VIÐTAL
Ragnheiður Birgisdóttir
Silja Björk Huldudóttir
Kristín Ómarsdóttir, Rán Flygenring og Guðjón Friðriksson hlutu í gærkvöldi Íslensku bókmenntaverðlaunin 2024 úr hendi Höllu Tómasdóttur forseta Íslands, er þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í 36. sinn. Við sama tækifæri voru Íslensku glæpasagnaverðlaunin – Blóðdropinn 2024, afhent í 19. sinn og þau hlaut Stefán Máni.
Kristín hlaut verðlaunin í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Móðurást: Draumþing sem Mál og menning gefur út; Rán í flokki barna- og ungmennabóka fyrir myndabókina Tjörnin sem Angústúra gefur út og Guðjón í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bókina Börn í Reykjavík sem Mál og menning gefur út. Stefán Máni var verðlaunaður fyrir glæpasöguna Dauðinn einn var vitni sem Sögur útgáfa gefur út.
Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda (Fíbút). Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls tíu bækur. Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðibækur og rit almenns efnis hins vegar. Þannig héldust verðlaunin óbreytt til 2013 að við bætist flokkur barna- og ungmennabóka. Árið 2020 var flokki fagurbóka, eða fagurbókmennta eins og einnig var notað, breytt í flokk skáldverka. Árið 2022 tók Fíbút að sér framkvæmd og fjármögnun Íslensku glæpasagnaverðlaunanna – Blóðdropans og fer veiting þeirra og tilnefningar fram samhliða Íslensku bókmenntaverðlaununum. Verðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverkanna fjögurra og eru kostuð af Fíbút.
Nýr verðlaunagripur, Blængur, blásvartur hrafn steyptur í kopar, eftir myndlistarmanninn Matthías Rúnar Sigurðsson, var afhentur verðlaunahöfum Íslensku bókmenntaverðlaunanna í annað sinn í ár. Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi 20 bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu þau Björn Teitsson, Kristín Ásta Ólafsdóttir, Unnar Geir Unnarsson, Viðar Eggertsson ásamt Kristínu Ingu Viðarsdóttur, forsetaskipuðum formanni nefndarinnar.
Náminu lýkur aldrei
Hólmfríður Matthíasdóttir útgefandi Kristínar Ómarsdóttur flutti ávarp fyrir hennar hönd á Bessastöðum í gærkvöldi, en Kristín var fjarstödd vegna veikinda. Í ávarpinu sínu þakkaði Kristín lesurum bókar sinnar, samstarfsfólki, vinum, systrum og frændfólki. „Ég þakka líka fyrsta tungumálakennara lífs míns, fyrsta móðurmálskennaranum, mömmu minni Hrafnhildi Oddnýju. Það var ótrúlega skemmtilegt að læra að tala hjá henni. Náminu lýkur aldrei. Ég legg við eyru, nem það mál sem hún ólst upp við, amma mín og langamma; tungumál kynslóðanna.“
Þá talaði hún um drauma í anda bókarinnar Móðurást: Draumþing en beindi síðan sjónum út fyrir landsteinana. „Þjóðarmorð er framið á Gaza. Tilskipun nýkjörins Bandaríkjaforseta um að kynin verði eftirleiðis tvö skelfir mig. Um brottflutninga innflytjenda skelfur mig. Hvernig maðurinn talar einsog fasteignasali en ekki forseti um Gaza-strönd. Í hugarheimi hans njóta aðeins útvaldir mannréttinda og frelsis,“ sagði hún og hvatti nýja ríkisstjórn að standa með friði og gegn stríði.
Í umsögn lokadómnefndar um bók Kristínar segir: „Móðurást: Draumþing, skálduð ævisaga langömmu Kristínar, er fallega stíluð saga liðinna kynslóða á ofanverðri nítjándu öld. Framsetningin er brotakennd og ljóðræn og sýnir nýstárlega nálgun við ritun sögulegrar skáldsögu. Höfundi tekst listilega að skapa sögusvið sem er í senn framandi og kunnuglegt, einangrað og opið og veita innsýn í brothætt sálarlíf unglingsstúlku sem stendur á þröskuldi fullorðinsára og nýrra kennda, bundin af öllum þeim væntingum og takmörkunum sem samfélag hennar býr henni. Jónsmessunóttin, sem rammar frásögnina inn, leggur yfir hana blæ töfra og annarleika sem samræmist einkar vel hálfsögðum sögum og því sem liggur á milli lína.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Kristín verðlaunin hafa komið á óvart en að hún hafi þó haft trú á verkinu. Spurð hvort hún sé ánægð fyrir hönd sögupersónu sinnar Oddnýjar segir hún að það sé ekki spurning. Þá nefnir hún að verðlaun sem þessi hafi áhrif í bókmenntabransanum og geti þess vegna komið sér vel. „Verðlaunaféð ætla ég að nota til að koma mér með fyrstu skipum til Parísar og skrifa og kaupa mér gleraugu,“ segir hún.
Var þetta í fimmta sinn sem Kristín er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en í fyrsta sinn sem hún hlýtur þau. Hún segist ekki geta svarað því hvort þetta sé besta bókin hennar til þessa. „Öll verkin mín hafa sína eigin sögu. Engin bók fer eins út í heiminn. Og ég er auðvitað mjög ánægð með viðbrögð lesenda.“
Spurð út í framhaldið á sögu hennar um Oddnýju svarar Kristín: „Ég talaði einhvern tímann um átta bækur en svo veit maður aldrei. Mig langar að halda áfram og ég veit hvað er að fara að gerast í næstu bókum. Ég átti ekki von á því að þessi sögurödd yrði svona nákvæm og myndi staldra jafn lengi við, það kom á óvart.“
Hún segist ef til vill undir áhrifum frá öðrum höfundum samtímans sem skrifa framhaldssögur. „Upphaflega hugmyndin að því að gera þetta að framhaldssögu kom frá útgefanda og vinkonu minni í því augnamiði að herma eftir 19. aldar framhaldssögunum. Ég skrifa líka í samtíma sem uppfullur er af sjónvarpsseríum.“
Þá nefnir Kristín að sér sé hugleikið hvort og þá hvernig höfundar geti komið til móts við dvínandi lestur í samfélaginu. „Maður verður að reyna að gera sitt til þess að sporna gegn þeirri þróun. Nema ef lestur bara líði undir lok og við rithöfundar séum einsog geirfuglar og gervigreindin taki við. En ég hef rosalega trú á þessari blóðrás sem er ekki búin til í verksmiðju, þessu órökrétta og furðulega sem býr í manneskjunni.“
Persónulegasta bókin
„Ég er innilega hrærð og þakklát og smá ringluð yfir því að hljóta þennan hrafn, fyrir einmitt þessa bók. Þessi saga stendur mér mjög nærri. Ég er himinlifandi yfir því að standa hér og fá tækifæri til að þakka fyrir mig,“ sagði Rán þegar hún veitti verðlaununum viðtöku í gærkvöldi. Í framhaldinu tileinkaði hún vinum verðlaunin. „Af því að án vina er ekki neitt, án vina væri engin bók í heiminum til, allavega alls engar góðar bækur.“
Í umsögn lokadómnefndar um bók Ránar segir: „Tjörnin er marglaga saga um undraveröld mitt í hversdegi barna sem finna uppþornaða tjörn í garðinum sínum, sem síðan fyllist lífi. Bókin hentar börnum á öllum aldri jafnt sem fullorðnum og er endalaus uppspretta samtala og nýrra uppgötvana, alveg eins og sjálf tjörnin. Komið er inn á margvísleg viðfangsefni, svo sem vináttu, eignarrétt, stjórn, samvinnu og jafnvel auðlindanýtingu, en allt undir formerkjum ævintýrisins og leiksins. Ímyndunaraflið ræður för í fjörlegum myndum og vinna þær og textinn vel saman auk þess sem einstakur myndheimur Ránar bætir miklu við texta sögunnar. Tjörnin er fallegt og skemmtilegt verk sem lesandinn getur sökkt sér í og sagan dýpkar með hverjum lestri.“ Í samtali við Morgunblaðið segir Rán viðurkenninguna hafa komið sér á óvart. „Tjörnin er á vissan hátt ein persónulegasta bókin mín og því þykir mér sérstaklega vænt um að hún hljóti þessa viðurkenningu,“ segir Rán og tekur fram að hún hafi ekki gert sér neinar væntingar um að lesendur myndu heillast, eins og raunin varð, af sögu um tjörn í garði. Eins og áður hefur komið fram á menningarsíðum Morgunblaðsins seldist Tjörnin upp löngu fyrir jól og keyptu fjölmargir áritað gjafabréf fyrir bókinni þegar hún kæmi úr endurprentun.
Spurð hvaða þýðingu verðlaunin hafi fyrir sig svarar Rán: „Þetta er hvatning til þess að halda áfram að gera það sem ég er að gera. Það sem mér þykir einna vænst um er að fá svona djúpan lestur á verkin mín og mér finnst dýrmætt að finna að bækur mínar nái til lesenda á öllum aldri,“ segir Rán og bendir á að stundum brenni við að litið sé svo á að myndabækur eigi einungis erindi við yngri lesendur og myndefnið aðeins lesið yfirborðskennt. „Tjörnin er löng og þar með krefjandi fyrir yngstu lesendurna, sem virðast þó ekki halda aftur af áhugasömum. Það gleður mig líka þegar ég heyri af fullorðnum lesendum sem kaupa bókina fyrir sig til að lesa og spá í tengsl okkar við náttúruna og okkur sjálf.“
Í ljósi þess að Rán hefur verið tilnefnd til verðlaunanna fjórum sinnum áður, og vann þau líka í fyrra, liggur beint við að spyrja hvort Tjörnin sé besta bók hennar til þessa. „Já,“ svarar Rán að bragði og skellir síðan upp úr. Spurð hvort hún telji að verðlaunin geti hjálpað Tjörninni á erlendri grundu svarar Rán því líka játandi. „Íslensku bókmenntaverðlaunin eru jú mikill gæðastimpill, og það hjálpar auðvitað,“ segir Rán og tekur fram að nú þegar sé búið að semja um útgáfu Tjarnarinnar í bæði Eistlandi og Þýskalandi. „Það er líka óhætt að segja að bækur mínar styðja hver við aðra,“ segir Rán og nefnir sem dæmi að bæði Vigdís – Bókin um fyrsta konuforsetann og Eldgos, sem hlaut Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2023, hafi komið út víða um heiminn. Innt eftir því hvort hún sé búin að ákveða í hvað verðlaunaféð fari svarar Rán: „Ég fer allra minna ferða, líka að vetrarlagi, á 40 kg þungum hollenskum hjólhesti með bilaðri bremsu. Á afhendingardegi verðlaunanna fóru gírarnir! Svo ég ætla að kaupa mér nýtt hjól.“
Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvort Rán sé farin að vinna að næstu bók eða bókum. „Hugurinn er svolítið eins og fjörleg lestarstöð, þar eru margar bækur og hugmyndir á teinunum í einu, einhverjar að koma og aðrar að fara, sumum flýtt og öðrum aflýst. Ein af bókunum sem ég er að vinna að er myndabók með náttúrupælingum sem hugsuð er fyrir fullorðna,“ segir Rán. Spurð hvort sú bók sé væntanleg á þessu ári segir Rán erfitt að svara því, enda sé það í eðli sköpunarferlisins að vera frekar óútreiknanlegt. „Ég er hins vegar svo heppin að vinna með útgefanda sem veitir mér góðan sveigjanleika.“
Vandar ávallt til verka
„Börn eru jafn ólík og fullorðið fólk, hvert með sinn persónuleika og sína sögu. Eitt er þó víst að öll börn eiga það sameiginlegt að vilja lyfta sér á kreik hvort sem þeim tekst það eða ekki. Um það fjallar bókin,“ sagði Guðjón þegar hann veitti verðlaununum viðtöku á Bessastöðum í gærkvöldi. Hann vakti líka máls á því að börn voru lengi vel svo að segja réttlaus í lagalegum skilningi en unnið hafi verið að því á síðustu áratugum að auka réttindi þeirra. „Og þá verður manni hugsað til barna úti í veröldinni þessa daga sem lifa við hungur, þau jafnvel drepin unnvörpum í hræðilegum stríðum eða þeim rænt. Þessi börn fá ekki tækifæri til að lyfta sér á kreik eins og flest íslensk börn. Við megum ekki loka augunum fyrir því,“ sagði hann.
Í umsögn lokadómnefndar um bók Guðjóns segir: „Börn í Reykjavík er yfirgripsmikið og fróðlegt verk um sögu barna í höfuðborginni allt frá þéttbýlismyndun til dagsins í dag. Stíllinn er leikandi léttur og skrifað er af nærfærni og næmni um málefni barna og fjölskyldna, aðbúnað þeirra og umhverfi og textinn dýpkaður með persónulegum sögum. Höfundur dregur einnig fram daglegt líf barna á tímabilinu – leikina, skemmtanirnar, skólamál og skyldurnar – og tengir þetta við þróun og breytingar í borgarsamfélaginu sem var að mótast. Sá fjöldi mynda sem prýðir bókina eykur heimildargildi hennar til muna og með þeim og lifandi frásagnarstílnum tekst Guðjóni að vekja söguna til lífs og draga upp skýra mynd af þróun samfélagsins og áhrifum hennar á börnin. Börn í Reykjavík er tímamótaverk sem er líklegt til að ná til breiðs lesendahóps og auka skilning á stöðu og veruleika barna í nútíð og þátíð.“
Í samtali við Morgunblaðið segir Guðjón: „Ég er afskaplega þakklátur fyrir að fá þessi verðlaun og finnst það mikill heiður. Ég var búinn að fá góðar viðtökur svo ég gerði ráð fyrir að þetta gæti alveg eins gerst.“
Guðjón hefur hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin þrisvar áður, fyrir Bærinn vaknar 1870-1940 árið 1991, fyrir Einar Benediktsson árið 1997 og fyrir Jón Sigurðsson, ævisaga II árið 2003, og hefur þar með hlotið verðlaunin oftast allra. „Mér finnst það merkilegt og er fyrst og fremst ánægður með það, ég get ekki verið annað,“ segir Guðjón.
Spurður hver lykillinn sé að þessari velgengni segir hann: „Ég legg mig fram í öllu sem ég geri og vanda mig. Ég held ég sé prýðilega ritfær þar að auki. Ég held að það sé lykillinn að þessu, mikil vinna og ákveðin færni. Maður er auðvitað orðinn mjög þaulvanur, búinn að standa svo lengi í þessu.“ Um Börn í Reykjavík segir hann: „Ég var nú svo heppinn að Barnavinafélagið Sumargjöf fól mér að gera þetta en ég fékk alveg frjálsar hendur. Þetta átti ekki að vera saga Sumargjafar heldur fjalla um börn í Reykjavík og það er auðvitað skemmtilegra að fást við verkefnið á þann hátt heldur en að skrifa stofnanasögu.“
Guðjón verður áttræður í mars en segist ekki ætla að hætta að skrifa meðan hann heldur góðri heilsu. „Ég hef ákveðið að hætta að taka að mér verkefni fyrir aðra og frekar að gera það sem mig langar til sjálfur,“ segir hann og bætir við að sér hafi þótt vanta handhæg leiðsögurit um þéttbýlisstaði á Íslandi. „Ég valdi Stykkishólm sem gamlan menningarstað á fallegum stað. Ég var þar í heilan mánuð í fyrrasumar og hef verið að dunda mér við að skrifa gönguferðabók um eldri bæjarhlutann. Ég er eiginlega búinn að ljúka handriti að þessari bók og hún er núna til yfirlestrar hjá Hólmurum. Ég á eftir að fá útgefanda að henni svo við sjáum til hvernig það fer.“
Spurður hvort hann sé farinn að velta því fyrir sér hvernig verðlaunaféð gæti nýst segir hann: „Ég er auðvitað kominn á eftirlaun og þetta er ágætis viðbót við lífeyrisgreiðslurnar. Við konan mín höfum gaman af því að ferðast til útlanda og þetta hjálpar til við það.“
Alltaf gott að fá klapp á bakið
„Ég tek við þessum verðlaunum fyrir hönd Harðar Grímssonar lögreglumanns. Hann á þau alveg skuldlaust. Ég er búinn að skrifa og gefa út bækur í tæp 30 ár. Titlarnir eru fleiri en 30 talsins, bækur fyrir fullorðna, börn og unglinga. Saga okkar Harðar spannar 16 ár af þessum 30, og eru bækurnar um hann orðnar 12. Staðan í dag er þannig að Hörður Grímsson er bæði frægari og vinsælli en höfundur bókanna um hann. Sem er bara hið besta mál en Hörður mætti alveg taka að sér kynningar og upplestra og fara í viðtöl og þannig – og jafnvel taka við verðlaunum eins og þessum. En hann er stikkfrír og alveg sáttur við það hlutskipti, blessaður. Hann hefur þó sagst ætla að hugsa um mig í ellinni,“ sagði Stefán Máni þegar hann veitti verðlaununum viðtöku í gærkvöldi.
Í umsögn lokadómnefndar um bók Stefáns Mána segir: „Hér er á ferðinni háspennuævintýri þar sem lögreglan tekst á við yfirvofandi ógn sem steðjar að lífi íbúa Reykjavíkur í kappi við tímann. Atburðarásin er hröð og spennandi og nær niðurtalningin sem sagan hverfist um sterkum tökum á lesandanum. Um leið heldur höfundur áfram að þróa litríka persónu og innri togstreitu hins breyska lögreglumanns Harðar Grímssonar á sannfærandi hátt. Persónulýsingar eru lifandi og marghliða og andrúmsloft ótta og hryllings hratt og örugglega byggt upp, en um leið er gætt að húmor og fínni blæbrigðum mannlífsins. Textinn er myndríkur og sögusviðið og atburðarásin teiknast ljóslifandi upp í huga lesanda.“
Aðspurður hvort viðurkenningin hafi komið sér á óvart svarar Stefán Máni bæði og. „Ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá finnst mér að bókin eigi þetta alveg skilið og ekki síður Hörður, því hann er rosalega vinsæll. En ég hef samt aldrei gert ráð fyrir neinu í þau skipti sem ég hef verið tilnefndur.“ Þetta er í fjórða sinn sem Stefán Máni hlýtur Blóðdropann, en hann hlaut hann fyrir Skipið 2007, því næst fyrir Húsið 2013, fyrir Grimmd 2014 og nú í ár fyrir Dauðinn einn var vitni. Fyrir utan Skipið fjalla allar verðlaunabækur hans um rannsóknarlögreglumanninn Hörð Grímsson.
„Það er afar ánægjulegt að fá aftur verðlaun fyrir bók um Hörð eftir tíu ára eyðimerkurgöngu,“ segir Stefán Máni kíminn og tekur fram að ekki spilli heldur fyrir að setja aftur met í fjölda Blóðdropaviðurkenninga. „Lengi vel var metið mitt með þrjá Blóðdropa þangað til Yrsa Sigurðardóttir náði mér 2021, en nú er ég aftur búinn að taka forystuna. En að öllu gamni slepptu þá má auðvitað velta því fyrir sér hvers vegna glæpasögur séu sér verðlaunaflokkur, en ekki bara hluti af flokki skáldverka. Því með þessu móti er í raun verið að segja að glæpasaga geti aldrei verið áhugaverðasta eða besta skáldverk ársins. Ég myndi vilja sjá glæpasögu vinna Íslensku bókmenntaverðlaunin sem skáldverk ársins. Enda er góð glæpasaga bara góð bók og góðar bókmenntir.“
Spurður hvaða þýðingu viðurkenningin hafi fyrir hann segir Stefán Máni alltaf gott að fá klapp á bakið. „Innifalið í þessari viðurkenningu er að bókin verður framlag Íslands til Glerlykilsins, sem eru samnorræn glæpasagnaverðlaun,“ segir Stefán Máni og tekur fram að hann geri sér vonir um að samningar náist við útgefanda í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð um útgáfu nýjustu bókarinnar á einhverju skandinavíutungumálanna. „Því að öðrum kosti er í reynd ekki hægt að leggja bókina fram, enda kostar a.m.k. um hálfa aðra milljón að láta þýða hana, og það fæst ekki styrkur til þeirrar vinnu og ég vil ekki þurfa að borga með mér,“ segir Stefán Máni og rifjar upp að í þau fyrri skipti sem bækur hans hafa verið valdar sem framlag Íslands til Glerlykilsins hafi í reynd ekki verið hægt að leggja bækurnar fram sökum hás þýðingarkostnaðar. „Ég geri mér hins vegar vonir um að það verði hægt í ár.“
Inntur eftir því hvort hann sé búinn að ákveða í hvað verðlaunaféð fari hugsar Stefán Máni sig um. „Þetta er óvænt spurning. Ætli ég nýti þetta ekki sem staðfestingargjaldið þegar ég panta mér nýjan Land Cruiser.“
Alls hafa 83 höfundar verið verðlaunaðir frá 1989
Guðjón og Stefán Máni báðir verðlaunaðir í fjórða sinn
Íslensku bókmenntaverðlaunin 2024 eru afhent í þremur flokkum. Auk verðlaunaverksins Móðurást: Draumþing eftir Kristínu Ómarsdóttur voru í flokki skáldverka tilnefnd verkin (í stafrófsröð höfunda): Ferðalok eftir Arnald Indriðason; Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur; Jarðljós eftir Gerði Kristnýju og Himintungl yfir heimsins ystu brún eftir Jón Kalman Stefánsson. Alls voru 53 verk lögð fram í þessum flokki.
Auk verðlaunaverksins Tjörnin eftir Rán Flygenring voru í flokki barna- og ungmennabóka tilnefnd verkin: Kærókeppnin eftir Emblu Bachmann og Blævi Guðmundsdóttur myndhöfund; Kasia og Magdalena eftir Hildi Knútsdóttur, Sigrún í safninu eftir Sigrúnu Eldjárn og Vísindalæsi 5 – Kúkur, piss og prump eftir Sævar Helga Bragason og Elías Rúna myndhöfund. Alls voru 35 verk lögð fram í þessum flokki.
Auk verðlaunaverksins Börn í Reykjavík eftir Guðjón Friðriksson voru í flokki fræðibóka og rita almenns efnis tilnefnd verkin: Óli K. eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur; Tónar útlaganna – Þrír landflótta tónlistarmenn sem mótuðu íslenskt menningarlíf eftir Árna Heimi Ingólfsson; Listdans á Íslandi eftir Ingibjörgu Björnsdóttur og Svipur brotanna – Líf og list Bjarna Thorarensen eftir Þóri Óskarsson. Alls voru 36 verk lögð fram í þessum flokki.
Alls hafa 83 höfundar hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin frá því að þau voru fyrst veitt, þar af 29 konur og 54 karlar. Guðjón er fyrstur til að hljóta verðlaunin í fjórða sinn, en hann hefur ávallt verið verðlaunaður fyrir fræðibækur. Tveir höfundar hafa hlotið verðlaunin þrisvar; Andri Snær Magnason sem sigrað hefur í öllum þremur flokkum og Hallgrímur Helgason sem í öll þrjú skiptin var verðlaunaður fyrir skáldverk. Sjö höfundar hafa hlotið verðlaunin tvisvar; Arndís Þórarinsdóttir, Guðbergur Bergsson, Gunnar Helgason, Hörður Ágústsson, Rán Flygenring, Silja Aðalsteinsdóttir og Steinunn Sigurðardóttir. Sé kynjaskipting skoðuð eftir flokkum má sjá að í flokki skáldverka hafa 11 konur og 21 karl hlotið verðlaunin, í flokki barna- og ungmennabóka hafa 10 konur og 3 karlar hlotið verðlaunin og í flokki fræðibóka og rita almenns efnis hafa 8 konur og 32 karlar hlotið verðlaunin.
Íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropinn voru fyrst veitt 2007. Samtals hafa 12 rithöfundar fengið verðlaunin, þar af fimm konur og sjö karlar. Stefán Máni er fyrstur til að hljóta verðlaunin í fjórða sinn, en Yrsa Sigurðardóttir hefur hlotið þau þrisvar og Arnaldur Indriðason og Lilja Sigurðardóttir tvisvar hvort. Auk verðlaunaverksins Dauðinn einn var vitni eftir Stefán Mána voru til Íslensku glæpasagnaverðlaunanna – Blóðdropans 2024 tilnefnd verkin: Kvöldið sem hún hvarf eftir Evu Björgu Ægisdóttur; Brúðumeistarinn eftir Óskar Guðmundsson; Týndur eftir Ragnheiði Gestsdóttur og Völundur eftir Steindór Ívarsson. Alls voru 20 verk lögð fram til verðlaunanna.