Austurberg Þórsarinn Madison Sutton gætir boltans vel en Lynn Peters úr Aþenu sækir að henni í viðureign liðanna í úrvalsdeildinni í gærkvöld.
Austurberg Þórsarinn Madison Sutton gætir boltans vel en Lynn Peters úr Aþenu sækir að henni í viðureign liðanna í úrvalsdeildinni í gærkvöld. — Morgunblaðið/Karítas
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurganga Þórs frá Akureyri í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik hélt áfram í gærkvöld þegar Akureyrarliðið vann botnlið Aþenu í Austurbergi í Reykjavík, 95:85. Þetta var tíundi sigur Þórs í röð í deildinni, og að auki hefur liðið unnið tvo…

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Sigurganga Þórs frá Akureyri í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik hélt áfram í gærkvöld þegar Akureyrarliðið vann botnlið Aþenu í Austurbergi í Reykjavík, 95:85.

Þetta var tíundi sigur Þórs í röð í deildinni, og að auki hefur liðið unnið tvo bikarleiki í millitíðinni, en sigurinn kom liðinu að hlið Hauka á toppnum. Haukar eru þó í efsta sæti á betri innbyrðis úrslitum og eiga til góða leik gegn Grindavík í kvöld.

Þór náði 17 stiga forystu seint í fyrri hálfleik og komst í 83:54 í lok þriðja leikhluta. Sigurinn var ekki í hættu eftir það en Aþena átti mjög góðan endasprett og kom forskoti Þórs niður í tíu stig áður en yfir lauk.

Amandine Toi skoraði 31 stig fyrir Þór, Madison Anne Sutton var með 20 stig og 17 fráköst og Emma Karólína Snæbjarnardóttir skoraði 15 stig.

Violet Morrow skoraði 27 stig fyrir Aþenu og Elektra Mjöll Kubrzeniecka 15.

Sigurkarfa frá Ástu

Ásta Júlía Grímsdóttir tryggði Val dýrmætan sigur gegn Stjörnunni í Garðabæ, 85:84, en hún skoraði sigurkörfuna í hörkuspennandi leik þegar enn voru 53 sekúndur eftir.

Leikurinn var hnífjafn allan tímann, Valur var yfir í hálfleik, 45:41, og á lokamínútunum skiptust liðin á um forystuna.

Alyssa Cerino skoraði 21 stig fyrir Val, Jiselle Thomas 17 og Anna Maria Kolyandrova 15 en Alyssa tók auk þess 12 fráköst.

Denia Davis-Stewart skoraði 23 stig fyrir Stjörnuna og tók 10 fráköst og Katarzyna Anna Trzeciak var með 17 stig og 11 fráköst.

Keflvíkingar stungu af

Á Sauðárkróki stungu Keflvíkingar lið Tindastóls af í þriðja leikhluta eftir að hafa verið með nauma forystu í hálfleik, 43:40. Lokatölur urðu 97:69 og Keflavík styrkti stöðu sína í þriðja sæti deildarinnar en Tindastóll er áfram í fimmta sæti sem gefur sæti í efri hlutanum að 18 umferðum loknum.

Jasmine Dickey skoraði 25 stig fyrir Keflavík og tók 17 fráköst, Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 13 stig og Bríet Sif Hinriksdóttir 11.

Oumoul Sarr Coulibaly skoraði 20 stig fyrir Tindastól, Edyta Ewa Falenzcyk skoraði 3 og Randi Brown 12.

Höf.: Víðir Sigurðsson