Daðey Steinunn Daðadóttir fæddist á Sjúkrahúsi Ísafjarðar, þann 3. júlí 1950. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 20. janúar 2025.

Daðey Steinunn var dóttir hjónanna Gerðar Sturlaugsdóttur frá Ísafirði, f. 1928, d. 2014, og Daða Steins Kristjánssonar frá Bolungarvík, f. 1920, d. 1982.

Systkini Daðeyjar eru Kristján Ingi, f. 1945, Sturlaugur Gunnar, f. 1946, Arnar, f. 1948, stúlka Daðadóttir, f. 1950, d. 1950, Valgeir, f. 1951, d. 2012, Rúnar, f. 1953, Guðlaug, f. 1957, Sigurborg, f. 1958, Þórunn, f. 1959. Samfeðra var Sumarliði Einar Daðason, f. 1973, d. 2020.

Fyrrverandi eiginmenn Daðeyjar voru Hreiðar V. Guðmundsson, f. 1943, d. 2023, og Birgir Tómasson, f. 1944.

Daðey eignaðist fimm börn: 1) Daði Hreiðarsson, f. 1967, d. 2009, fyrrv. eiginkona Esther Jóhanna Valgarðsdóttir, f. 1972. Synir þeirra eru Anton Örn Daðason, f. 1992, og Viktor Guðni Daðason, f. 1997. 2) Stúlka Daðeyjardóttir, f. 1972, d. 1972. 3) Gerður Hreiðarsdóttir, f. 1973, maki Sigurður Ingi Sigurðsson, f. 1975. Börn þeirra eru Daðey Steinunn Sigurðardóttir, f. 1994, Sóley María Sigurðardóttir, f. 2002, Birgir Sigur Sigurðsson, f. 2005, Sigurður Kristinn Sigurðsson, f. 2005. 4) Hanna Kristín Birgisdóttir, f. 1978, barnsfaðir Jesper Prehn, f. 1981. Dóttir þeirra er Irma Agnes Prehn, f. 2016. 5) Fjóla Björk Birgisdóttir, f. 1979, maki Bjarni Logi Sigurjónsson, f. 1974.

Daðey gekk í barnaskóla á Ísafirði, Kópavogsskóla, Héraðsskólann á Núpi og síðar Húsmæðraskólann á Staðarfelli.

Daðey vann ýmis störf utan heimilis á lífsleiðinni, hún starfaði meðal annars sem bréfberi, dagmamma og vann á leikskóla.

Útför Daðeyjar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 29. janúar 2025, klukkan 11.

Hvernig kveður maður mömmu sína?

Minningarnar og nærveran mun ávallt vera til staðar. En hvers er að minnast og hver var mamma okkar?

Mamma var félagsvera og vinamörg. Heimili okkar stóð ávallt öllum opið. Minningar um stanslausan gestagang, hvort sem um var að ræða nágranna, vini eða ættingja. Vinir okkar systra voru engin undantekning, alltaf velkomnir og stundum, talað um „félagsmiðstöðina“ í því samhengi. Alls staðar þar sem mamma dvaldi var hún fljót að mynda vinatengsl. Í veskinu hennar fundum við fallegt bréf. Þakkir fyrir að gera vist viðkomandi bærilegri á spítalanum. Það kom okkur ekkert á óvart. Mamma sogaði að sér fólk.

Sumrum eyddum við í bústaðnum með mömmu og eftir hana stendur heill skógur sem við munum ávallt tengja við hana. Henni leið vel þar og þar var engin undantekning þegar kom að gestagangi. Við vorum svo heppin að hafa ættmenni úr báðum fjölskyldum á svæðinu og þar var mikill samgangur.

Mamma var framtakssöm, með óbilandi kraft. Engar framkvæmdir voru of stórar. Ef hún fékk hugmynd var verkefnið sett í gang, hvort sem það var að flísaleggja, berja niður veggi eða tengja rafmagn. Hún lagði líka kapp á að skreyta heimilið, ekki bara fyrir jól, páskar voru engin undantekning. Þá þótti ekki nóg að setja upp seríu eða dúk á borðið. Heldur var gardínum skipt út og viðeigandi áklæði sett á stóla. Litagleðin átti sér engin mörk. Eflaust er mörgum í minni þegar hún málaði eldhúsinnréttinguna í öllum regnbogans litum. Sumum fannst það um of, en það var akkúrat mamma, ósmeyk við að fara sínar eigin leiðir. Mamma var handlagin, það lék allt í höndunum á henni hvort sem það var að hekla, prjóna eða sauma á okkur jólaföt fram á miðja nótt. Hún reyndi að kenna okkur að hekla en bara nafna hennar hafði þroska til þess að læra það.

Mamma var mikill húmoristi og hafði húmor fyrir sjálfri sér. Við töluðum oft um að hefðum við mætt henni og vinkonu hennar í Kringlunni hefðum við hugsanlega tekið stóran sveig fram hjá fíflalátunum í þeim. Það eru margar svo fyndnar sögur til af mömmu, sem hún sjálf gat hlegið að. Mamma var ekki bara amma barnabarna sinna heldur „Amman“ því eftir stendur stór hópur ungmenna sem kalla mömmu „ömmu“.

Mamma var fjörkálfur og leið vel í margmenni og elskaði ef hækkað var vel í tónlistinni og sungið með. Það tók því á að pakka hennar veraldlegu eigum á Sléttuveginum, sama dag og mamma ætlaði á þorrablót seinna um kvöldið. Hún hlakkaði til kvöldsins með pabba.

Lífið var samt ekki alltaf dans á rósum. Mamma þurfti tvisvar að ganga í gegnum það sem ekkert foreldri vill upplifa. Hún kvaddi tvö börn, dóttur, sem lést stuttu eftir fæðingu, og svo hann Daða sem lést eftir baráttu við krabbamein. Á milli Daða og mömmu voru órjúfanleg bönd. Hann var gulldrengurinn hennar og sorgin mikil þegar hann kvaddi þennan heim. Það er því huggun að nú munu þau liggja hlið við hlið og hafa nú tekið sinn fyrsta dans í sumarlandinu.

Við kveðjum þig í bili, nákvæmlega eins og þú varst vön að gera, „þúsund kossar“, elsku mamma.

Gerður, Hanna og Fjóla.

Elsku amma mín, vinkona og þriðja foreldri.

Mér fannst eins og þú myndir aldrei deyja, að þú myndir alltaf vera hérna og fylgja okkur í gegnum lífið. Að einhverju leyti er það rétt, þú lifir að eilífu í okkur, börnum, barnabörnum, systkinum og vinum. Munurinn er að núna gefum við hvert öðru þúsund kossa í stað þess að fá þá frá þér, við minnum hvert annað á að vera bjartsýn, brosum og hlæjum okkur í gegnum erfiða tíma, við sýnum kunningjum jafnt sem ókunnugum hlýju og kærleik, gefumst ekki upp þótt á móti blási, við finnum lausnir á öllu þó að sú lausn sé að líma allt upp á vegg með speglateipi eða kennaratyggjói, gleymum því ekki að við erum ekki tré og getum fært okkur, við stríðum og gerum grín að hvert öðru, síðast en ekki síst höldum við í húmorinn með báðum höndum, sama hvað.

Amma eignaðist vini hvert sem hún fór. Hvort sem það var á spítala eða úti í búð. Hún spjallaði við bílstjórana sem keyrðu hana um bæinn, vingaðist við húsvörðinn þar sem hún bjó og heilsaði meira að segja Steinda Jr. úti í búð eins og þau væru gamlir vinir.

Amma mín var ein hugmyndaríkasta manneskja sem ég þekkti og það var aldrei langt í lausnir. Hún reddaði sér alltaf. Ef hún vildi taka niður vegg, þá var bara náð í sleggjuna. Ef neyðarhnappurinn var ekki nógu flottur, þá reddaði hún sér fallegri keðju og setti hana í staðinn fyrir bandið sem fylgdi með honum. Ef hún vildi að byggður yrði sumarbústaður, þá var hann byggður og svo bara sótt um leyfi eftir á.

Amma lét ekki litla hluti eins og aldur stoppa sig í að lifa lífinu. Árið 2021 gaf ég henni frekar óhefðbundna afmælisgjöf. Ég gaf henni gjafabréf í tattú. Ég pantaði tíma og fór með henni á staðinn. Þegar við mættum komumst við því miður að því að tattústofan var á annarri hæð og engin lyfta á staðnum. Á þessum tíma notaði amma göngugrind og því engin leið að koma henni upp. Sem betur fer var starfsfólkið jafn úrræðagott og amma, þau redduðu þessu með því að búa til litla tattústofu undir stiganum í anddyrinu. Þar sat amma skælbrosandi í heila 4 klukkutíma á meðan draumur hennar um tattú varð að veruleika. Hún var virkilega ánægð með tattúið og sýndi öllum sem vildu.

Orðatiltækið „hjarta úr gulli“ átti vel við ömmu mína og ég held hreinlega að betri manneskja finnist hvergi. Hún var, meðal annars, skilningsrík, bjartsýn, tillitssöm, gjafmild, fyndin og hugrökk.

Amma talaði oft um það að hún hefði illa þolað nafnið sitt og þess vegna notaði hún Dúnu-nafnið í staðinn. Hún sagði mér að þegar mamma sagði henni hvað ég ætti að heita hefði henni ekki litist nógu vel á það. Það var ekki fyrr en ég kom í heiminn að henni fór að líka vel við, og jafnvel elska, nafnið sitt.

Amma söng vögguvísur fyrir okkur barnabörnin og var alltaf tilbúin að leika við okkur. Hún leyfði okkur að breyta og færa til allt heima hjá sér og var sama þó allt færi í rúst svo lengi sem það var gaman hjá okkur.

Amma mín var ofurhugi og stríðnispúki með ríkt hugmyndaflug og hjarta úr gulli.

Ó, hvað við munum sakna þín. Þúsund kossar, elsku amma.

Daðey Steinunn.

Dúnna er dáin og hætt að finna til í sálinni og líkamanum. Lífsglöð og hláturmild horfði hún björtum augum fram, hlakkaði til þorrans, næstu tónleika Úkúlella, leiksýninga, kaffihúsaferða o.fl. Dúnna gerði aldrei mannamun, talaði við alla og gladdist yfir öllu smáu sem stóru sama á hverju gekk í hennar eigin lífi, alltaf var viðmælandinn númer eitt, einstakur eiginleiki sem skilaði trúnaði og trausti. Hún var fordómalaus, hlustaði, ræddi málin og studdi á uppbyggilegan hátt, dæmdi engan.

Lífið fór ekki mjúkum höndum um Dúnnu, hún átti erfiða æsku og varð fyrir áfalli, hún tikkaði í öll boxin um áhrif sálrænna áfalla í æsku og afleiðingar á heilsu og líðan fólks síðar á ævinni. Rannsóknir hafa sýnt að sálræn áföll í æsku geta haft margvíslegar afleiðingar á heilsu og líðan fólks síðar á ævinni, svo sem langvinna verki á fullorðinsárum. Dúnna þjáðist af taugaverkjum nánast alla tíð, verkirnir hófust upp úr tvítugu, skurðaðgerðir vegna brjóskloss urðu um tugur. Listi sjúkdómsgreininga og meðhöndlana er langur og oftast var meðhöndun með góðum árangri en því miður gerast mistök. Ég held að Dúnna hafi haft verki dag hvern jafnt á sál sem líkama þó að hún hafi talaði ekki um það, hún var ekki fyrir að tala um sig.

Dúnna var mér stoð og stytta í uppvexti og á mótunarárunum, kom mér til hjálpar og í hendur fagfólks þegar mér leið hræðilega og þurfti að horfast í augu við samkynhneigð mína, bjargaði líklega lífi mínu, svo svart var lífið þá. Síðar þegar Dúnnu leið sem verst og hafði í raun gefist upp gat ég endurgoldið henni lífsgjöfina, hún sá þá allt svart, en ég var á réttum tíma og á réttum stað þannig að blaðinu var snúið við. Hún talaði oft um þetta við mig og við vorum báðar ánægðar með að hafa þurrkað út svarta litinn í lífi okkar, það eru svo margir fallegir litir í veröldinni. Fallegustu litirnir hennar Dúnnu voru börnin hennar og síðar barnabörn, hún átti trúnað þeirra og margra vina þeirra líka, enda uppskar hún eins og hún sáði. Dæturnar elska mömmu sína og hafa alla tíð borið hag hennar fyrir brjósti, unun hefur verið að sjá hvað þær hafa hugsað vel um hana. Frumburðurinn og sólargeislinn Daði varð að láta í minni pokann fyrir heilakrabbameini eftir nokkurra ára baráttu, það tók mikið á Dúnnu og hrakaði heilsu hennar hratt á þessum tíma, svo mikið að óvíst var hvort þeirra færi á undan.

Þrátt fyrir alla erfiðleikana í lífinu var Dúnna ein jákvæðasta og hláturmildasta manneskja sem ég þekki, hún var alltaf til í allt, hugdetta, já gerum það, kýlum á það og ef það voru hindranir fór hún einfaldlega framhjá þeim. Ég er þakklát fyrir tímann hennar hjá DAS við Sléttuveg þótt stuttur hafi verið, þarna leið henni vel og hún var í öruggri höfn, gantaðist jafnt við starfsfólk sem sambýlisfólk. Stutt vídeó sem tekið var örfáum dögum fyrir andlátið sýnir lífsglaða konu sem tilbúin var að njóta lífsins miklu lengur.

Ég votta dætrunum, Bigga, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð, að Möggu og Ingvari ógleymdum sem voru henni afar kær.

Sigurborg (Bogga)

Elsku Dúna mín. Nú er komið að leiðarlokum hjá þér og mér líður mjög illa. En það hefðir þú ekki viljað, það veit ég. Þú varst mér alltaf svo góð, þó að það væru bara sjö ár á milli okkar varst þú mér sem önnur mamma. Við áttum gott skap saman og gátum hlegið að mörgu og fíflast. Við kynntumst þegar ég var 16 ára unglingur og byrjuð með Jóni mínum. Þið deilduð saman bakveseni og þú fannst til þegar hann var slæmur, slík var tengingin.

Elsku Dúna mín, við hittumst aftur þegar minn tími kemur.

Ég á eftir að sakna þín óendanlega mikið.

Þín vinkona,

Margrét (Magga).