Fjártækni og þróun fjármálaþjónustu verður í brennidepli á viðburði sem haldinn verður í Norðurljósasal Hörpu fimmtudaginn 30. janúar. Viðburðurinn er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu (SFF) og Fjártækniklasans.
Heiðrún Jónsdóttir framkvæmdastjóri SFF telur að Ísland hafi alla burði til að verða miðstöð fjártækni á alþjóðavísu.
„Við erum fámenn þjóð en tæknivædd, sem gerir okkur kleift að þróa og prófa nýjar lausnir hratt. Nú þegar eru íslensk fjártæknifyrirtæki að hasla sér völl á erlendum mörkuðum og við sjáum mikla möguleika í að auka enn frekar samstarf og nýsköpun á þessu sviði,“ segir hún.
Ein af stóru breytingunum í tæknibyltingu fjármálageirans sem staðið hefur yfir undanfarin ár er að sögn Heiðrúnar aðgengi að fjármálaþjónustu á einum stað í gegnum opna bankaþjónustu (e. open banking). Aðspurð hvernig íslensk tækni standi í samanburði við erlenda þróun segir Heiðrún að íslensk nýsköpunarfyrirtæki séu mjög framarlega, sérstaklega í gervigreind og stafrænum lausnum. „Við höfum séð mikla þróun hér á landi, en það er lykilatriði að regluverkið fylgi eftir og styðji þessa þróun á réttan hátt,“ útskýrir hún. Heiðrún telur að sjálfvirknivæðing muni hafa mikil áhrif á störf í fjármálageiranum, líkt og í öðrum atvinnugreinum. „Við sjáum að mannfrekustu störfin eru smám saman að hverfa og tækni tekur við. Það hefur verið ákveðin þróun undanfarin ár, en það jákvæða er að viðskiptavinir fá betri yfirsýn og upplýsingar, sem gerir þeim auðveldara að taka upplýstar ákvarðanir,“ segir hún og bendir á að hreyfanleiki neytenda hafi mælst mestur á Íslandi í samanburði við önnur ríki í Evrópu. Evrópa hefur verið að taka stór skref í að tæknivæða fjármálakerfið, meðal annars í samkeppni við Bandaríkin og Asíu. „Evrópsku bankasamtökin hafa haft áhyggjur af því að önnur lönd séu að taka forskot í þessum málum og því er mikilvægt að við setjum skýrar reglur um persónuvernd og aðgengi að upplýsingum,“ segir Heiðrún. Heiðrún telur að næsta bylting í fjármálaþjónustu verði meiri samþætting gagna og opnun fjármálaupplýsinga á einum stað.