Ólafssaga Í þáttunum er fjallað um einkalíf, stjórnmálaferil og forsetatíð Ólafs, auk hlutverks hans sem formanns Hringborðs norðurslóða.
Ólafssaga Í þáttunum er fjallað um einkalíf, stjórnmálaferil og forsetatíð Ólafs, auk hlutverks hans sem formanns Hringborðs norðurslóða. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fyrst átti þetta að vera heimildarmynd um þau verkefni sem hann hefur tekið að sér eftir að hann hætti sem forseti. Fljótlega áttuðum við okkur á því að þetta var það umfangsmikið að heimildarmyndin varð að fjórum sjónvarpsþáttum

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

„Fyrst átti þetta að vera heimildarmynd um þau verkefni sem hann hefur tekið að sér eftir að hann hætti sem forseti. Fljótlega áttuðum við okkur á því að þetta var það umfangsmikið að heimildarmyndin varð að fjórum sjónvarpsþáttum. Við gerð þáttanna reyndum við að varpa ljósi á hver sé maðurinn,“ segir Skapti Örn Ólafsson, framleiðandi heimildarþátta um Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, sem sýndir verða á RÚV, væntanlega næsta vetur.

Saga Ólafs rifjuð upp

Skapti segir það gríðarlega spennandi verkefni og forréttindi að fjalla um Ólaf Ragnar með þessum hætti.

„Þetta var á árinu 2018 eða 2019 að Einar Þorsteinsson kom að máli við mig og Eirík Inga Böðvarsson kvikmyndargerðarmann og spurði hvort við værum til í þetta með sér, en þá starfaði hann hjá RÚV. Einar hafði verið í sambandi við Ólaf eftir að hann lét af embætti 2016 og bauð okkur að koma í þetta verkefni með sér.“

Þættirnir eru ekki leiknir heldur er stuðst við myndir og ýmsar heimildir auk viðtala við samtíðarmenn Ólafs og hann sjálfan.

„Við stiklum á stóru um öll hans helstu mál. Þetta er saga um unga drenginn frá Þingeyri sem varð forseti, segjum frá námsárunum og tímabili hans sem sjónvarpsmaður. Stjórnmálaferlinum eru gerð góð skil svo og árunum 20 sem hann gegndi embætti sem forseti lýðveldisins. Þetta er ekki saga í línulegri dagskrá um ævi og störf heldur leyfum við okkur að flakka um tímann, nýtum margvíslegt fréttaefni og tökum viðtöl við samferðafólk hans. Svo reynum við komast að hvað drífur hann áfram í því sem hann fæst við á hverjum tíma.“

Meðal verkefna við þáttagerðina voru ferðalög til staða eins og til Kína, Abú Dabí, Indlands, Grænlands, London og Washington.

Gerð þáttanna lá niðri í kórónuveirufaraldrinum en eftir það hófust menn handa að nýju.

„Við erum búin að safna gríðarlegu magni af upplýsingum, gömlum ljósmyndum og fréttatengdu efni,“ segir Skapti.

Einar hætti fyrir pólitíkina

Hann segir að Einar Þorsteinsson hafi ekki komið að gerð þáttanna eftir að hann tók sæti í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Einar hefur ekki unnið að verkefninu eftir að hann byrjaði í pólitík en hann var vissulega upphafsmaður og drifkraftur þess sem fréttamaður á RÚV. Við hinir höldum ótrauðir áfram og erum á lokametrunum með að klára fjóra sjónvarpsþætti með gríðarlega spennandi efni,“ segir Skapti og heldur áfram: „Einar er í hlutverki spyrils í þáttunum og hann tók lokaviðtalið við Ólaf eftir að hann tók við sem borgarstjóri.“

RÚV hefur keypt sýningarréttinn á þáttunum.

Höf.: Óskar Bergsson