Í síðustu viku mátti sjá í viðtali hér í blaðinu hvernig hið elskulega friðarríki Svíþjóð hefur smám saman orðið fórnarlamb glæpagengja, þannig að með nokkrum ólíkindum hlýtur að vera. Þá var meðal annars haft eftir viðmælandanum: „Manndrápum með skotvopnum hefur fjölgað margfalt hérna í Svíþjóð síðustu ár.“ Sömuleiðis að tölfræðin sýndi, að fyrir áratug hefðu um átta manns verið skotnir til bana þar í landi, en árið 2022 hefði sú tala verið 63! Væri sú tala borin saman við slíkar í nágrannaríkjunum Danmörku, Finnlandi og Noregi til samans hefðu í þeim löndum „aðeins“ tíu manns látist í kjölfar skotárása.
Viðmælandi blaðsins var Diamant Salihu, sem er sagður vera einn helsti sérfræðingur sænska ríkisútvarpsins SVT um þessa ofbeldis- og glæpaöldu, sem sænska þjóðin er sögð hafa mátt sæta misserum saman. Nefnt er að fyrrnefndur heimildarmaður, Salihu, hafi fengið fjölda verðlauna fyrir blaðamennsku. Sagt er frá því að eftir hann liggi að auki tvær bækur um þá styrjöld, sem nú ríki í sænskum undirheimum, sú fyrri „Uns allir deyja“, sem kom út árið 2021, og hin „Þegar enginn hlustar“.
Blaðamaðurinn frá sænska ríkisútvarpinu var spurður: „Nú þarftu að segja mér örlítið frá þessari ofbeldisbylgju sem þið hafið glímt við í Svíþjóð og er nánast eins og styrjöld. Hvernig byrjaði þetta og hvernig stendur á því að sænska lögreglan missti tökin á ástandinu?“ Þetta er ólíkt því sem horft er á til að mynda í Noregi. Salihu svaraði að Svíum hefði „mistekist algjörlega að stöðva þetta, þennan ofbeldisspíral og ófremdarástand“, sem magnaðist með hverju ári sem liði og kvæði nú svo rammt að, að sænskir fjölmiðlar hefðu greint frá því nýverið að almenningur þar í landi flykktist á skyndihjálparnámskeið til að læra að stöðva blæðingar eftir skot- og stungusár. Og heimildarmaðurinn bætti við: „Óleyst sakamál í og umhverfis stóru borgirnar, Stokkhólm, Gautaborg og Malmö, hafa hrannast upp og ekki bætti úr skák þegar skipulagi sænsku lögreglunnar var breytt á þann veg að lögreglumenn, sem höfðu staðbundna þekkingu á afbrotamálum á sínum svæðum, voru færðir til með þeim afleiðingum að þessi þekking á staðnum hvarf að mestu.“
Hann sagði að glæpagengin hefðu haft næg tækifæri til að byggja sig upp og eins þyrfti að líta til aðgreiningar innflytjenda í samfélaginu í Svíþjóð.
En hin alvarlegu umhugsunarefni eru ekki aðeins á fyrrnefndum stöðum. Á Íslandi þarf nú orðið að gera hreint fyrir dyrum.