Nova er mögulega hressasta fyrirtæki landsins. Við þekkjum flest skemmtistaðinn, diskókúluna og dansgólfið sem einkenna fyrirtækið. Innri menning hefur frá fyrstu tíð verið undirstöðuatriði í rekstri Nova og starfsánægja mælist stöðugt mjög há hjá fyrirtækinu,“ segir Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova. „Nova-menningin er undirstaðan að árangrinum okkar en fyrirtækið varð nýverið efst í Íslensku ánægjuvoginni í sextánda skiptið í röð og hækkaði milli ára, sem hlýtur að teljast eftirtektarverður árangur.“
Það þekkja fá Nova jafn vel og Margrét enda hefur hún starfað þar frá stofnun og stýrt „skemmtistaðnum“ frá árinu 2018. Hún segir að gleðin sé einfaldlega lykillinn að árangrinum. „Það skiptir öllu máli að halda gleðinni en það er ekki eitthvað sem þú þvingar fram eða setur sem skilyrði. Gleðin verður til þegar við vinnum markvisst að henni, treystum hvert öðru og upplifum okkur öll á sama dansgólfinu.“
Besta liðið er eitt mikilvægasta markmiðið
Margrét segir að auðvitað veki það stolt að vera efst í ánægjuvoginni ár eftir ár en að það sé einfaldlega viðurkenning á því sem er kjarninn í vörumerki Nova. „Það er ekkert sjálfgefið við það að vera efst í ánægjuvoginni sextánda árið í röð og ég er meðvituð um það alla daga. Ég held samt að sá árangur sé fyrst og fremst viðurkenning á því hversu vel okkur hefur tekist að skapa magnaða liðsheild. Keppnisskapið, þjónustulundin og þetta árangursmiðaða hugarfar er allt afsprengi þess að starfsfólkinu líður vel hjá Nova og við erum frábærlega samstilltur hópur.“
Gleði er aðlaðandi og smitandi að mati Margrétar. „Þegar starfsfólkinu líður vel þá vill það gera vel. Fólki finnst gaman að eiga í viðskiptum við fólk sem er glatt, leggur sig virkilega fram og hleypir lífi í daginn þeirra. Þá verða viðskiptavinirnir ánægðir. Auðvitað er margt fleira mikilvægt sem kemur til, góður rekstur, virðið, vöruframboðið og hversu framarlega við erum í tækninni. En ég held að þú vinnir enga sigra ef þjónustan er ekki góð og gleðin hvergi sjáanleg.“
Eitt af stærstu markmiðunum hjá Nova hefur alltaf verið að byggja upp besta liðið. „Við erum ekkert að grínast með það. Við vinnum stöðugt að þessu alla daga og dansararnir okkar eru þar lykilatriði. Þetta er fólkið sem tekur á móti viðskiptavinum okkar, heldur kerfunum gangandi, að reksturinn sé í lagi og svo framvegis. Við leggjum mikinn metnað í það að skapa gleðina hjá fólkinu okkar og viðhalda henni. Þetta skiptir okkur alls ekki minna máli en til dæmis fjárhagslegar áætlanir.
Tónn og vörumerki Nova snýst auðvitað um gleði og góðan skammt af húmor, alls staðar og alla daga. Það skiptir þess vegna höfuðmáli að við séum með þá hluti algjörlega á lás. Ég held samt að þetta séu aðferðir sem eiga alls staðar við. Ef það er eitthvað sem við getum kennt öðrum fyrirtækjum þá er það þarna, vegna þess að þetta á við um öll viðskipti. Ef við erum ekki glöð og ef við erum ekki stolt þá vantar eitthvað. Stór hluti af því er að passa að öll í Nova-liðinu njóti sömu virðingar og að kúltúrinn í fyrirtækinu sé góður og heilbrigður.“
Jafnréttið undirstöðuatriði en hluti af miklu stærri sögu
Nova hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir innri menningu og jafnréttismál; jafnlaunavottun, Jafnvægisvog FKA, verið á lista VR yfir fyrirmyndarfyrirtæki um árabil og á lista yfir fyrirtæki ársins í flokki stórra fyrirtækja fjórum sinnum að sögn Margrétar. Jafnréttismálin skipti verulegu máli í því samhengi en þau eru jafnframt hluti af stærri sögu. „Við búum svo vel að eiga frábærar kvenfyrirmyndir hjá Nova og reyndar frábærar fyrirmyndir af öllum kynjum. Þrjú af fimm í framkvæmdastjórn eru konur og allir dansararnir okkar fá sömu laun fyrir jafnflókna dansa. Við gerum reglulega launagreiningar og kynnum þær fyrir fólkinu okkar.
Allt starfsfólk fær þjálfun í Nova-skólanum þegar það hefur störf, en við erum líka dugleg að halda sjálfum okkur utan við kassann. Við bjóðum starfsfólkinu okkar fræðslu, styðjum það í að mennta sig, hittumst reglulega og mótum framtíðina saman, miðlum þekkingunni okkar og dreifum gleðinni. Við pössum líka að fagna öllum sigrum og minnum stöðugt á hvernig við öll eigum þátt í þeim. Leikgleðin er í fyrirrúmi hjá okkur og við erum stöðugt að skora á okkur sjálf, markaðinn og tæknina.“
Menning fyrirtækisins nær inn að kjarna starfseminnar. „Þetta er líka bara í DNA-inu okkar eins og ég segi svo oft. Við viljum vera framúrskarandi alltaf, að við séum öll að róa í sömu átt, full af krafti og til í verkefnið. Við erum mjög metnaðarfull og ætlum okkur alltaf meira í dag en í gær. Risastór partur af því er virðing og traust, en ég hef alltaf reynt að forðast allt sem heitir valdastrúktúr í fyrirtækinu. Við höfum öll okkar rödd og vægi þótt við höfum ólík hlutverk, alveg eins og í íþróttum þar sem gott leikskipulag skiptir miklu máli – að hafa rétt fólk í réttum stöðum. Fólk á líka bara að fá pláss til að vera það sjálft og blómstra á sínum forsendum, þess vegna skiptir fjölbreytnin okkur gríðarlegu máli. Hefðbundna jafnréttið er stór partur af þessu en kyn á einfaldlega ekki að skipta neinu máli þegar við erum í vinnunni.
Sumt af þessu hefur svo smitast út í markaðsefnið okkar eins og til dæmis „Allir úr“-herferðin okkar sem snerist um líkamsvirðingu og höfum við unnið í því að afkynja málfarið hjá okkur en svo líka passað að afþreyingin okkar, tilboðin í appinu og viðburðirnir sem við stöndum fyrir séu alls konar vegna þess að viðskiptavinirnir okkar eru alls konar. Mantran okkar, „Stærsti skemmtistaður í heimi“ er þess vegna ekki slagorð, við viljum skapa gleðina hér innanhúss fyrst og svo miðla henni í kjölfarið út á við. Fríðindaklúbbur Nova, FyrirÞig, sem er einn sá stærsti á landinu snýst alltaf um að skapa gleði, að hvetja fólk til að fara út, upplifa eitthvað, njóta þess að vera saman og brjóta upp hversdagsleikann,“ segir Margrét.
Gleðin er viðskiptaplanið
Margrét segir að gleðin í menningunni í Nova og vörumerkin snúist þannig ekki um pepp eða markaðsbrellur heldur sé hún kjarninn í viðskiptastefnu félagsins. „Þetta er á endanum ekkert annað en viðskiptaplan sem virkar svo sannarlega. Þetta snýst um að skapa umhverfi þar sem starfsfólk fær tækifæri til að vaxa og dafna. Keppnisskapið og liðsheildin verður til með gleðinni og traustinu sem ríkir hjá okkur. Það kemur þá nánast af sjálfu sér þegar við upplifum okkur saman sem eina heild.
Ég hef svo sem ekki reynslu af því en ég get ekki ímyndað mér að þetta sé auðvelt öðruvísi en að keyra þetta áfram á gleðinni. Í mínum huga er þetta ekki flókið. Gleðin er smitandi, þannig löðum við til okkar besta fólkið, fólk ílengist hjá okkur og þannig helst reynslan og þekkingin í húsinu, fólkinu líður vel og er stöðugt til í áskoranirnar. Viðskiptavininir fá fyrir vikið betri þjónustu, eru ánægðir hjá okkur og árangurinn fylgir í kjölfarið,“ segir Margrét.