Jóhann Páll Jóhannsson
Jóhann Páll Jóhannsson
„Ég hef þungar áhyggjur af stöðu garðyrkjubænda. Þeir eru nú að súpa seyðið af ójafnvægi sem ríkir í raforkukerfinu sem stafar bæði af því að orkuöflun og uppbygging raforkukerfisins hefur ekki gengið nógu hratt og ekki haldið í við vaxandi…

„Ég hef þungar áhyggjur af stöðu garðyrkjubænda. Þeir eru nú að súpa seyðið af ójafnvægi sem ríkir í raforkukerfinu sem stafar bæði af því að orkuöflun og uppbygging raforkukerfisins hefur ekki gengið nógu hratt og ekki haldið í við vaxandi umsvif í samfélaginu, en líka vegna þess að það skortir varnir í kerfinu fyrir heimili og smærri fyrirtæki,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í samtali við Morgunblaðið.

Leitað var viðbragða hans við mikilli hækkun raforkuverðs og ákalli garðyrkjubænda til stjórnvalda, sem sagt var frá í Morgunblaðinu í gær, um aðgerðir til að bregðast við ástandinu.

Hann segir nýja ríkisstjórn staðráðna í að bæta úr þeirri stöðu sem uppi er. „Þegar kemur að niðurgreiðslum og sértækum stuðningi við landbúnað, þá er það á hendi annars ráðuneytis.
Það sem við erum að gera í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er að vinna að lagabreytingum til þess að auka vernd almennra notenda, þannig að heimili og smærri fyrirtæki, garðyrkjubændur m.a., þurfi ekki að keppa við stórnotendur um raforku,“ segir hann og nefnir að vænta megi frumvarpa þar um á vorþingi.

Jóhann Páll segir að málið verði unnið í tveimur skrefum; að tryggja forgang almennra notenda að raforku þegar gripið er til skömmtunar, en stærri skref í sömu átt verði stigin í haust.

Hvað vanda garðyrkjubænda varðar segir hann að samtöl hafi átt sér stað á milli sín, forsætisráðherra og atvinnuvegaráðherra. Kvaðst hann eiga von á að mál garðyrkjubænda yrði tekið upp á ríkisstjórnarfundi á föstudaginn.