Viðtal
María Margrét Jóhannsdóttir
mariamargret@mbl.is
Rómantísk hrollvekja hreiðrar um sig á Stóra sviði Borgarleikhússins annað kvöld. Um er að ræða sýninguna Árið án sumars eftir leikhópinn Marmarabörn og er lokaþáttur í því sem þau kalla hamfara-þríleik en hópurinn hefur áður sýnt verkin Að flytja fjöll í þremur atrennum og Eyður sem hlutu mikið lof og voru sýnd víða erlendis.
Saga Kjerúlf Sigurðardóttir og Kristinn Guðmundsson ræddu við blaðamann Morgunblaðins um tilurð verksins en þau eru bæði höfundar og leikarar ásamt þeim Sigurði Arent Jónssyni, Katrínu Gunnarsdóttur og Védísi Kjartansdóttur. Aðrir sem standa að sýningunni eru sviðsmyndahöfundurinn Guðný Hrund Sigurðardóttir, tónskáldið Gunnar Karel Másson og ljósahönnuðurinn Ólafur Ágúst Stefánsson. Aðstoðarleikstjóri er Birnir Jón Sigurðsson og Igor Dobricic er dramatúrg en framleiðandi er Kara Hergils frá MurMur.
Endalok ferðalags
„Við erum að binda endahnút á ferðalag fimm vina sem hófst í Hamborg árið 2017 en síðan þá eru þau búin að reyna að sigra fjöll, daga uppi á eyðieyju, villast á fleka um úthöfin og eru núna á einhverjum óræðum stað í veröld þar sem óveður geisa, að takast á við samveruna, myrkrið og alla draugana,“ segir Saga. „Já, drauga fortíðar, drauga hið innra og drauga framtíðar sömuleiðis. Vampíran vofir yfir okkur og veit allt en við þurfum samt að bjóða henni í heimsókn,“ bætir Kristinn við.
„Svo stöndum við frammi fyrir vissum endalokum á þessu ferðalagi okkar sem þríleikurinn er, og erum þá mikið að velta fyrir okkur endalokum almennt. Veröldin er á vissum stað sem er pínulítið hræðilegt að horfast í augu við og hryllingurinn er eitt af helstu viðfangsefnum okkar í dag, hér sem og annars staðar.“
Fimm vinir innlyksa í Genf
Söguþráðurinn er að einhverju leyti byggður á raunverulegum atburðum. „Við erum hér að spegla okkur fimm við aðra fimmmenninga sem voru uppi á 19. öld og áttu afdrifaríka dvöl innilokuð í sumarvillu við Genfarvatn 1816,“ segir Saga og er þar að vísa til þess þegar Mary Shelley, Percy Bysshe Shelley, Lord Byron, John William Polidori og Claire Clairmont neyddust til þess að vera innandyra í sumarfríi sínu í Sviss á meðan hið svokallaða „ár án sumars“ gekk yfir og styttu sér stundir við að semja sögur fyrir hvert annað. Þarna varð til dæmis kveikjan að hugmyndinni um Frankenstein eftir Mary Shelley.
„Ástæða þess að þau voru innlyksa var loftslagsglundroði í kjölfar eldgoss í Indónesíu. Þessir fimmmenningar drepa tímann saman og þarna verða til heimsfræg bókmenntaverk. Þetta hefur verið innblástur okkar og við erum að spegla okkur í þeirra aðstæðum nema hvað nú eru okkar ófreskjur aðrar, þær tengjast fortíð okkar, gjörðum og hegðun gagnvart umhverfinu. Líkt og í sögunni um Frankenstein höfum við skapað okkar eigin uppvakning,“ segir Saga.
Fjölbreyttur hópur
Athygli vekur hversu fjölbreyttur hópurinn er sem stendur að sýningunni en um er að ræða fólk sem hefur sérhæft sig í myndlist, dansi og sviðslistum. Hvar mynduð þið staðsetja ykkur innan leikhússins?
„Fyrst og fremst erum við að skapa verk fyrir svið og beitum öllum okkar tólum í því skyni hvort sem það er myndlist, dans, tónlist eða sviðslist. Það fer eftir því hvaða augum maður lítur á verkið, hvort þetta sé dansgjörningur, myndlist eða leikrit, en í raun má segja að við séum að skapa sjónrænar leikhúsupplifanir.“
Saga og Kristinn leggja áherslu á að ekki þurfi að hafa séð fyrri verkin til þess að geta notið þessarar sýningar. „Þetta er sjálfstæður viðburður þó að okkar saga nái lengra aftur. Í fyrri verkunum vorum við að vinna áberandi með áþreifanlegan efnivið eins og plast og reipi til þess að skapa skúlptúrískar frásagnir. Nú erum við að vinna með mun óáþreifanlegri efnivið, veður og hið yfirnáttúrulega, og er það viss áskorun fyrir okkur. Við höfum þar af leiðandi verið að fikra okkur meira í átt að ljóðum og öðrum texta og undirbjuggum okkur talsvert með því að skrifast á í nokkra mánuði og unnum svo úr því.“
Bæði glíma og ást
Aðspurð hvernig samsköpunarferlið gangi fyrir sig segjast þau trúa á ferlið.
„Við erum eins og fimm höfða dreki. Þetta er ekki endilega auðveldasta leiðin og getur verið glíma en á sama tíma er þetta stöðug ást. Okkur líður vel saman og við hræðumst fátt,“ segir Saga. „Við trúum á ferlið og það að á einhverjum tímapunkti fái einhver hugmynd sem kemur okkur á rétta braut. Það væri gaman að vera fluga á vegg til þess að komast að því hver það er sem í raun stjórnar þessu á endanum. Allir hafa sína styrkleika og finna á sér hvenær rétt er að draga sig út úr samtalinu hverju sinni. Ég sem myndlistarmaður finn mig kannski best í að hugsa um innsetninguna á verki, aðrir hlúa að hreyfingum og kóreógrafíu eða texta og samsetningu,“ segir Kristinn.
„Við erum ekki alltaf sammála og vissulega kemur upp núningur en það er gott og mikilvægt líka og maður dregur af því lærdóm. Þetta er eins og að vera í góðu rómantísku sambandi, við erum dugleg að sýna hvað við kunnum vel að meta hvert annað,“ segir Saga og Kristinn tekur í sama streng. „Þetta er annað en þegar maður er myndlistarmaður sem situr einn í stúdíóinu sínu. Hér erum við fimm og það er alltaf einhver sem bendir á nýja vinkla sem maður var ekki búinn að hugsa út í. Jú, vissulega núningur en enginn hnefi á lofti.“
Hópurinn er þegar byrjaður að huga að frekara samstarfi eftir að þessum þríleik lýkur.
„Það er of snemmt að tala um það en okkur finnst gott að vinna saman og viljum halda því áfram í einhverri mynd. Við erum t.d. byrjuð að skrifa handrit að kvikmynd fyrir fimm fyrrverandi vini,“ segir Kristinn.