Danmörk Krafa um dönskukunnáttu erlendra hjúkrunarfræðinga var felld niður í Danmörku 2023 og hefur það ekki komið vel út skv. nýrri skýrslu.
Danmörk Krafa um dönskukunnáttu erlendra hjúkrunarfræðinga var felld niður í Danmörku 2023 og hefur það ekki komið vel út skv. nýrri skýrslu. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við höfum sagt það og bentum fyrrverandi heilbrigðisráðherra á að erlendum hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað mjög mikið hér á landi,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Við höfum sagt það og bentum fyrrverandi heilbrigðisráðherra á að erlendum hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað mjög mikið hér á landi,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Mikill meirihluti erlendra hjúkrunarfræðinga á Íslandi kemur frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, aðallega Filippseyjum. „Hjúkrunarnámið á Filippseyjum uppfyllir þessa Evrópustaðla sem þarf að uppfylla til að fá leyfi hér á landi og námið er sambærilegt við okkar nám hérlendis,“ segir Guðbjörg.

Hún bendir á að ef hjúkrunarfræðingar, sem koma frá landi þar sem námið uppfyllir ekki þessa reglugerð, vilja sækja um leyfi hér þurfi þeir að bæta við sig því sem upp á vantar til að fá útgefið starfsleyfi.

Skila sér ekki til starfa

„Við höfum líka séð að á tímabilinu 2019-2023 kom í ljós að 25% leyfa sem veitt voru hjá embætti landlæknis voru veitt til erlendra hjúkrunarfræðinga. Þegar við skoðum sama tímabil hjá okkur í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga er tæplega þriðjungur allra hjúkrunarfræðinga sem hefja störf hér á landi af erlendu þjóðerni, sem er hærra hlutfall en hjá embætti landlæknis.

Þetta bendir til þess, sem við hjá félaginu höfum lengi bent á, að hjúkrunarfræðingar sem útskrifast úr háskólum hérlendis skila sér ekki allir til hjúkrunarstarfa á landinu. Við höfum bent á erfiðar starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga, kjör hjúkrunarfræðinga og álag í starfi sem ástæðu þess. Við sjáum það þegar við berum saman útskriftartölur háskólanna við félagatal okkar, sem endurspeglar starfandi hjúkrunarfræðinga, að fimm árum síðar eru 20-25% íslenskra hjúkrunarfræðinga hætt störfum. Það er mjög hátt hlutfall.“

Anna ekki eftirspurn

Guðbjörg segir að það sé alveg ljóst að við náum ekki að mennta nægilega marga hjúkrunarfræðinga til að anna eftirspurninni hérlendis og því sé það kostur að hægt sé að fá vel menntaða erlenda hjúkrunarfræðinga. Hins vegar sé að mörgu að huga í því sambandi.

Tungumálið er lykilatriði

„Við verðum að vera með kröfu um íslenskukunnáttu, sem er ekki gert í dag, og það þarf að stórbæta aðlögun erlendra hjúkrunarfræðinga, hafa heildrænt móttökuferli sem felur m.a. í sér hvernig heilbrigðiskerfið og menningin hér á landi er,“ segir Guðbjörg og bætir við að í Danmörku hafi krafan um dönskukunnáttu hjúkrunarfræðinga verið felld niður í júní 2023, og það hafi reynst afar illa.

„Danir eru búnir að brenna sig á þessu, og í skýrslu sem kom út núna í haust kemur fram að hlutfall hjúkrunarfræðinga sem fá neikvætt mat á dönskukunnáttu hefur fjórfaldast á þessu tímabili og alvarlegum atvikum vegna tungumálaerfiðleika hefur fjölgað mikið þar sem öryggi sjúklinga var ógnað,“ segir hún.

„Við þurfum að gera kröfu um íslenskukunnáttu því að skortur á henni ógnar hreinlega öryggi sjúklinga. Þessu þurfa íslensk yfirvöld að breyta.“

Tölurnar

Mikil fjölgun frá 2020

Mikil fjölgun hefur orðið á hjúkrunarfræðingum hér á landi sem koma frá löndum utan EES-svæðisins frá árinu 2020. Þetta kemur fram á mælaborði embættis landlæknis. Fram að 2020 voru erlendir hjúkrunarfræðingar þaðan fáir. Enginn var skráður frá árinu 1982-2004, einn árið 2004, 2007 og 2008. Árið 2015 voru þrír skráðir en frá 2004-2019 voru 16 erlendir hjúkrunarfræðingar skráðir, þar af 13 konur og 3 karlar.

Árið 2020 varð síðan kúvending en þá voru 53 erlendir hjúkrunarfræðingar skráðir, þar af 36 konur og 17 karlar. Árið 2021 var fjöldinn 48, þar af 34 konur og 14 karlar. Árið 2022 var fjöldinn 21, 17 konur og 4 karlar. 2023 var fjöldinn 55, þar af 39 konur og 16 karlar, og í fyrra var fjöldinn 80, 57 konur og 23 karlar.

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir