Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
Söngkonan Stína Ágústsdóttir gaf í fyrra út breiðskífuna Yours Unfaithfully sem tekin var upp í hljóðverinu Sundlauginni í september ári fyrr, 2023, og gefin út af Prophone/Naxos. Plötuna vann Stína m.a. með Mikael Mána gítarleikara og lagahöfundi, Alberti Finnbogasyni framleiðanda og Maïu Davies sem er margverðlaunaður lagahöfundur og framleiðandi. Blaðamaður setti sig í samband við Stínu og grennslaðist fyrir um plötuna sem í tilkynningu er sögð „yfirfull af uppreisnarþrá og einstökum hljóðheimi söngkonunnar“.
Kveðja til samfélagsins
Platan heitir Yours Unfaithfully, hver er sagan á bak við titilinn?
„Ég sá þessa kveðju í lista yfir fyndnar gen-z-kveðjur og fannst hún sniðug. Þegar ég var byrjuð á plötunni og komin áleiðis með innihald hennar og umfjöllunarefni fannst mér passa svo vel að nefna hana Yours Unfaithfully, sem eins konar kveðju til samfélagsins og þessara gilda sem ég fjalla um í lögunum,“ svarar Stína.
Í tilkynningu frá þér segir m.a. að á síðustu árum hafi orðið til „stöðuvatn tilfinninga, hugsana og gremju í brjósti tónlistarkonunnar Stínu Ágústsdóttur“ og að „tilætlunarsemi þjóðfélagsins sé meginástæða þessa, hvað það þýði að vera kona, móðir, eiginkona og að passa inn“. Þú hafir gert uppreisn innra með þér og fundið farveg í tónlistinni fyrir þessar tilfinningar. Geturðu sagt mér betur frá þessari innri uppreisn?
„Ég spegla sjálfa mig mikið í textunum og tala út frá minni reynslu sem móðir, dóttir, eiginkona og artisti. Það eru svo ofboðslega miklar kröfur settar á vinnandi mæður í dag. Við eigum að vera allt fyrir alla, sjá um þriðju vaktina og hafa áhyggjur fyrir allan peninginn. Ég hef ekki tekið almennilega þátt í þessu öllu og hef einfaldlega ekki passað inn á flestum stöðum í lífinu. Það er alltaf eitthvað „of“ fyrir einhvern. Sumum finnst ég hávær, ókurteis, holdleg, skrýtin eða ekki gera það sem ég á að gera. Ég hef lengi vel – í einhvers konar vonleysisflandri – verið að reyna að haga mér rétt en svo á seinni árum er ég bara hætt að hafa áhuga á því. Með þessari plötu fór ég í djúpa naflaskoðun og komst að mörgu og ákvað að segja bless við normal og vera bara skrýtin án samviskubits.
Mér hefur aldrei tekist að vera kúl og ég er bara búin að taka það í sátt. Ég áttaði mig líka á því bara fyrir skömmu að það var ekki mér að kenna að einhverjir áreittu mig í grunnskóla. Það er alveg ótrúlegt hvað skömmin er langlíf og heftandi. Mitt takmark er skammleysi og þessi plata er á góðri leið þangað.“
Risastór dreifingaraðili
Prophone/Naxos gefur plötuna út, hvaða fyrirtæki er það og hefurðu gefið út áður hjá því?
„Prophone er dótturfyrirtæki Naxos sem er risastór alþjóðlegur dreifingaraðili. Ég gaf síðustu plötuna mína, Drown to Die a Little, út þar og þau vildu endilega vinna áfram með mér og eru bara mjög liðleg með listræna stjórnun og slíkt svo ég ákvað að halda bara áfram í samstarfi með þeim. Ég og umboðsskrifstofan mín skoðuðum tilboð frá öðrum en fannst Prophone bara virka best fyrir mig.“
Þú vannst plötuna með einvalaliði, m.a. Mikael Mána, Alberti Finnbogasyni og Maïu Davies. Hvað geturðu sagt mér frekar um þetta fólk og samstarf þitt við það?
„Ég hef unnið lengi með Mikael Mána en fyrsta platan sem við unnum saman var The Whale sem við gerðum með Önnu Grétu árið 2020. Svo höfum við gert jólaplötu og Drown to Die a Little þar sem hann samdi megnið af lögunum með mér. Við eigum mjög auðvelt með að semja saman. Það er eiginlega alveg ótrúlegt hvað við skynjum hugmyndir hvort annars vel. Á Yours Unfaithfully á Mikael allnokkur lög með mér, m.a. „Glitterblood“ þar sem hann sendi mér demó sem smellpassaði við texta sem ég hafði þegar samið og sent honum. Hann sá aldrei póstinn frá mér og ég fékk eiginlega hálfgert sjokk þegar hann sagði að þetta væri ekki demó fyrir textann,“ segir Stína.
Maïa Davies er tónlistarkona frá Kanada sem Stína segir magnaða. „Ég kynntist henni í Montréal þegar ég bjó þar og var eiginlega smá svona „fan girl“ hljómsveitar hennar, Ladies of the canyon. Svo hafði hún seinna samband við mig og vildi gera eitthvað en þá var ég að vinna að plötu og hún var með í einu lagi á henni sem varð vinsælasta lag plötunnar, „Body“. Ég bað hana svo að vera með á þessari plötu og hún tók mig eiginlega í eins konar lagasmíðabúðir þar sem kafað var djúpt og flett ofan af bældum tilfinningum og búin til stefna og fleira. Maïa er margverðlaunaður pródúsent og lagahöfundur og frábær listakona,“ segir Stína.
Alþjóðleg bassastjarna
Albert Finnbogason hefur áður unnið með Stínu, komið að síðustu tveimur plötum hennar. „Ég fíla rosalega mikið af því sem hann hefur gert og við Mikael vorum með honum í allri framleiðslunni. Albert er ótrúlega þægilegur í samstarfi og hefur svo gott eyra fyrir minni tónlist. Hann er svo ofboðslega skapandi persóna og er alveg svakalega verðmæt viðbót við hljómsveitina í hljóðveri,“ segir Stína og bætir við að hljómsveitin sjálf sé „sturlað góð“. Magnús Jóhann Ragnarsson leiki á píanó og hljóðgervla, Magnús Trygvason Elíassen á trommur, Yrsa Schau syngi bakrödd og Henrik Linder leiki á bassa. Linder er alþjóðleg bassastjarna, eins og Stína lýsir því, og er í hljómsveitinni Dirty Loops. „Henrik spilar svo á litlum djassklúbbum með mér og er orðinn algjör Íslandsvinur sem borðar flatkökur með hangikjöti,“ segir Stína á léttum nótum.
Stína er að lokum spurð hvað sé fram undan hjá henni árið 2025. „Ég er að gefa út Burt Bacharach-djassplötu með bandinu mínu Alfie! á Valentínusardaginn og spila slatta í því samhengi. Ég er svo að halda marga tónleika í Svíþjóð í vor, m.a. í Gautaborg, á Gotlandi og í Stokkhólmi. Svo fer ég til Þýskalands í maí og verð „headliner“ á Nordischer Klang-hátíðinni. Fleiri tónleikaferðalög eru í bígerð og næsta plata er að gerjast í hausnum á mér.“