Hvammsvirkjun Jafnvel þótt virkjunin komist í gagnið þarf meira til.
Hvammsvirkjun Jafnvel þótt virkjunin komist í gagnið þarf meira til.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Minnkandi innrennsli Þórisvatns hefur dregið úr öryggi raforkukerfisins, eins og skýrt kemur fram í rekstrarniðurstöðum síðustu fimm ára.

Hákon Skúlason; Skúli Jóhannsson

Undanfarna daga hefur hrikt í stoðum raforkumála á Íslandi eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði 15. janúar síðastliðinn að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Dómarinn fylgdi þar bókstaflega óljósum ákvæðum laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 og segir að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðist. Hugtakið „vatnshlot“ er nýyrði og notað í vatnalögunum í stað „rennslisþáttar“ sem margir vatnsorkumenn kannast vel við. Þessi hringlandaháttur og klúður með hugtök hefur augsýnilega ruglað suma í ríminu.

Landsvirkjun berst nú fyrir einum af þeim virkjunarkostum í vatnsafli sem eru í orkunýtingarflokki Rammaáætlunar. Ef nýskipuð ríkisstjórn hyggst virkja á næstu árum endurnýjanlega náttúruorku sem samsvarar aukningu í orkugetu upp á 5,0 TWst/ári eða 5.000 GWst/ári nemur orkugeta Hvammsvirkjunar 0,74 TWst/ári og næði aðeins um 15% af því markmiði. Því er ljóst að verkefnið er langt frá því að vera uppfyllt með Hvammsvirkjun einni saman.

Nánari greining

Ef við skoðum Hvammsvirkjun nánar er hún í minni kantinum út frá heildarlandsframleiðslu raforku á Íslandi, sem er um 20 TWst/ári með sértækum takmörkunum á framleiðslu sem að mestu leyti eru samningsbundnar. Þar ber hæst Kárahnjúkavirkjun með um 4,6 TWst/ári. Til samanburðar telst orkugeta Hvammsvirkjunar vera um 0,74 TWst/ári, sem er aðeins um 16% af orkugetu Kárahnjúkavirkjunar, stærstu virkjun á Íslandi, og 3,5% af heildarorkugetu á Íslandi. Hvammsvirkjun kemst ekki nálægt þeim 5,0 TWst/ári sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hefur lagt áherslu á að yrði lagt í á þessu kjörtímabili sem hluti af kosningaloforði. Aðrir virkjunarkostir eru að sjálfsögðu í undirbúningi en til að ná þessum markmiðum þarf klárlega að fara að herða sóknina, meðal annars með stærri vatnsorkukostum.

Aflhönnuð og orkuhönnuð kerfi

Afl og orka eru tvær ólíkar hliðar á raforku. Afl vísar til augnabliksframleiðslu en orka er samanlögð framleiðsla yfir tiltekið tímabil, til dæmis eina klukkustund eða heilt ár.

Í raforkukerfi sem jafnan hefur nægjanlega orku tiltæka, til dæmis í olíutönkum, gastönkum eða kolabingjum, er aflgetan í MW hinn takmarkandi þáttur. Það er aflhannað kerfi eins og evrópska raforkukerfið ber vitni um. Á raforkumarkaði í aflhönnuðu kerfi gerast hlutirnir skyndilega og allt veltur á því að markaðurinn bregðist strax við. Markaðsverð getur á skömmum tíma rokið upp úr öllu valdi, til dæmis í 10.000 USD/MWst, sem sums staðar er hæsta verð á markaði og nánast refsiverð. Meðal-Jóninn gæti farið á hausinn á skömmum tíma ef hann næði ekki að draga hratt úr raforkunotkun sinni, samanber raforkukrísuna í Texas árið 2021.

Hins vegar í raforkukerfi þar sem jafnan er nægjanlegt uppsett afl í virkjunum er tiltæk orka eða aðstreymi vatns hinn takmarkandi þáttur. Vatnsmiðlanir ráða ekki við álagið og vatnsskortur kemur upp við vatnsaflsvirkjanir. Það kallast orkuhannað kerfi, eins og íslenska raforkukerfið er gott dæmi um. Þetta á sífellt meira við um Þórisvatnsmiðlun, sem sér vatnsaflsvirkjunum á Suðurlandi fyrir vatni, en ástandið er mun stöðugra fyrir Hálslón Kárahnjúkavirkjunar á Austurlandi, þar sem undanfarin fimm ár hefur alltaf verið nægjanlegt vatn til raforkuframleiðslu. Í orkuhönnuðu kerfi gerast hlutirnir hægar, en slæmt ástand gæti varað í langan tíma, jafnvel margar vikur, með alvarlegum afleiðingum. Hæsta orkuverð á markaði, eða refsiverðið, ætti því að vera mun lægra, til dæmis 500 USD/MWst.

Aftur um Hvammsvirkjun

Eins og fram hefur komið er Hvammsvirkjun aðeins einn áfangi á leið að ásættanlegu öryggi í sjálfbærum raforkumálum Íslendinga. Miklu meira þarf að gera. Helsta meinsemd raforkukerfisins í dag er að innrennsli Þórisvatns er að minnka, eins og kemur skýrt fram í rekstrarniðurstöðum síðustu fimm ára. Ástæður gætu verið breytt veðurfar, breytt vatnasvæði með hopun jökla eða eitthvað þess háttar. Full ástæða er að fylgjast á næstu misserum vel með rennslisþáttum Þórisvatnsmiðlunar, þar á meðal leka úr lóninu.

Nýjustu áætlanir Landsvirkjunar: Hvammsvirkjun, vindorka, aflaukning í Sigölduvirkjun og stækkun Þeistareykjavirkjunar, beinast aðeins óbeint að þessu vandamáli en ekki hafa verið gerðar tillögur um framkvæmdir sem leiða beint til aukningar á innrennsli Þórisvatns. Að vísu er mönnum ekki hægt um vik vegna kannski ótímabærrar náttúruverndar í Efri-Þjórsá eða sjálfsprottins vanda vegna aukinnar laxagengdar.

Hvammsvirkjun er vissulega skref í rétta átt en leysir ekki stærri áskoranir raforkukerfisins. Minnkandi innrennsli Þórisvatnsmiðlunar hefur mun meiri áhrif á framtíðaröryggi raforku á Íslandi og kallar á tafarlausar aðgerðir. Hvammsvirkjun ein og sér mun ekki tryggja sjálfbærni kerfisins – það þarf að horfa til lausna sem styrkja grunnstoðir þess, þar sem Þórisvatnsmiðlun gegnir lykilhlutverki.

Hákon er framkvæmdastjóri og Skúli er verkfræðingur.

Höf.: Hákon Skúlason; Skúli Jóhannsson