Umboðsmaður Alþingis (UA) finnur að málsmeðferð og framgöngu ríkisskattstjóra (RSK) í kærumálum þar sem embættið hefur synjað beiðni um endurupptöku máls. Mælist umboðsmaður til þess í sérstöku áliti að ríkisskattstjóri taki mið af tilteknum sjónarmiðum við meðferð beiðna um endurupptöku máls og hugi að hlutverki sínu sem lægra sett stjórnvald þegar um kærumál er að ræða.
Er umboðsmaður ósammála þeirri afstöðu ríkisskattstjóra að synjun um endurupptöku máls feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun og því sé ekki fyrir hendi réttur til að kæra til yfirskattanefndar. Umboðsmaður segir slíka synjun þvert á móti vera stjórnvaldsákvörðun og þar með sé sú ákvörðun kæranleg.
Leiðbeiningar ekki í samræmi við stjórnsýslulög
Jafnframt hafi leiðbeiningar ríkisskattstjóra um rétt til að fá ákvarðanir endurskoðaðar ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög. Stjórnvaldi sem synjar eða vísar frá beiðni um endurupptöku beri að leiðbeina aðila máls um rétt sinn til að fá mál endurupptekið, að því er fram kemur í áliti umboðsmanns.
Ónefnt byggingarfélag leitaði árið 2021 til umboðsmanns eftir að yfirskattanefnd hafði hafnað kröfu um að ákvörðun ríkisskattstjóra um synjun á endurgreiðslu virðisaukaskatts yrði hnekkt. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. „Aftur á móti vöktu málsmeðferð og framganga ríkisskattstjóra við ákvörðunartöku í málinu og síðar við meðferð þess fyrir yfirskattanefnd athygli umboðsmanns,“ segir í umfjölluninni.
Mælst var til að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir
Tók umboðsmaður því málsmeðferð ríkisskattstjóra til athugunar og gerir í álitinu einnig athugasemdir við framsetningu og efni umsagnar ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar og bendir á „að hlutverk ríkisskattstjóra við meðferð slíkra mála væri að veita umsögn, upplýsingar og skýringar til að stuðla að því að mál yrðu til lykta leidd í samræmi við lög en ekki að koma í veg fyrir að mál fengju efnislega skoðun. Var mælst til þess að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að þetta yrði framvegis í samræmi við lög.“ omfr@mbl.is