Ferming einkasonarins 1973.
Ferming einkasonarins 1973.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Magnús Guðmundsson, fyrrverandi sóknarprestur, fæddist í Reykjavík 29. janúar 1925 en hann lést 9. desember 2006. Foreldrar hans voru Guðmundur Magnússon, umsjónarmaður í danska sendiráðinu, og Helga Jónsdóttir húsmóðir. Hinn 6. mars 1954 kvæntist Magnús Áslaugu Sigurbjörnsdóttur hjúkrunarfræðingi. Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Þorkelsson kaupmaður og Unnur Haraldsdóttir húsmóðir. Magnús og Áslaug eignuðust einn son, Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmann. Magnús útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík 1945. Hann stundaði nám í uppeldisfræði, heimspeki og grísku við Uppsalaháskóla 1945-46 en útskrifaðist sem guðfræðingur frá Háskóla Íslands 1950. Hann var sóknarprestur í Ögurþingum með aðsetur í Súðavík þar til honum var veitt Setbergsprestakall árið 1954, fyrst með aðsetur á Setbergi en síðar í Grundarfirði til 1974.

Afmælisdagur Magnúsar, 29. janúar, var alltaf sérlegur hátíðisdagur á Grundarfirði, þar sem séra Magnús starfaði lengst sem sóknarprestur, því sagt var að fyrst sæist til sólar á afmælisdegi prestsins. Þá hefði Áslaug enn fremur átt stórafmæli síðar á árinu, en hún var fædd 6. september 1930 og hefði því orðið 95 ára. Mig langaði að minnast föður míns stuttlega af þessu tilefni og þegar minnst er á pabba er mamma aldrei langt undan.

Þegar Magnús sótti um prestsembætti í Setbergsprestakalli hafði hann nýverið beðið lægri hlut í prestskosningu í Keflavík, eftir mikla kosningabaráttu, svo að hann sagðist ekki hafa ætlað að leggja mikið undir í kosningunum í Grundarfirði, einungis hefðbundna kynningu og heimsókn. Þegar hann svo var kosinn þakkaði hann það eiginkonu sinni, frú Áslaugu eins og Grundfirðingar kölluðu hana jafnan, því að Grundfirðinga vantaði sárlega hjúkrunarfræðing, þótt þeir hefðu e.t.v. ekki gert sér grein fyrir að þar fengju þeir líka m.a. organista og stjórnanda kirkjukórsins. Reyndar báru Grundfirðingar það mikla virðingu fyrir Áslaugu að hún var ávallt ávörpuð frú Áslaug og fer það vel því hún er skírð í höfuðið á annarri prestfrú, sem líka var jafnan kölluð frú Áslaug, en hún var eiginkona séra Bjarna Jónssonar, dómkirkjuprests, vígslubiskups og forsetaframbjóðanda.

Séra Bjarni gifti Áslaugu og Magnús þann 6. mars 1954, Áslaug þá 24 ára og Magnús 29 ára, og svo fóru þau að sinna köllun sinni, fyrst á Setbergi og síðar í Grundarfirði. Í þá daga var mikið og strangt ferðalag frá Reykjavík til Grundarfjarðar og þurfti m.a. að sæta sjávarföllum í Hraunsfirði þar sem þar var óbrúað. Ætli það hafi ekki þótt gott að komast úr Reykjavík til Grundarfjarðar á 6-8 klukkustundum. Ekkert rafmagn var á Setbergi og mikill músagangur og hefur móðir mín sagt mér frá því að hún hafi stundum sofnað við hljóðin þegar mýsnar duttu í olíutunnuna, en stórri olíutunnu fullri af vatni hafði verið komið fyrir í húsinu með niðursuðudós sem snerist með ostbita ofan á og þegar mýsnar seildust í ostbitann runnu þær til á dósinni og duttu í tunnuna og drukknuðu. Þau létu frumstæðar aðstæður ekkert á sig fá og hófu að sinna störfum sínum, sem urðu lengri og meiri í Grundarfirði en þau hafði órað fyrir í upphafi.

Fimm árum eftir að þau komu til Grundafjarðar árið 1959 fæddist þeim svo einkasonurinn, „litla kraftaverkið“ eins og séra Bernharður Guðmundsson heitinn, góður vinur pabba, kallaði drenginn þar sem það hafði tekið svo langan tíma að hanna verkið og lengi verið eftir því beðið. Áslaug var mikil barnakona og hændust börn mjög að henni og ætlaði hún sér að eiga mörg börn þótt raunin yrði önnur. Drengurinn varð bara einn og þar af leiðandi varð hann að sækja allar guðsþjónustur með foreldrum sínum frá því að hann gat setið á kirkjubekk sæmilega óstuddur, þar sem enginn var til að gæta hans á meðan. Áslaug sagði oft sögu af því að einhverju sinni í jólaundirbúningi hefði ég spurt mömmu hvenær jólin kæmu nú eiginlega. Hún svaraði því til að þau kæmu þegar Þorláksmessa væri búin. Þá spurði ég hvort Þorláksmessa væri löng og svaraði móðir mín að bragði að hún væri allan daginn. Þá stundi ég og sagði stundarhátt „Allan daginn!“ og hélt að ég þyrfti að sitja í guðsþjónustu allan daginn. Þegar móðir mín sá skelfingarsvipinn á mér var hún fljót að leiðrétta misskilninginn.

Séra Magnús var virðulegur prestur, vel lesinn, hafði lagt stund á framhaldsnám í Svíþjóð og Englandi, vel rit- og talfær á ensku, þýsku, sænsku og dönsku, áhugamaður um latínu og grísku, viðaði að sér efni um guðfræði og sögu og átti mikið bókasafn, kynnti sér nýjungar, lagði sig fram um að efla kirkjuna og kristindóminn í landinu, kunni vel til æskulýðsstarfs og sinnti einnig eldra fólki af sérstakri natni og „svo var hann svo fallegur“ sagði ein konan í sveitinni. Þegar ég var að alast upp höfðu vinir mínir takmarkaðan skilning á störfum prestsins og iðulega fékk maður þá spurningu hvort pabbi ynni virkilega bara í eina klukkustund á sunnudögum, þ.e. þegar hann messaði. Séra Magnús var einhverju sinni spurður um hvað predikanir hans hefðu fjallað. Svarið var stutt en skýrt. Þær fjölluðu um guðsorð. Hann kaus að blanda ekki þjóðmálaumræðu eða öðru slíku dægurþrasi í predikanir sínar.

Séra Magnús var ekki bara einn prestur. Hann hafði við hlið sér prestfrú, sem var engin venjuleg prestfrú. Hún studdi við hann í öllu hans starfi, ekki bara sem organisti og kórstjóri heldur ekki síður í öllu kirkjustarfi bæði með ungum og öldum. Allir vildu Áslaugu hafa. Ef starf aðstoðarprests hefði verið til hefði hún getað sinnt því þótt hún hefði ekki verið guðfræðingur. Þá var hún hjúkrunarfræðingur eins og fyrr er getið og sinnti í sjálfboðavinnu alls konar hjúkrunarstörfum fyrir Grundfirðinga enda var næsti læknir í Stykkishólmi, en þangað var á þeim tíma a.m.k. klukkustundar akstur.

Kirkjubyggingin var mikið verk á þeim tíma og flestir þræðir í höndum föður míns og reyndi það mikið á hann, en haustið eftir að kirkjan var vígð 1966 fann hann, þá liðlega 40 ára, fyrir fyrstu einkennum Parkinson-sjúkdómsins sem átti síðan eftir að móta líf hans og fjölskyldunnar næstu árin. Hann var formlega greindur 1969 og hætti prestsskap 1974, þá 48 ára.

Það eru orð að sönnu að bestu ár þeirra voru á Grundarfirði, þar eignuðust þau vini sem fylgdu þeim alla tíð. Einn þeirra var Bjarni Sigurðsson á Berserkseyri. Í minningargrein um föður minn vitnar séra Jón Þorsteinsson, sem tók við sem prestur á Grundarfirði af séra Magnúsi, til ummæla Bjarna um foreldra mína sem voru eitthvað á þessa leið;

„Það verður vafalaust sagt að þau hjónin hafi reist sér minnisvarða með kirkjubyggingunni – miklu er þó dýrmætari sá óbrotgjarni minnisvarði sem þau hafa reist í hugum fólksins, með framgöngu sinni, ástúð sinni og umhyggju í allra garð í gleði og sorgum.“

Kirkjan í Grundarfirði er falleg og um margt sérstök kirkja. Um kirkjubygginguna segir séra Magnús í grein sem hann birti í Kirkjuritinu: „Árið 1966 var lokið byggingu nýrrar kirkju í kauptúninu í Grundarfirði eða ætti ég heldur að segja kirkjuparts, því að kirkjan var aðeins fullgerð að hluta, vantaði kirkjuskipið og turninn var alveg eftir. Þegar svo menn voru að spyrja mig: Hvers vegna þurfum við alltaf að búa við turnlausar kirkjur, en Setbergskirkja var líka turnlaus, þá vék ég mér undan spurningunum með því að benda á að Grundfirðingar ættu einn glæsilegasta kirkjuturn á landinu og þótt víðar væri leitað, þ.e. Kirkjufellið. Það væri eins og voldugur fingur gerður af almættinu og benti íbúum byggðarlagsins í hæðir. Skyldi ekki lögun fjallsins hafa ráðið einhverju um nafngiftina? Og af fjallinu var síðan dregið hið einstæða nafn Kirkjufjörður. Þótt bæði nöfnin Kirkjufjörður og Grundarfjörður hafi lifað hlið við hlið hefur nafnið Grundarfjörður orðið ofan á með tímanum. Er dálítið óþægilegt þegar svo er komið að sama nafn er á firðinum og á kauptúninu. Væri ef til vill hægt að taka aftur upp hið forna nafn Kirkjufjörður?“ Nú er kirkjan fullbyggð með fallegum kirkjuturni og fer afskaplega fallega með Kirkjufellinu sem nú er orðið heimsfrægt og nafnið Grundarfjörður hefur orðið ofan á og fáir muna eftir nafninu Kirkjufjörður.

Lífið breyttist mikið hjá fjölskyldunni eftir að hún flutti til Reykjavíkur. En samheldni og trúarstyrkur Magnúsar og Áslaugar var einstakur. Viðhorf þeirra var að lífið væri gjöf frá Guði og þau einbeittu sér að því að nýta þá gjöf eins vel og þau gátu. Og þrátt fyrir mikið mótlæti í veikindum Magnúsar héldu þau ótrauð áfram að sinna köllun sinni. Þau voru virk í Hallgrímssöfnuði, sóttu reglulega guðsþjónustur og tóku þátt í safnaðarstarfinu. Þau tóku síðan virkan þátt í starfi Parkinsonsamtakanna og var Áslaug formaður þar í 10 ár. En þegar til Reykjavíkur kom fór hún að vinna við það sem henni var kærast, sem hjúkrunarfræðingur á Barnadeild Hringsins, samhliða því að vera fyrst og síðast einkahjúkrunarfræðingur séra Magnúsar og gerði honum kleift að lifa eins góðu lífi og mögulegt var miðað við aðstæður.

Þá nutu þau þess að fara sem oftast í sumarbústað sinn Brekkuskála á Kiðafelli í Kjós. Þau ræktuðu vel samband sitt við barnabörnin eftir að þau fæddust og töluðu um það sem mikla gæfu að hafa eignast barnabörn auk þess sem tvö bera nöfn þeirra.

Það hefur oftar en ekki komið mér vel að gera grein fyrir því hverjir foreldrar mínar voru og hafa oftar en ekki opnast nýjar dyr og maður fundið fyrir miklum velvilja.

Það var erfitt fyrir föður minn á besta aldri að yfirgefa Grundarfjörð, vegna alvarlegra veikinda, sem gerðu honum ókleift að sinna því starfi sem hann hafði menntað sig til og hafði einlægan áhuga og köllun á að sinna. Á þeim tíma gerði ég mér ekki grein fyrir hversu alvarleg veikindin voru. Faðir minn tók hlutskipti sínu af einstöku æðruleysi og trúfesti hans var einstök.

Sigurbjörn Magnússon.