Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs er gestur í Dagmálum.
Gunnar Úlfarsson hagfræðingur Viðskiptaráðs er gestur í Dagmálum. — Morgunblaðið/Hallur Már
Viðskiptaráð Íslands lagði nýverið fram 60 hagræðingartillögur sem samanlagt skila 122 milljarða króna árlegri hagræðingu í rekstri ríkissjóðs. Í viðskiptahluta Dagmála er rætt við Gunnar Úlfarsson hagfræðing Viðskiptaráðs

Viðskiptaráð Íslands lagði nýverið fram 60 hagræðingartillögur sem samanlagt skila 122 milljarða króna árlegri hagræðingu í rekstri ríkissjóðs. Í viðskiptahluta Dagmála er rætt við Gunnar Úlfarsson hagfræðing Viðskiptaráðs.

Tillögurnar ná yfir breitt svið en stærsti hluti þeirra snýr að eignasölu, breytingum á starfsmannahaldi og niðurlagningu verkefna sem ríkið sinnir í dag en eru óþörf að mati ráðsins. Þá leggur ráðið einnig til að ríkið dragi til baka þau útgjöld sem stofnað var til vegna aðkomu stjórnvalda að kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði, sameini og leggi niður stofnanir til að minnka yfirbyggingu og dragi úr umsvifum verkefna á nokkrum afmörkuðum sviðum. Að mati Viðskiptaráðs eru því margar leiðir færar til að hagræða í rekstri ríkisins með varanlegum hætti.

Auk þess að leggja til tölusettar hagræðingartillögur hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld til að beina einnig sjónum sínum að grunnkerfum hins opinbera, þ.e. heilbrigðis-, mennta- og almannatryggingakerfunum, en meirihluti opinberra útgjalda rennur þangað.

Gunnar segir að endurskoðun á þessum kerfum sé lykilatriði til að bæta nýtingu opinbers fjár og draga úr sóun, en á sama tíma þurfi að huga að gæðum þjónustunnar.

„Við þurfum að gera betur þegar kemur að hagkvæmni og árangri grunnkerfanna. Við hvetjum stjórnvöld til að auka þar samkeppni og virkja betur krafta einkaframtaksins auk þess að mæla árangur þessara kerfa með markvissari hætti,“ segir Gunnar.

Boltinn hjá stjórnvöldum

Ein af tillögum Viðskiptaráðs er að innleitt sé virkt endurmat á starfsgetu einstaklinga á örorku. Gunnar útskýrir að tíðni örorku sé há á Íslandi, sérstaklega meðal ungs fólks, og að virkt endurmat á starfsgetu sé lykilatriði til að snúa þessari þróun við. Í stað þess að horfa til veikleika verði með starfsgetumati horft til styrkleika hvers og eins og stutt við einstaklinga sem vilja stíga inn á vinnumarkað.

Aðspurður hvort hann telji líklegt að tillögurnar verði að veruleika segist Gunnar vera bjartsýnn. Vinna ríkisstjórnarinnar sé enn á fyrstu metrunum en mikilvægt skref hafi verið tekið með því að varpa ljósi á þau hagræðingartækifæri sem eru til staðar. Hann fagnar framtakinu og bindur vonir við að starfshópurinn sem fer yfir tillögurnar gefi hugmyndum ráðsins góðan gaum.

„Boltinn er núna hjá stjórnvöldum. Við höfum skilað inn okkar umsögn og vonum að sem flestar af tillögum okkar verði að veruleika. Nú skiptir lykilmáli að raunverulegar hagræðingaraðgerðir fylgi í kjölfar samráðsins,“ segir hann.