju efnahagshruni. Þú gafst slíku tali engan gaum og hef ég þakkað þér margsinnis fyrir þennan glæsilega dreng okkar í gegnum árin og geri það aftur hér, takk. Þegar ég hélt á honum í fyrsta sinn breyttist eitthvað innan í mér. Þú fékkst mig til að rífa mig í gang og fullorðnast (held að það hafi tekist ágætlega). Alexander er spegilmyndin þín og arfleifð þín lifir áfram í gegnum hann.

Þú tókst móðurhlutverkið alvarlega, stundum kannski of alvarlega, því þú elskaðir þennan dreng svo heitt og vildir allt fyrir hann gera. Þú blómstraðir í þessu hlutverki og það var aðdáunarvert að fylgjast með þér. Þegar við slitum svo samvistum þegar Alexander var 1½ árs ákváðum við strax að hann yrði ávallt í fyrsta sæti, sama hvað gengi á milli okkar. Ég er stoltur af því að við náðum að standa við það, þótt það hafi ekki alltaf verið auðvelt, sérstaklega þegar við vorum farin að slá okkur upp með öðru fólki. Við fengum oft hrós í gegnum árin fyrir hversu samheldin við vorum, en hrósið sem ég er hvað stoltastur af er þegar leikskólastjóri Alexanders sagði að starfsfólk leikskólans gleymdi alltaf að hann væri „skilnaðarbarn“ því hann væri alltaf svo glaður og í góðu jafnvægi, og að samband okkar væri svo gott.

Við vorum alltaf góðir vinir og gátum rætt allt milli himins og jarðar og vinskapurinn styrktist bara eftir því sem leið á. Ég mun sakna þessara samtala mikið. Þegar ég og Díana eignuðumst Gunnar Berg og Emmu voru þau svo heppin að eignast aukamömmu, eða „mömmu 2“ eins og þú varst ávallt kölluð, enda hugsaðir þú gjarnan um þau eins og þín eigin. Þau dýrkuðu þig og dáðu og vildu oftar en ekki frekar vera hjá þér en með foreldrum sínum, því þú varst alltaf svo skemmtileg og yndisleg. Við munum nú vera dugleg að segja þeim skemmtilegar sögur af þér, rifja upp góðar minningar og sýna þeim myndir og myndbönd. Við munum einnig halda fast í gamlar hefðir, eins og að fá okkur Oreo-bragðaref 30. maí ár hvert í Ísbúð Vesturbæjar, daginn fyrir afmælisdag Alexanders, þér til heiðurs (þótt sú minning kunni að vera pínu súrsæt).

Ég ætla að enda þetta á því að segja takk enn og aftur fyrir allt. Takk fyrir Alexander, takk fyrir að vera frábær mamma, takk fyrir vinskapinn, takk fyrir að vera frábær „mamma 2“, takk fyrir ótrúlega þrautseigju þína í baráttunni við krabbameinið, takk fyrir að vera frábær og einstök manneskja, takk fyrir að vera þú.

Þinn barnsfaðir, fyrrverandi og vinur,

Ingvi Örn Ingvason.

Í dag kveð ég yndislega systurdóttur mína Agnesi Helgu Maríu Ferro. Þrautseigja þín, lífskraftur, húmor og barátta hafa verið vopn þín síðustu átta árin og þú ætlaðir sko ekki að gefast upp. Þú lifðir fyrir Alexander þinn sem þú eignaðist ung og var augasteinn þinn og þráðir ekkert meira en að fá að sjá hann vaxa úr grasi. Þessir síðustu dagar á spítalanum sem ég fékk að njóta með þér talandi um heima og geima muna lifa í hjarta mínu að eilífu. Við ræddum meðal annars afmælið mitt sem er á næsta leiti sem þú varst sko að fara að mæta í enda með þeim fyrstu til að skrá þig í afmælið og vissir fátt skemmtilegra en fagna með fjölskyldunni og góðum vinum.

Ég man það svo vel þegar þú fæddist á Ítalíu 1988, ég þá 14 ára gömul. Jóhanna systir sendi mér bréf og myndir svo að ég gæti fylgst með þér dafna og þroskast. Ég man hvað ég var alltaf spennt að fá bréfin og myndirnar. Ég prjónaði teppi og saumaði föt á þig sem ég sendi út. Ég var svo ótrúlega stolt stóra frænka og þú skírð Agnes í höfuðið á mér. Þú varst einstaklega fallegt og gott barn með ljósu krullurnar og bláu augun og skarst þig úr innan um alla Ítalina. Það var ekki sjaldan sem einhver kom og vildi koma við hárið þitt, „bellissima“ heyrðist þá. Ég var svo heppin að fá að koma í heimsókn til ykkar á Ítalíu og þá yfirleitt með vinkonu með mér og naut þess þá að leika við þig og fara á ströndina og vera í sólinni sem þú elskaðir svo alla tíð alveg eins og frænka.

Mér fannst alltaf að ég ætti smá í þér, ekki bara nafnið heldur vorum við á margan hátt líkar í okkur þótt við værum ólíkar í útliti. Þú svona ljós og ég svona dökk en samt skildi ég þig svo vel.

Elsku frænkugullið mitt, maður skilur samt ekki alltaf ósanngirni lífsins en það er alveg á hreinu að það hefur verið vel tekið á móti þér. Mamma hefur verið búin að að baka eitthvað gott, pabbi hefur verið með stóra faðmlagið sitt og Helgi bróðir með fallega brosið sitt. Nú eruð þið öll saman í sumarlandinu fallega og passið upp á hvert annað og haldið áfram að passa upp á okkur hin sem hér eru.

Þú munt alltaf eiga stórt pláss í mínu hjarta. Ég enda þetta á þessu fallega ljóði sem mér finnst passa svo vel.

Til þín ég hugsa,

staldra við.

Sendi ljós

og kveðju hlýja.

Bjartar minningar lifa

ævina á enda.

(Hulda Ólafsd.)

Elska þig, þín frænka

Ingibjörg Agnes.

Elsku fallega góða Agnes okkar. Nú kveðjum við þig í hinsta sinn. Það er hola í hjörtum okkar.

Við erum mjög heppnar að hafa fengið þig sem frænku okkar. Við munum alltaf hugsa hlýtt til allra frænkustundanna sem við áttum saman þó að við vildum að þær yrðu miklu fleiri. Það var alltaf mikið hlegið þegar við hittumst allar en líka oft grátið saman. Við munum halda áfram að hittast en það mun alltaf vanta þig. Við munum svo skýrt eftir því þegar við heimsóttum þig til Ítalíu og þegar þið sætu og fínu frænkurnar fluttuð til Íslands frá Ítalíu og það var strax gaman að leika við ykkur. Það hefur alltaf verið gaman.

Nú minnumst við þess þegar við fórum allar frænkurnar saman í sumarbústað til Ingibjargar og áttum svo yndislega stund þar. Þó þú hafir verið veik þar þá varstu alltaf svo fyndin og skemmtileg. Húmorinn var aldrei langt undan.

Við höfum aldrei litið á þig sem sjúkling, þetta var bara tímabil sem þú ætlaðir að sigrast á. Þú gerðir allt sem þú gast til að berjast fyrir lífi þínu og til þess að vera til staðar fyrir Alexander son þinn sem þér þótti óendanlega vænt um.

En lífið er stundum svo óskiljanlegt og ósanngjarnt. En við verðum að trúa því að þú sért í annarri vídd núna og að þú sért að sinna öðrum hlutverkum sem við skiljum ekki í þessum dauðlega heimi. Þar ertu í sól og sumri, frjáls frá líkamanum þínum sem var sífellt að bregðast þér síðustu átta árin.

Síðustu orð okkar til þín voru við sjáumst næsta laugardag. Einn laugardag munum við sjást aftur.

Elskum þig elsku Agnes okkar, hvíldu í friði.

Þínar frænkur,

Helga, Hulda og Harpa Finnsdætur.

Okkar yndislega Agnes lifir áfram meðal okkar allra sem kynntumst henni. Hún var einstaklega heilsteypt manneskja, bros hennar veitti ljós, hún vildi öllum vel og var sannur vinur. Að eiga allar góðu minningarnar er mikil huggun í þeirri djúpu sorg sem ríkir við fráfall hennar.

Elsku systir mín, Jóhanna Marín, gekk með Agnesi þegar við fjölskyldan komum til Ítalíu í brúðkaup Jóhönnu og Aurilio. Það var ógleymanleg ferð, mikið grín og gleði. Móðurástin fylgdi Agnesi allt hennar líf. Krabbinn tók stóran toll af lífi hennar síðustu átta árin. Barátta Agnesar fyrir lífinu var aðdáunarverð en um leið voru þær byrðar sem á hana voru lagðar langt út yfir allt sem hægt er að leggja á eina manneskju.

Alltaf var haldið í vonina um að krabbinn myndi hörfa og Agnes fengi sem frjáls ung kona að njóta lífsins á ný. Það er erfitt að sættast við þessi grimmu örlög, en þau minna okkur svo sannarlega á hversu dýrmætt lífið er og hversu mikilvægt það er að þakka fyrir og njóta hvers dags

Móðurást Agnesar til síns fallega sonar Alexanders var umvefjandi allt frá fæðingu hans. Hann hefur einnig notið einstakrar umhyggju föður og Díönnu „mömmu2“. Það var og er einstakt að upplifa hversu náið og fallegt samband þeirra hefur verið. Það verða vonandi einhverjir sem skrifa þá sögu öðrum til eftirbreytni.

Við heiðrum minningu Agnesar best með því að styðja Alexander sem allra best, rækta hugarfar Agnesar í góðvild og gleði. Njóta þess að eiga áfram margar fallegar gleðistundir saman. Minning Agnesar mun lifa með okkur um ókomna tíð.

Við Sigurborg mín erum því miður erlendis nú við jarðarför Agnesar, en sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og umvefjandi græðandi kærleika í sorginni.

Elsku Alexander, Jóhanna, Aurilio, systkini, ættingjar og vinir, finnum fyrir þakklæti fyrir fallega lífið hennar Agnesar. Allt það góða í vináttu og kærleika umvefji okkur öll, þannig breytist sorgin í fallegt ljós frá Agnesi sem lýsir okkur.

Trú, von og kærleikur ríki.

Þorvaldur Ingi Jónsson.

Elsku hjartans Agnesin mín, ég get ómögulega sett í orð væntumþykjuna sem ég ber í þinn garð. Við fyrstu kynni gekk okkur brösuglega en það voru ýmsar ástæður fyrir því, ástæður sem við vitum en höfðum síðan þroska til að takast á við og læra að kunna að meta hvor aðra og okkar hlutskipti í fjölskyldunni. Í dag get ég sagt að þú ert mín besta vinkona og fyrir það er ég óendanlega þakklát og ekki síst fyrir börnin okkar þrjú, Alexander, Gunnar Berg og Emmu Dögg sem við eigum öll saman. Við vorum ekki fimm í fjölskyldu, við vorum sex.

Ég man að ég sagði við Ingva að ég vildi leyfa þér að taka virkan þátt í lífi barnanna okkar, þú tókst þeim sem þínum eigin, hugsaðir svo vel um þau, elskaðir frá dýpstu hjartarótum og það var gagnkvæmt. Söknuður þeirra er mikill og reglulega segja þau við mig: Mamma, ég sakna svo Agnesar. Hvað getur maður sagt annað en já ég skil þig svo vel því ég sakna hennar líka svo mikið. En svo segja þau, en Agnes er alltaf í hjartanu okkar. Það er svo gott að þau geti fundið sína leið til að hafa þig alltaf hjá sér, hvert sem þau fara og meira að segja eru þau búin að finna skærustu stjörnuna á himninum og segja: Þarna er Agnes, þarna er Mamma 2.

Undanfarin átta ár voru erfið, óvissan, verkirnir, endalausar myndatökur, lyfjameðferðir, skurðaðgerðir, geislar, lyfjabrunnar, ný lyf, önnur lyf, blóðprufur, svitaköst, svefnlausar nætur og þreyta. Ég sagði það oft við þig að öðrum eins nagla hefði ég ekki kynnst, alltaf stóðstu upprétt aftur, áfall eftir áfall eftir áfall. Ég er bara ekkert svo viss um að nokkur manneskja hefði staðið jafn upprétt og þú gerðir en þessi upptalning er bara lítill hluti af öllu því sem þú og líkaminn þinn máttu þola en það var ekkert sem stöðvaði mína konu sem hafði einhvern óskiljanlegan kraft, elju, þrautseigju, lífsgleði, húmor, hlátur og fíflagang að vopni og síðast en ekki síst von.

Von um að lifa, von um að sigra þetta verkefni, von um að eignast stóra fjölskyldu, von um að fylgja Alexander í gegnum lífið, von um að verða gömul. Vonina má maður aldrei taka af fólki og þú hafðir hana alveg fram á síðasta andardrátt umvafin okkur öllum sem elskuðum þig og þú elskaðir með Alexander í hálsakoti.

Elsku hjartagull, mikið sem ég sakna þess að geta ekki tekið upp símann og hringt í þig og spjallað um allt og ekkert, komið í heimsókn, gert eitthvað skemmtilegt með börnunum, borðað saman kvöldmat, horft á sjónvarpið og bara haft þig ennþá hjá okkur.

Það er engin eins og þú, þú verður alltaf í hjartanu mínu um ókomna tíð. Ég mun halda minningunni þinni á lofti, tala um þig, hugsa um allar minningarnar sem við bjuggum til saman. Ég mun og ég lofa að passa upp á stóra strákinn þinn en ég mun aldrei koma í staðinn fyrir þig.

Núna ertu frjáls, frjáls eins og fuglinn.

Fljúgðu hátt svarthvíta hetjan mín. Við dönsum saman á ströndinni, með sandinn milli tánna, í heitu landi og volgum sjó þegar minn tími rennur upp.

Elska þig.

Þín vinkona,

Díana Íris.

Sorgin er mikil og skarðið er djúpt en þakklætið fyrir að hafa kynnst Agnesi umvefur okkur nú þegar við reynum að fanga með orðum hvað þessi magnaða vinkona þýddi fyrir okkur Mafíósurnar.

Nýr kafli hófst í lífum okkar fyrir rúmum átta árum þegar örlögin færðu okkur saman í endurhæfingu í Ljósinu. Allar erum við sammála um að við horfum á lífið fyrir og eftir greiningu. Fyrir og eftir Agnesi – hvernig er annað hægt þegar manneskja eins og hún hefur komið inn í líf þitt. Ljósið varð griðastaður okkar í baráttunni, staður þar sem við gátum fundið styrk, fræðslu og vináttu. En það var líka staður sem hvatti til sköpunar, og þar blómstraði Agnes. Hún hafði sérstakt lag á að tileinka sér allt sem fyrir okkur var lagt: leir, myndlist, fatasaum og við vitum að þegar við skrifum þetta þá situr hún eflaust og skellihlær yfir minningunum. Að okkar mati voru listaverkin hennar full af fegurð og styrk; þau báru með sér sálina hennar, þá hlýju og elsku sem einkenndi allt sem hún tók sér fyrir hendur.

Handverkið var þó aðeins ein hlið á Agnesi. Hún var líka ævintýrakona, kona sem lifði lífinu af ástríðu og gleði. Fyrir rúmum sjö árum ákváðum við vinkonurnar að við yrðum að skella okkur í ferðalag og að sjálfsögðu náði Agnes að sannfæra okkur að við yrðum að fara saman til Ítalíu. Í Róm, Napolí og Sorrento var hún ekki aðeins leiðsögumaður okkar heldur sál og hjarta hópsins. Við kölluðum hana „mömmu Ferro“ í þeirri ferð og allar götur síðan, því þótt hún væri yngst okkar allra var hún ótrúlega þroskuð, hugrökk og umhyggjusöm. Agnes kom með afar dýrmætan eiginleika í hópinn okkar og það er húmorinn. Við hlógum mikið saman, nutum lífsins og sköpuðum minningar sem við munum alltaf geyma.

Í gegnum árin héldum við áfram að vera til staðar hver fyrir aðra, í gleði og sorg. Agnes hafði einstakt lag á að finna orð sem veittu styrk, orð sem hvöttu okkur til að halda áfram þegar óttinn við endurgreiningu gerði vart við sig. Hún sjálf sýndi ótrúlega hetjudáð síðustu tvö árin, þegar hún stóð í sinni erfiðustu baráttu. Þrátt fyrir eigin þrautir hélt hún áfram að vera leiðarljós fyrir alla í kringum sig. Agnes var hrein og bein og sagði hlutina eins og þeir voru en án þess að móðga eða særa.

Agnes skilur eftir sig dýrmætan arf. Allar minningarnar og áhrifin sem hún hafði á þá sem þekktu hana. Hún skilur eftir sig son sinn, Alexander, sem við vitum að mun alast upp í umhverfi fullu af ást og stuðningi frá fjölskyldunni.

Agnes Helga María Ferro var einstök. Hún var brosmild, skapandi, klár og með hjarta sem var stærra en flest annað. Hún var mamma Ferro – gömul sál, vitur kona.

Vert þú breytingin sem þú vilt sjá í heiminum.

(Mahatma Ghandi)

Þannig lifði Agnes lífi sínu. Hún varð breytingin sem hún vildi sjá – hún breytti skuggum í ljós, kvíða í von og hversdagsleikanum í ógleymanleg ævintýri. Við söknum hennar óendanlega, en minning hennar mun lifa með okkur að eilífu.

Ásta Dís, Brynja Dögg, Guðrún Snæbjört,
Helga, Melkorka og
Sólveig Kolbrún.

Kveðja frá bekkjarsystkinum í hjúkrunarfræði.

Hópurinn sem ákvað að bæta við sig annarri háskólagráðu og hóf nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands haustið 2021 var lítill en þéttur. Agnes var hluti af þessum samhenta hóp og þótt hún hafi orðið að hætta námi vegna veikinda sinna eftir eitt ár þá hafði hún mikil áhrif á okkur öll og skilur eftir sig djúp spor í hjörtum okkar.

Agnes hafði einstaka útgeislun og bros hennar var breitt, bjart og smitandi. Hún var sannkallaður ljósberi, það var gott að vera nálægt Agnesi. Þegar veikindin tóku sig upp var ekki hægt annað en að dást að kjarki hennar, dugnaði og útsjónarsemi. Hún tókst á við sitt erfiða og þunga verkefni af svo ótrúlega miklum styrk og hugmyndaauðgi, eins og fatamarkaðurinn, sem hún setti upp heima hjá sér til að safna í ævintýrasjóð fyrir sig og son sinn, ber vott um.

Vonin er svo sterk og við trúðum því að hún kæmist í gegnum veikindin, annað kom ekki til greina, svona ung kona. Það var því áfall að heyra um fráfall hennar nú í byrjun nýs árs. Með sorg í hjarta kveðjum við kæra bekkjarsystur, hún verður alltaf hluti af hópnum okkar og ljós hennar mun lifa áfram í hjörtum okkar.

Hugur okkar er hjá Alexander syni hennar og fjölskyldu og við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

F.h. bekkjarsystkina úr HFFH,

Perla Björk Egilsdóttir.

Í dag kveð ég elsku Agnesi vinkonu mína með hlýjustu nærveruna og bjarta brosið. Það var árið 2018 sem ég kynntist Agnesi þegar ég kom í Ljósið út af mínum veikindum og hún stóð þarna með fallega brosið sitt og teygði út faðm sinn til mín. Hún hafði aldrei séð mig áður og vissi ekki nein deili á mér. Hún sá kvíðann í augunum á mér fyrir því verkefni sem ég var að fara að takast á við, nýgreind með brjóstakrabbamein. Það þurfti ekki meira til hjá Agnesi en hún sagði við mig „ég skal vera vinkona þín“. Síðan þá höfum við verið vinkonur og tókumst á við verkefnið sem fylgdi því að vera nýgreindar með krabbamein með bjartsýni, húmor og kærleik. Agnes hélt í höndina á mér alla mína meðferð, passaði að ég héldi áfram og það sem var mikilvægast hjá henni var hvernig ég ætlaði að nýta tímann minn sem best á meðan ég væri í meðferð. Hún sagði núna ferðu á öll námskeið og lærir hluti sem þú hefur ekki haft tíma fyrir áður. Auðvitað skráði ég mig á námskeið og var fastagestur í Ljósinu.

Það var aðdáunarvert hvernig Agnes tókst á við veikindi sín, hún sá alltaf það jákvæða í aðstæðunum. Þegar hún sagði mér frá endurgreiningu sinni, sem er mesti ótti allra sem hafa greinst með krabbamein, að þetta taki sig upp aftur, þá var hún hugrökk og tókst á við breyttar aðstæður með kærleika, æðruleysi og jákvæðni. Hún ætlaði að halda áfram að lifa og njóta lífsins. Fyrir hana skipti öllu máli að hún var ekki krabbameinið eins og við ræddum svo oft.

Stundir okkar Agnesar voru ótal margar en samt líka svo fáar þar sem slegið var á létta strengi og glaðst yfir lífinu. Alvara lífsins var rædd inni á milli, það skipti samt alltaf minnstu máli hjá henni því hún einbeitti sér alltaf að því jákvæða. Alltaf kvöddumst við með knúsi, einstakt hjartalag Agnesar smitaði frá sér til allra sem henni kynntust. Þrátt fyrir að vera mikið veik vildi hún verða hluti af því að koma Ellu Stínu, fyrirtækinu mínu, áfram inn á markaðinn, hún veigraði sér ekki við að keyra út vörur í hvaða veðri sem var og raða í hillur. Spyrja hvernig gengi og hvenær kæmi ný vara. Hún á stóran þátt í ævintýri Ellu Stínu og verð ég henni ævinlega þakklát fyrir að hafa peppað mig áfram, staðið vaktina með mér við að gera Ellu Stínu að fyrirtæki. Agnes var alltaf með þrátt fyrir veikindin og vildi vita nákvæmlega allt sem var í gangi hverju sinni. Þetta var Agnes, dugnaður hennar, einstök seigla og jákvæðni hennar gat flutt fjöll. Mikið á ég eftir að sakna Agnesar. Minningin mun lifa í hjartanu, ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, elsku vínkona.

Líf hennar og yndi var Alexander sonur hennar, þeirra tengsl og nærvera voru einstök. Mínar innilegustu samúðarkveðjur til þín, elsku Alexander, fjölskyldunnar allrar, vinkvenna og vina Agnesar. Megi góður guð styrkja alla í sorginni og ljósið sem þú varst mun lýsa áfram veginn.

Þangað til við hittumst á ný, elsku vinkona, kveð ég þig með orðunum sem þú sagðir við mig þegar við hittumst í fyrsta skipti. Ég skal vera vinkona þín.

Þín vinkona,

Elín (Ella).

hinsta kveðja

Hvíl í friði.

Ingvi Hrafn Jónsson og Ragnheiður Sara Hafsteinsdóttir.

fagra vanadís,

móðir, kona, meyja,

meðtak lof og prís.

Blessað sé þitt blíða

bros og gullið tár.

Þú ert lands og lýða

ljós í þúsund ár.

(Matthías Jochumsson)

Flugfreyjufélag Íslands færir fjölskyldu, vinum og samstarfsfélögum innilegar samúðarkveðjur.

Fljúgðu hátt, elsku Agnes.

Berglind Kristófersdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.

Gunnar Berg og Emma Dögg.