Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Mikil hækkun á kostnaði við kaup á rafmagni til garðyrkjustöðva á skömmum tíma, í sumum tilvikum um meira en 40%, íþyngir nú rekstri þeirra og kallað er eftir viðbrögðum stjórnvalda. „Rafmagnsreikningurinn hefur rokið upp á síðustu mánuðum og allar forsendur í okkar starfsemi hafa gjörbreyst. Eðlilega leitar aukinn kostnaður fljótt út í verðlagið og staða mikilvægrar matvælaframleiðslu veikist,“ segir Oddrún Ýr Sigurðardóttir, garðyrkjubóndi í Hrunamannahreppi. Hún reifaði stöðuna í bréfi sem sent var forsætis- og orkuráðherrum fyrir helgi, auk þess sem það var birt á félagsmiðlum.
Oddrún Ýr og Þorleifur Þorri Ingvarsson keyptu í júní á síðasta ári garðyrkjubýlið Reykás í Hrunamannahreppi, skammt frá Flúðum. Í Reykási eru alls um 5.000 fermetrar undir gleri í gróðurhúsum þar sem ræktaðar eru gúrkur, tómatar og kál. Stórir lampar eru í húsunum svo að ræktunin hafi yl og birtu og framleiðslan sé í jafnvægi yfir árið. Orkunotkunin í Reykási er 512.000 kWst á mánuði, en til samanburðar má nefna að venjulegt heimili notar um 380 kWst. mánaðarlega.
Rafmagnsverðið var hækkað strax og einhliða
„Við kaupin á garðyrkjustöðinni töldum við okkur hafa góð orð og vissu fyrir því að fá rafmagn á sama taxta og fyrirrennari okkar hafði. Þetta gekk ekki eftir. Strax fyrsti reikningurinn sem við fengum, það er fyrir júní, var 5 milljónir króna sem var miklu meira en við bjuggumst við. Síðasti reikningurinn var liðlega 10 milljónir,“ segja Oddrún og Þorleifur og halda áfram:
„Kjarninn í þessu er að HS Orka hækkaði verð til okkar einhliða og án fyrirvara um um 25%. Síðan þá hafa önnur 5% bæst við nú nýlega og það er á fleiri í garðyrkjunni. Þá hefur flutningsgjaldið sem við greiðum Rarik hækkað um 12%. Samanlagt er þetta á rúmlega hálfu ári 42% hækkun á langstærsta kostnaðarliðnum í rekstrinum. Þessu er erfitt að standa undir, þegar við bætist svo að margir aðrir póstar í starfseminni, svo sem laun og rekstrarvörur, eru líka á uppleið.“
Oddrún segir að þessi þrönga staða garðyrkjunnar nú hafi verið ljós um nokkurn tíma og frambjóðendur í kosningum til Alþingis í nóvember síðastliðnum hafi gefið málinu gaum. Sú athygli hafi þó fljótt fjarað út. Því reifaði hún málið nú í erindi sínu til ráðherra og væntir atbeina þeirra.
„Þessi þróun hefur þegar haft veruleg áhrif á rekstur okkar og líklega annarra garðyrkjubænda,“ segir Oddrún í bréfi sínu. Spyr þar hvort raunveruleg stefna stjórnvalda sé að gera íslenskt grænmeti óaðgengilegra fyrir almenning og þar með grafa undan sjálfbærni og fæðuöryggi landsins.
„Á sama tíma bitnar þessi þróun á nýliðum í greininni og gerir kynslóðaskipti flóknari. Rekstrargrundvöllur fyrir nýja garðyrkjubændur er ótryggur og margir myndu forðast slíkar fjárfestingar við núverandi aðstæður. Ef ekkert er gert gæti það haft langtímaáhrif á íslenska matvælaframleiðslu, þar sem færri vilja taka við keflinu í greininni. Við óskum eftir upplýsingum um hvort og hvenær stjórnvöld hyggjast taka þetta mál fyrir, hvaða úrræði gætu verið til skoðunar til að verja íslenska garðyrkju fyrir þessum hækkunum,“ segir í bréfinu.
Eins og nú háttar segir Oddrún Ýr mikilvægt að hamra járnið; krefjast svara og aðgerða.
„Hækkun á rafmagnsverði nú er væntanlega að einhverju leyti komin til vegna þess að á Íslandi vantar meiri orku. Samt má ekki virkja og víða er andstaða gegn slíku. Að vera í nafni umhverfisverndar á móti aukinni framleiðslu á rafmagni sem nýst gæti meðal annars til sjálfbærrar matvælaframleiðslu er mótsögn. Orkukostnaðurinn fyrir framleiðslu okkar nú er sligandi. Því viljum við að stjórnvöld stígi inn, jafnhliða því sem við hér í Reykási könnum hvort ekki borgi sig að setja upp vindmyllur eða sólarskerma; sem væri sjálfbær orkuöflun fyrir starfsemina hér,“ segja Oddrún og Þorleifur að síðustu.
Samkeppnisstaða versni
Í Hrunamannahreppi er garðyrkja undirstaða í atvinnulífi. Miklar hækkanir á raforkuverði voru til umfjöllunar í sveitarstjórn þar á dögunum. Þar segir að hinar miklu hækkanir sem nú eru komnar til framkvæmda séu eitthvað sem garðyrkjubændur geti ekki borið án þess að hækka afurðaverð sitt til neytenda. Slíkt geti svo aftur orðið til þess að samkeppnisstaða versni.
„Það er með öllu ólíðandi að ráðist skuli með þessum hætti að grunnforsendum mikilvægrar matvælaframleiðslu í landinu,“ segir sveitarstjórn sem hefur lagt til að fyrirkomulagi sölu á rafmagni verði breytt.