[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjá ELKO eru tækifæri til lærdóms og vaxtar og vinnustaðurinn er skemmtilegur.

Ég ólst upp í Bolungarvík en var alltaf staðráðin í að fara í Verzlunarskóla Íslands, eins og faðir minn, Jón Þorgeir Einarsson, gerði. Ég var svo heppin að foreldrar mínir studdu mig og hjálpuðu mér að láta þann draum rætast. Þannig að úr varð að ég flutti ein í bæinn 16 ára gömul,“ segir Ingibjörg Þórdís Jónsdóttir, forstöðumaður innkaupa- og vörustýringar hjá ELKO.

„Sem unglingur vann ég í frystihúsinu og fann strax hvað mér þótti framleiðsla spennandi. Þessi reynsla kveikti áhuga minn á verðmætasköpun og leiddi til þess að ég ákvað að fara í iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands þaðan sem ég lauk meistaraprófi árið 2012,“ segir Ingibjörg. „Eftir námið hóf ég störf hjá 66°Norður sem verkefnastjóri á framleiðslusviði þar sem ég lærði gríðarlega mikið á þeim fjórum skemmtilegu árum sem ég starfaði þar. Þaðan lá leiðin til Össurar, fyrst sem innkaupasérfræðingur og síðar sem deildarstjóri deildar sem stýrir kerfum, ferlum og gögnum fyrir framleiðslu- og innkaupaáætlanagerð. Í því starfi áttaði ég mig á því að ég hef mikinn áhuga á umbótavinnu, þróun og umbótum ferla sem og að innleiða tækni sem eykur verðmætasköpun,“ segir Ingibjörg sem bauðst það spennandi tækifæri að ganga til liðs við ELKO í fyrravor sem forstöðumaður innkaupa- og vörustýringarsviðs. „Starfið hefur farið fram úr öllum mínum væntingum. Umhverfið er drífandi og síbreytilegt, mórallinn góður og samstarfsfólk hefur tekið einstaklega vel á móti mér.“

Ólst upp með sterkar kvenfyrirmyndir

Hvernig leggst nýja árið í þig?

„Nýja árið leggst mjög vel í mig, ég er með stór markmið og áætlanir bæði í lífi og starfi. Má þar helst nefna að ég ætla að ná betri árangri í golfinu og ná niður forgjöfinni,“ segir Ingibjörg og bætir við að nýja árið fari vel af stað í ELKO. „Eitt af fyrstu verkefnum ársins er að fara á stóra vörusýningu í Las Vegas þar sem ég ætla að skoða og kynna mér tækninýjungar sem og stefnur og strauma í okkar iðnaði.“

Ingibjörgu líður eins og hún hafi verið í ELKO í mörg ár. „Það var tekið svo einstaklega vel á móti mér alls staðar og ég er svo heppin að vinna daglega með frábæru samstarfsfólki. Ég hlakka til að mæta í vinnuna á hverjum morgni og takast á við áskoranir dagsins, en engir tveir dagar eru eins í ELKO.“

Ingibjörg lítur björtum augum á árið, ekki síst þar sem árið 2025 verða 50 ár liðin frá fyrsta kvennafrídeginum. „Ég man ekki eftir því að það hafi verið mikið um skrúðgöngur á kvennafrídeginum í Bolungarvík þegar ég ólst upp. Ég er þó mjög heppin að hafa alist upp með mjög sterkar kvenfyrirmyndir.“

Sannfærð um að kynjahlutfallið muni jafnast í náinni framtíð

Hún segir enn þá að koma sér á óvart hversu fjölbreytt og vandað vöruúrvalið í ELKO er. „Ég er sífellt að rekast á nýja og gamla gullmola í hillunum. Hjá okkur starfar öflugt og metnaðarfullt teymi vörustjóra sem leggja sig fram við að tryggja að vöruúrvalið sé fjölbreytt og í samræmi við þarfir viðskiptavina okkar. Í ljósi hraðrar tækniþróunar er nauðsynlegt að hafa puttann stöðugt á púlsinum og fylgjast vel með nýjungum og tækniframförum. Vöruútskipti eru mjög hröð þar sem nýjar vörulínur og ný tækni kemur inn á meðan eldri vörulínur og tækni fasast út. Þetta kallar á nákvæma og skilvirka birgðastýringu þar sem lykilatriði er að hafa réttu vörurnar tiltækar á réttum tíma og í hæfilegu magni. Vöruúrvalið okkar er því í stöðugri yfirferð og endurskipulagningu, sem er krefjandi en á sama tíma mjög skemmtilegt,“ segir Ingibjörg og bætir við að birgðastýring sé mikilvægur þáttur í að hámarka hagkvæmni og þjónustugæði og er því lykilatriði þegar kemur að rekstrarniðurstöðu fyrirtækisins.

Hjá ELKO er mikil áhersla lögð á jafnrétti og kynjahlutfallið er jafnt í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. „Heilt yfir í fyrirtækinu eru karlkynsstarfsmenn í töluverðum meirihluta en ég er sannfærð um að kynjahlutfallið hjá ELKO muni jafnast í náinni framtíð. Ég hvet konur eindregið til að sækja um hjá okkur. Hjá ELKO eru tækifæri til lærdóms og vaxtar og vinnustaðurinn er skemmtilegur.“

Sjálfbærni skiptir máli í ELKO

Hún segir öll fyrirtæki þurfa að leggja meiri áherslu á sjálfbærni og á vörusýningunni sem hún fór á síðasta haust hafi sjálfbærni verið mjög heitt umræðuefni. „Það er ljóst að margir framleiðendur eru að vinna að því að þróa tækni sem stuðlar að bættri sjálfbærni. Má þar til dæmis nefna síur sem einangra örplast úr affallsvatni þvottavéla. Við erum einmitt með þannig síur í vöruúrvalinu. Þá er gervigreind einnig mjög áberandi. Þá styttist líklega í að við verðum farin að horfa á sjónvarp í þrívídd, með vélmenni sem hjálpar til við hin ýmsu verkefni og aðstoða sem dæmi við umönnun,“ segir Ingibjörg og bætir við að hún sé stolt af því hvernig ELKO setur sjálfbærni í forgrunn. „Sjálfbærni er ofarlega í huga okkar allra hjá ELKO. Við höfum verið að leita leiða til að bjóða viðskiptavinum okkar upp á sjálfbærari valkosti. Í ár bættum við í vöruúrvalið okkar endurnýjuðum símum og tölvum sem hafa verið yfirfarin og gæðatryggð, sem stuðlar að ábyrgari neyslu og lengri líftíma raftækja. Þá bjóðum við viðskiptavinum að kaupa af þeim gömul snjalltæki sem safna ryki. Þessi tæki eru tekin í sundur, endurunnin og endurnýtt eins og hægt er. Við sjáum fyrir að sala á endurnýjuðum raftækjum verði sífellt stærra hlutfall af sölunni okkar. Eins er ég viss um að fullt af nýjum og spennandi vörum eigi eftir að rata inn í vöruúrvalið okkar á árinu,“ segir Ingibjörg Þórdís Jónsdóttir, forstöðumaður innkaupa- og vörustýringar hjá ELKO.