Frásögn Hér segir af Halaveðrinu í Öldinni okkar, þeim vinsælu bókum.
Frásögn Hér segir af Halaveðrinu í Öldinni okkar, þeim vinsælu bókum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ýmislegt verður gert á næstunni í tilefni af því að dagana 7.-9. febrúar er liðin öld frá Halaveðrinu svonefnda og þeim skaða sem því fylgdi. Í ofsa þeim fórst með 35 mönnum togarinn Field Marshal Robertson sem var gerður út frá Hafnarfirði af útgerðarfélagi Hellyersbræðra í Hull í Bretlandi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Ýmislegt verður gert á næstunni í tilefni af því að dagana 7.-9. febrúar er liðin öld frá Halaveðrinu svonefnda og þeim skaða sem því fylgdi. Í ofsa þeim fórst með 35 mönnum togarinn Field Marshal Robertson sem var gerður út frá Hafnarfirði af útgerðarfélagi Hellyersbræðra í Hull í Bretlandi. Einnig fórust 33 sjómenn með togaranum Leifi heppna frá Reykjavík og sex menn með vélbátnum Sólveigu sem fórst við Stafnes. Fleiri létust bæði á sjó og á landi.

Þegar veðrið skall á voru 16 togarar á Halamiðum og þurftu 400-500 sjómenn að berjast fyrir lífi sínu. Mikil leit var gerð að togurunum tveimur sem týndust og stóð hún frá 12. febrúar til 5. mars 1925. Flestir skipverjanna á togurunum tveimur sem fóru í djúpið voru Íslendingar.

Í Hafnarfjarðarkirkju verður sett upp sögusýning um þessa atburði, skv. þeim heimildum sem sr. Þorvaldur Karl Helgason og Egill Þórðarson loftskeytamaður tóku saman. Sýning þessi, sem stendur saman af veggspjöldum og myndum, var upphaflega gerð þegar 95 ár voru liðin frá þessum atburðum og rétt þykir að bregða henni aftur upp nú. Við guðsþjónustu í Hafnarfjarðarkirkju sunnudaginn 9. febrúar verður Halaveðursins minnst. Í aðdraganda þess verða hér á landi bræðurnir Michael og Steven Bartle frá Bretlandi, en þeir eru langafabörn Freds Bartles, 1. vélstjóra á togaranum Field Marshal Robertson. Þeirra er einnig vænst um borð í Óðin; safnskipið í Reykjavíkurhöfn. Menn úr hollvinasamtökum skipsins tengjast þeirri dagskrá sem nú verður til minningar um veðrið á Halanum; fiskislóðinni sem er djúpt út af Vestfjörðum.

„Sýningin sem nú verður dregin fram að nýju er mjög fróðleg. Á sínum tíma grófst sr. Þorvaldur Karl fyrir um ættir og sögu íslensku sjómannanna sem fórust með Field Marshal Robertson. Einnig aflaði hann gagna um landssöfnun sem efnt var til í kjölfar sjóslysanna, minningarathafnirnar sem voru haldnar og fleira. Þá er þarna gerð grein fyrir hverjum og einum íslensku skipverjanna og varpað ljósi á hve mikill sársauki og harmur fylgdi þessu,“ segir Egill Þórðarson.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson