Nú er vika í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans, þá fyrstu frá 20. nóvember og þar með þá fyrstu í tíð þessarar ríkisstjórnar. Vextir voru í nóvember lækkaðir um 50 punkta og allar forsendur ættu að vera til áframhaldandi lækkunar, hafi Seðlabankinn áfram trú á að ríkisfjármálin séu ekki að fara úr böndum.
Fleira skiptir þó máli, meðal annars að þeir samningar sem eftir á að gera á vinnumarkaði verði innan þeirra marka sem lagt hefur verið upp með. Landsbankinn víkur að þessu í nýrri umfjöllun um efnahagsmál og segir: „Þótt kaupmáttur hafi lítið aukist á allra síðustu árum stuðlar aukinn stöðugleiki á vinnumarkaði að auknum verðstöðugleika sem ætti að óbreyttu að geta aukið kaupmátt til lengri tíma. Enn ríkir þó óvissa í tengslum við kjarabaráttu kennara og ekki útséð um frekari verkföll nú um næstu mánaðamót. Mikið er í húfi að samningar náist sem fyrst og að þeir raski ekki þeirri sátt sem hefur náðst á vinnumarkaði.“
Þá bendir bankinn á að minni launahækkanir í fyrra en síðustu árin stafi ekki aðeins af hófstilltari kjarasamningum heldur einnig af minni spennu á vinnumarkaði. Skýr merki séu um minnkandi eftirspurn eftir starfsfólki.
Furðulegt er við þessar aðstæður að verkföllum sé hótað og kröfurnar slíkar að ekki séu einu sinni taldar forsendur til að setjast niður og ræða samninga.