Kumbh Mela Lögreglumenn bera hér eitt fórnarlambanna á brott.
Kumbh Mela Lögreglumenn bera hér eitt fórnarlambanna á brott. — AFP/Arun Sankar
Sorg skyggði á hátíðahöld hindúa í borginni Prayagraj í gærmorgun, en að minnsta kosti 30 manns létu þá lífið þegar þeir tróðust undir mannþröng, sem vildi komast að hinum helgu fljótum, Ganges og Yamuna, um morguninn

Sorg skyggði á hátíðahöld hindúa í borginni Prayagraj í gærmorgun, en að minnsta kosti 30 manns létu þá lífið þegar þeir tróðust undir mannþröng, sem vildi komast að hinum helgu fljótum, Ganges og Yamuna, um morguninn. Braust mannfjöldinn í gegnum lokanir lögreglu og streymdi yfir pílagríma sem sváfu eða sátu við árbakkann.

Kumbh Mela-trúarhátíðin fer nú fram í Prayagraj, en hún felur meðal annars í sér að pílagrímar baða sig þar sem fljótin tvö mætast. Gerðu skipuleggjendur ráð fyrir að allt að 400 milljón manns myndu sækja hátíðina í ár, en hún telst þá stærsta samkoma sögunnar.

Vaibhav Krishna, yfirlögregluþjónn í Prayagraj, greindi frá því í gærkvöldi að 90 manns hefðu verið fluttir á sjúkrahús eftir troðninginn, en að því miður hefðu 30 þeirra beðið bana. Gagnrýndi stjórnarandstaðan á Indlandi skort á upplýsingum um slysið, en Krishna hélt blaðamannafund sinn 18 klukkustundum eftir að það átti sér stað. Þá sakaði stjórnarandstaðan stjórnvöld um að hafa stuðlað að slysinu með lélegri skipulagningu.

Ekki var gert hlé á hátíðinni þrátt fyrir harmleikinn, og tóku milljónir pílagríma þátt í henni í gær, en gærdagurinn átti að vera einn af hápunktum hinnar sex vikna löngu trúarhátíðar. Beindu skipuleggjendur mannfjöldanum frá staðnum þar sem slysið átti sér stað og gáfu út fyrirmæli um að pílagrímar myndu baða sig annars staðar.

Narendra Modi forsætisráðherra lýsti yfir sinni dýpstu samúð með aðstandendum þeirra sem létust og óskaði þess að hinir særðu myndu hljóta skjótan bata. Var fjöldi ættingja kominn saman við sjúkratjald sem sett var upp þar sem slysið átti sér stað.