Sigurvegari Dagur Sigurðsson segir sínum mönnum fyrir verkum á hliðarlínunni í leiknum gegn Ungverjum í Zagreb í gærkvöld.
Sigurvegari Dagur Sigurðsson segir sínum mönnum fyrir verkum á hliðarlínunni í leiknum gegn Ungverjum í Zagreb í gærkvöld. — AFP/Anne-Christine Poujoulat
Ótrúlegur fimm marka lokasprettur færði Króötum, undir stjórn Dags Sigurðssonar, magnaðan sigur á Ungverjum, 31:30, í Zagreb í gærkvöld og sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts karla í handknattleik

HM í handbolta

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ótrúlegur fimm marka lokasprettur færði Króötum, undir stjórn Dags Sigurðssonar, magnaðan sigur á Ungverjum, 31:30, í Zagreb í gærkvöld og sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts karla í handknattleik.

Ungverjar virtust með pálmann í höndunum eftir sveiflukenndan baráttuleik þegar þeir voru komnir í 30:26 skömmu fyrir leikslok.

En með gífurlegri seiglu náðu Króatar að jafna metin í 30:30 og Marin Sipic skoraði síðan sigurmarkið úr hraðaupphlaupi þegar ein sekúnda var eftir af leiknum.

Filip Glavas, sem jafnaði, 30:30, úr vítakasti mínútu fyrir leikslok, skoraði sex mörk fyrir Króata, Sipic og Zvonimir Srna fimm hvor, en Zoran Ilic skoraði átta mörk fyrir Ungverja.

Dagur er því kominn með lið í úrslitaleiki um verðlaunasæti á stórmóti í þriðja sinn á þjálfaraferlinum en árið 2016 varð hann Evrópumeistari með Þjóðverja og krækti í bronsverðlaun á Ólympíuleikunum sama ár. Nú á hann möguleika á að fullkomna þrennuna með verðlaunasæti á heimsmeistaramóti.

Þetta er langþráð fyrir Króata sem voru í úrslitum á hverju stórmótinu á fætur öðru frá 1995 til 2016 en hafa frá þeim tíma aðeins unnið einu sinni til verðlauna.

Sigurmark Frakka frá miðju

Frakkar verða mótherjar Króata í undanúrslitaleiknum í Zagreb á morgun en þeir sigruðu Egypta í seinni leik gærkvöldsins í króatísku höfuðborginni, 34:33, þar sem Luka Karabatic skoraði sigurmarkið frá miðju á síðustu sekúndunni.

Yahia Omar hafði þá jafnað metin fyrir Egypta fimm sekúndum fyrir leikslok og framlenging blasti við.

Frakkar náðu aldrei að hrista Egypta af sér þrátt fyrir að þeir næðu fimm marka forystu í byrjun síðari hálfleiks.

Dika Mem og Nedim Remilli skoruðu sex mörk hvor fyrir Frakka og Aymeric Minne fimm, en Ahmed Hesham skoraði átta mörk fyrir Egypta og Yahia Omar sex.

Hinir tveir undanúrslitaleikirnir fara fram í Bærum í Noregi í dag og kvöld. Þar leika dönsku heimsmeistararnir við Brasilíumenn klukkan 16.30 og Alfreð Gíslason og hans menn í liði Þýskalands mæta Portúgal klukkan 19.30.

Aron Kristjánsson lauk keppni á HM með sigri þegar Barein, undir hans stjórn, vann Alsír, 29:26, í leik um 29. sætið á mótinu. Barein vann tvo leiki af sjö á HM, gegn Alsír og Kúbu.

Höf.: Víðir Sigurðsson