
Rætur LeiðtogaAuðar liggja 25 ár aftur í tímann þegar hópur kvenna fór í stjórnendaþjálfun á Mývatni í tengslum við verkefnið „AUÐUR í krafti kvenna“ sem stóð yfir á árunum 2000-2003. Þær konur tóku með sér þaðan dýrmætan lærdóm sem þær nýttu til að hreyfa við hlutunum í atvinnulífinu. Frá þeim tíma hefur hópurinn stækkað og nýjar konur bæst við, með það að markmiði að efla stöðu kvenna í forystuhlutverkum,“ segir Svanhildur Jónsdóttir formaður LeiðtogaAuðar en það er deild innan FKA sem er sérstaklega ætluð konum með yfirgripsmikla stjórnunarreynslu í einkageiranum og opinbera geiranum. Félagskonur í LeiðtogaAuði tilheyra forystusveit íslensks atvinnulífs, þar sem þær gegna eða hafa gegnt ábyrgðarstöðum og vilja vera öðrum konum hvatning, fyrirmynd og stuðningur í eflingu íslensks atvinnulífs.
Tengslanet og orðspor
Aðspurð hvernig það hafi styrkt hana að vera í FKA segir Svanhildur að félagið hafi gefið henni tækifæri á að efla tengslanetið og kynnast fjölbreyttum konum. Að finna fyrir hvatningu og jákvæðni frá öðrum konum. „Svo fæ ég líka tækifæri til að heyra af áskorunum og sigrum í fjölbreyttum atvinnugeirum, bæði til að læra af reynslu annarra og að fá innblástur. Það er ánægjulegt að sjá hvað konur eru komnar í margar áhrifastöður í samfélaginu og vona ég að það smitist enn frekar út í atvinnulífið og að hlutfall kvenna í til dæmis framkvæmdastjórnum hækki en það er rétt rúmlega 20% í dag. Yfirskrift þessa starfsárs hjá LeiðtogaAuðum er einmitt: Leiðin að stjórnarstólnum – þekking á óskrifuðum leikreglum skiptir máli. Verkefni ársins snýr að því að varpa ljósi á þær óformlegu reglur sem hafa áhrif á það hverjir komast inn í stjórnir fyrirtækja, þar á meðal tengslanet, orðspor og stuðningur lykilaðila. Þetta eru reglur sem oft eru ósýnilegar en skipta sköpum þegar kemur að því að fá sæti við borðið þar sem stefnumótandi ákvarðanir eru teknar.“
Vera virk og tengjast öðrum konum
Svanhildur hvetur konur til að ganga í FKA og segir að þær hafi engu að tapa en allt að vinna með því að prufa FKA. „Það er mjög fjölbreyttur hópur kvenna í FKA og hver og ein getur pottþétt tengt við einhverja. Það er gott að hugsa um það að það eru margar í sömu sporum, nýbyrjaðar í FKA, mögulega einar eða komnar til að tengjast fleirum,“ segir Svanhildur en tekur fram að það sé hins vegar undir hverri og einni komið að mæta, vera virk og tengjast. Þar liggi galdurinn. „Ég mæli með Mentor-prógramminu í FKA framtíð en sjálf tók ég þátt í því fyrir nokkrum árum. Enn þann dag í dag leita ég stundum til míns mentors. Og svo er ég núna sjálf mentor í verkefninu og fæ mikið út úr því.“