Það vakti nokkra athygli þegar Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV mismælti sig í kvöldfréttum með því að segja að kettir gætu ekki „stytt sér aldur“ með því að baka súrdeigsbrauð eins og mannfólkið – og mun hafa átt við að þeir gætu ekki stytt sér stundir

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Það vakti nokkra athygli þegar Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóri RÚV mismælti sig í kvöldfréttum með því að segja að kettir gætu ekki „stytt sér aldur“ með því að baka súrdeigsbrauð eins og mannfólkið – og mun hafa átt við að þeir gætu ekki stytt sér stundir. Þetta fór ekki fram hjá Jóni Jens Kristjánssyni:

Þegar að sækja þrautir að

þá er að bíða og vaka

sumir leggja í súrdeigsbrauð

hjá sumum verður það kaka

en nú hafa kettir níu líf

svo nógu er af að taka

enda geta þeir ekki stytt

sér aldur með því að baka.

Emil Örn Kristjánsson er á ferðalagi:

Sækir að mér sorg og blús

sé ég allan lífs míns veginn.

Sit að drykkj' í Santa Cruz,

sötra volgan bjór úr krús.

Veit ei sjálfur hvað mín bíður hinum megin.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir veltir sömu spurningu fyrir sér:

Að sætum drykk ég sit í kvöld

sífrar úti golan köld

svo hitanum hér inni er ég fegin.

Hemar úti hélurós

hringsnúast þar norðurljós.

Ég efa það sé eitthvað hinumegin.

Pétur Stefánsson er fljúgandi hagmæltur:

Mín er sálin frjáls og frí

fjarri dagsins þrasi.

Ég er sandkorn aðeins í

ævi stundarglasi.

Hallmundur Kristinsson ljóstrar því upp hvernig vísa verður til:

Að yrkja er stundum erfitt tog.

Oftast mér þykir gaman:

Byrja að gera botninn og

bæta svo við fyrir framan.

Að síðustu orti Jakob Jónsson á Varmalæk um heimsókn sem honum leiddist:

Leitt er mjög, en samt er satt

að sumir geta bara

vakið yndi og aðra glatt

er þeir kveðja og fara.